Atvinnumál

Framsóknarflokkurinn

  • Framsókn vill efla efnahagslífið til að skjóta fleiri stoðum undir innlenda verðmætasköpun svo sem með uppbyggingu í skapandi greinum. Fyrstu skrefin hafa verið stigin með hagvísum skapandi greina og sérstöku rannsóknasetri. Næsta skref er sérstakt ráðuneyti skapandi greina.
  • Framsókn vill efla kvikmyndagerð á Íslandi og hækka endurgreiðslur á kostnaði við kvikmyndagerð hérlendis í 35%. Samhliða þarf stuðning við uppbyggingu innviða fyrir kvikmyndagerð.
  • Nær ótakmörkuð tækifæri eru í hugverkaiðnaði, svo sem líftækni, lyfjaframleiðslu og tengdum greinum. Framsókn vil hvetja til enn frekari fjárfestinga á sviði hugverkaiðnaðar með fjárfestingastuðningi við stærri verkefni.
  • Framsókn vill styrkja Tækniþróunarsjóð og bæta skattaumhverfi nýsköpunarfyrirtækja og frumkvöðla.
  • Framsókn er málsvari lítilla og meðalstórra fyrirtækja og vill taka upp þrepaskipt tryggingagjald og lækka það á slík fyrirtæki. Samhliða því er nauðsynlegt að taka upp fleiri þrep í tekjuskatti fyrirtækja. Hreinan hagnað fyrirtækja umfram 200 m.kr. á ári þarf að skattleggja hærra til á móti lækkuninni til að hún dragi ekki úr getu ríkissjóðs til að standa undir öflugu velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi.
  • Framsókn leggur áherslu á að tekið sé tillit til stærðar fyrirtækja við álagningu ýmissa opinberra gjalda, sem nú eru í formi flatra gjalda og/eða skatta, svo sem gjöld vegna starfsleyfa og úttekta eftirlitsaðila.

Viðreisn

Viðreisn leggur áherslu á samkeppni, sjálfbærni, nýsköpun og jafnrétti í öllum atvinnurekstri og treystir frjálsum markaði almennt til að skila mestum ábata fyrir Ísland. Hlutverk stjórnvalda er að búa fyrirtækjum hagstæð rekstrarskilyrði og draga úr efnahagssveiflum. Í því ljósi þarf að einfalda regluverk, tryggja virka samkeppni og minnka flækjustig í leyfisveitingum á vegum hins opinbera.

Uppbygging alþjóðlegs þekkingariðnaðar og atvinnulífs er leiðin að aukinni hagsæld. Móta þarf atvinnu- og iðnaðarstefnu til lengri tíma þar sem skýrt kemur fram í hvaða atvinnu og grænum iðnaði sækja skal fram og hvernig verður stutt við þá sókn. Viðreisn vill koma á mælaborði nýsköpunar og styðja við sprota frá hugmynd til markaðsvöru, með áherslu á sjálfbærni. Fjárfestar fælast krónuhagkerfið, koma þarf á gengisstöðugleika með því að binda krónuna við evru.

Við þurfum öflugri og sjálfbærari landbúnaða og endurskoða styrkjakerfi landbúnaðarins. Mikilvægt er að ýta undir fjölbreytni og nýsköpun í greininni.

Við þurfum að byggja ferðaþjónustuna á faglegum grunni. Fjárfesta þarf í innviðum á ferðamannastöðum um allt land til verndar umhverfi og náttúru og tryggja jafnari dreifingu ferðamanna um landið.

Viðreisn vill að sanngjarnt verð sé greitt fyrir aðgang að auðlindum okkar og að samningar séu tímabundnir. Viðreisn vill tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar.

Sjálfstæðisflokkurinn

Grundvallarstefna Sjálfstæðisflokksins er að frumkvæði einstaklingsins fái notið sín samfara ábyrgð á eigin athöfnum. Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða velferðarkerfisins. Stjórnvöld eiga að skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið svo nýta megi krafta einstaklinganna til fulls. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru hryggjarstykki íslensks atvinnulífs. Huga verður sérstaklega að umhverfi þeirra er varðar skatta, gjöld og regluverk til að styrkja samkeppnisstöðu þeirra.

Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafa verið stigin markviss skref til að einfalda regluverk atvinnulífsins, auka samkeppnishæfni þess og ýta undir stofnun nýrra fyrirtækja og nýsköpun. Enn er þó mikið verk óunnið. Það þarf að vera einfalt að stofna og reka fyrirtæki og það þarf að vera einfalt fyrir fyrirtæki að ráða starfsfólk. Skattaumhverfi verður að sníða með þeim hætti að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni og þannig að almennt sé ekki þörf fyrir sértækar ívilnanir eða afslátt af opinberum gjöldum. Aukin framleiðni er forsenda hagvaxtar og aukin framleiðni byggir á nýsköpun. Þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld skapi umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum atvinnulífsins.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins leggur áherslu á öflugt atvinnulíf með þátttöku sem flestra enda er fjöldaþátttaka landsmanna í atvinnulífiaflvél verðmætasköpunar og tekjumyndunar í samfélaginu. Við viljum að atvinnuvegum þjóðarinnar séu búin góð skilyrði, ásamt því að heimilum sé tryggð örugg afkoma. Heilbrigð verðmætasköpun er undirstaða velferðar.

Við styðjum nýsköpun heils hugar og viljum skapa hvetjandi skilyrði þess að hugkvæmni og dugnaður einstaklinga fái notið sín með framtaki í atvinnulífinu.

Við leggjum áherslu á þróttmikla atvinnustarfsemi um allt land í landbúnaði, ferðaþjónustu, sjávarútvegi, iðnaði og skapandi greinum. Við fögnum því til dæmis að 16% útflutningstekna Íslands 2019 má rekja til hugverka og skapandi greina. Við viljum tvöfalda þá prósentutölu á næsta kjörtímabili með markvissri sóknaráætlun.

Efla þarf fjölbreytni í atvinnuvegumþjóðarinnar, fjölga eggjunum í körfunni. Stóraukið menntunarstig á að veita okkur spennandi sóknarfæri í næstu framtíð innan nýsköpunar og þróunar á fjölmörgum sviðum þar sem gert er út á útflutning.

Við leggjum áherslu á græna framleiðslu sem skilar úrvalsvörum á breiðu sviði. Hrein raforka og ímynd landsins gefur okkur gott forskot. Við viljum ekki aðeins auka hlutdeild innlendrar framleiðslu á innanlandsmarkaði. Við teljum einnig að neysluvörur á borð við íslenskt grænmeti eigi fullt erindi á erlenda markaði og geti orðið að útflutningsvöru.

Sósíalistaflokkurinn

Skattlagningu fyrirtækja og fjármagns á nýfrjálshyggjutímanum var breytt þannig að hún þjónaði fyrst og fremst auðugustu fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum. Tekjuskattar fyrirtækja voru lækkaðir svo eigendur gátu greitt sér meiri arð, sem aftur var skattlagður minna með lækkun fjármagnstekjuskatts. Með skattaumhverfi eignarhaldsfélaga gátu eigendurnir síðan frestað skattgreiðslum von úr viti og á endanum komist hjá þeim. Á sama tíma var skattlagning á launagreiðslur hækkaðar, en launakostnaður er alla jafnan hærra hlutfall útgjalda hjá smærri fyrirtækjum en stærri.

Í smæstu fyrirtækjunum sækjast eigendur fyrst og fremst eftir öruggu starfi og því að þurfa ekki að vinna hjá öðrum, vera lausir við að lifa undir verkstjórn annarra. Markmið eigenda smáfyrirtækja er fyrst og fremst að geta greitt sér sæmileg laun og hafa trygga atvinnu. Skattabreytingar nýfrjálshyggjuáranna unnu því gegn hagsmunum eigenda smærri fyrirtækja, þeirra sem unnu innan eigin fyrirtækja. Eigendur hlutabréfa í stærri fyrirtækjum sem unnu ekki venjulega vinnu heldur létu auðinn vinna fyrir sig og arðrændu þá sem unnu vinnuna, þeir voru verðlaunaðir með skattalækkunum. Sjá nánar

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn telur mikilvægt að ráðast í kerfisbreytingar sem skili aukinni skilvirkni og framleiðni hjá hinu opinbera. Því er nauðsynlegt að minnka ríkisbáknið, einfalda regluverk og draga úr kerfisræði á Íslandi. Þannig er hægt að draga úr álögum á almenning og lítil og meðalstór fyrirtæki fá aukið frelsi til að skapa ný störf og ný verðmæti. Stjórnvöld eiga að þjónusta almenning, ekki öfugt.

Miðflokkurinn leggur áherslu á að rekstrarstaða og samkeppnisstaða lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði bætt með skattalegum hvötum og einfaldara regluverki þannig að ekki séu lagðar sömu kvaðir á lítil fyrirtækin og þau stærri.

Miðflokkurinn leggur áherslu á að stjórnvöld megi ekki innleiða nýtt íþyngjandi regluverk nema tvöfalt fleiri íþyngjandi reglur verði afnumdar samtímis í samræmi við stefnu ríkisstjórnar áranna 2013-2016.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Slíta verður fjötrana af atvinnulífinu með markvissum hætti. Leita verður einföldustu leiða við innleiðingu reglugerða EES/ESB og innleiða ekki þær reglugerðir sem stangast á við hagsmuni Íslendinga. Flækjustig í regluverki eru mörg og átak verður að gera í samræmingu og stafrænni afgreiðslu. Ódýr raforka skal vera í boði fyrir íslenska nýsköpun, íslenskan iðnað og garðyrkjubændur. Orkuverðið verði ekki hærra en meðalverð Landsvirkjunar til erlendrar stóriðju. Við viljum lækka tryggingagjaldið á öll fyrirtæki og afnema það alveg á fyrirtæki með 5 starfsmenn eða færri. Lækka verður álögur á einstaklinga og fyrirtæki. Lægri skattar stuðla að meiri fjárfestingu og uppbyggingu og þar af leiðandi að fleiri atvinnutækifærum og atvinnuþátttöku. Snúa verður við hverri krónu í ríkisrekstri til að ná fram tilætlaðri hagræðingu í stað þess að bæta í hítina.

Píratar

Stefna Pírata í atvinnumálum miðar að einu: Sjálfbæru samfélagi sem getur tekist á við framtíðina, sjálfvirknivæðingu og fjórðu iðnbyltinguna. Til þess þarf margt að spila saman; eins og nýsköpunarstefna, loftslagsáherslur, menntakerfi og verkalýðsmál.

Nýsköpun:
Nýsköpunarstefnu Pírata er í 20 liðum. Í stefnunni eru margar aðgerðir fyrir nýsköpunarumhverfið á Íslandi, aukið alþjóðlegt nýsköpunarsamstarf og nýsköpun hjá hinu opinbera, auk hvata fyrir nýsköpun í tækni og skapandi greinum um allt land.

Loftslagsáherslur:
Verðmæta- og atvinnusköpun framtíðarinnar verður græn. Því vilja Píratar styðja loftslagsvæn fyrirtæki og stuðla að grænni atvinnuuppbyggingu um allt land, eins og sést í loftslagsstefnunni okkar.

Menntakerfið:
Áherslur í menntamálum þurfa að breytast samhliða aukinni sjálfvirknivæðingu. Í menntastefnu og nýsköpunarstefnu Pírata er t.d. talað um samfellda fræðslu um nýsköpun í menntakerfnu, aukna áherslu á færni sem nýtist í sjálfvirkum heimi sem og meiri sí- og endurmenntun.

Verkalýðsmál:
Með aukinni sjálfvirknivæðingu og grænni umbyltingu hagkerfisins verða verkalýðsmál enn mikilvægari. Við viljum því efla samráð við verkalýðsfélög um atvinnumál og fá fulltrúa starfsmanna í stjórnir fyrirtækja, eins og þekkist á Norðurlöndum.

Sjálfbær iðnaðarstefna:
Íslandi sárvantar framtíðarsýn í atvinnumálum. Okkar fyrsta verk væri því að klára tillögu Pírata, sem Alþingi samþykkti í vor, um að Íslendingar setji sér sjálfbæra iðnaðarstefnu til framtíðar.

Samfylkingin

Samfylkingin boðar nýja og spennandi atvinnustefnu. Við vitum að að öflug velferðarþjónusta - fjölbreytt menntatækifæri og öflugt heilbrigðiskerfi - er grundvöllur þess að atvinnulífið geti blómstrað. Okkar atvinnustefna byggir því á að styrkja innviði, sækja fram fyrir alþjóðageirann, vinna að stafrænni umbreytingu atvinnulífsins. Styðja við tækni, nýsköpun og skapandi greinar og auka þannig fjölbreytni.

Stærsta atvinnumál þessa áratugar er svo réttlát og sjálfbær umbreyting í efnahags- og atvinnulífi til að mæta grænni framtíð. Við þorum að setja fjármagn í fjárfestingar sem við vitum að munu skila sér í aukinni atvinnusköpun síðar, í tengslum við hátækniiðnað, spennandi úrlausnarmál í tengslum við breytta heimsmynd og málefni náttúrunnar og loftslagsins.

Við stöndum með litlum fyrirtækjum; þess vegna ætlum við að setja frítekjumark fyrir tekjuskatt þeirra sem eykur sveigjanleika í rekstri og skapar hvata til fjárfestinga. Og við viljum efla samkeppniseftirlit til muna.

Við þurfum að efla tækifæri fólks til nýsköpunar um allt land. Þess vegna ætlum við að byggja nýsköpunarklasa í öllum helstu þéttbýliskjörnum í samvinnu við heimafólk. Þar sem frumkvöðlar, fyrirtæki og stofnanir fá aðstöðu og stuðning. Við viljum einnig ráðast í sjálfbæra uppbyggingu ferðaþjónustu um allt land, móta ferðamálastefnu og standa fyrir samstilltu átaki til viðhalds og uppbyggingar um allt land.

Vinstri Græn

Mikilvægt er að öflugt, heilbrigt og fjölbreytt atvinnulíf geti þrifist um allt land í sátt við náttúruna og umhverfið.

  • Vinstri græn leggja áherslu á að öllum séu tryggð tækifæri til atvinnu við hæfi á mannsæmandi kjörum og að til staðar séu forsendur sem tryggi öllum jöfn tækifæri til atvinnusköpunar.

  • Vinstri-græn leggja áherslu á að styðja við rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar til að byggja upp öflugri þekkingargeira á Íslandi og skjóta fjölbreyttari stoðum undir efnahagslífið.

  • Vinstri-græn vilja skapa tækifæri til uppbyggingar um allt land og líta ber sérstaklega til grænna starfa og atvinnutækifæra, m.a. í gegnum Hringrásarhagkerfið og í náttúruvernd.

  • Vinstri-græn vilja efla innlenda matvælaframleiðslu, styðja sérstaklega við grænmetisræktun og gera tímasetta áætlun um lífræna matvælaframleiðslu. Mikil tækifæri felast í öflugri innlendri matvælaframleiðslu og um leið er hægt að stuðla að markmiðum okkar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

  • Vinstri græn standa með launafólki og stéttarfélögum þeirra í baráttunni fyrir réttindum og bættum kjörum. Laun þurfa að lágmarki að duga fyrir grunnframfærslu, vinnuvikan á að styttast án kjaraskerðingar og upphæðir almannatrygginga að fylgja launaþróun. Þeim sem ekki eru launafólk þarf að tryggja framfærslu án skilyrða.

Aukin verðmætasköpun og fjölbreytni er forsenda áframhaldandi hagsældar á Íslandi og að unnt sé að bæta lífskjör fólks með sjálfbærum hætti.

Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://vg.is/kosningaaherslur-2021/
Stefna Vinstri grænna í atvinnumálum: https://vg.is/stefna/atvinnumal/
Stefna Vinstri grænna í vinnumarkaðs og verkalýðsmálum: https://vg.is/stefna/vinnumarkads-og-verkalydsmal/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki