Byggðarmál

Framsókn

Framsókn hefur alltaf lagt mikla áherslu á byggðamál og vill tryggja jafna stöðu og tækifæri fyrir alla landsmenn, óháð búsetu. Flokkurinn vill jafna búsetuskilyrði með fjölbreyttum aðgerðum og viðurkenna að hagsæld þjóðarinnar til lengri tíma litið sé háð því að viðhalda fjölbreyttum samfélögum í bæði dreifbýli og þéttbýli um land allt.

Í því felst að m.a. tryggja aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu og fjölbreytt menntunar- og atvinnutækifæri um allt land.

Framsókn leggur áherslu á að efla samgöngukerfi landsins, bæði á landi og í lofti, með því að bæta aðgengi að dreifbýli og tryggja öruggar og skilvirkar samgöngur fyrir alla. Mæta þarf auknu umferðarálagi með uppbyggingu og viðhaldi vega, bæta umferðaröryggi, halda áfram að bæta tengivegi og bora ný jarðgöng hringinn í kringum landið og útrýma einbreiðum brúm. Flokkurinn vill auka fjárfestingu í innviðum, svo sem vegum, brúm, flugvöllum og öðrum samgöngukerfum, til að tryggja að þau séu í góðu ástandi og geti mætt þörfum landsins alls.

Framsókn vill tryggja aðgengi að háhraðaneti og öðrum fjarskiptalausnum um allt land, sérstaklega í dreifbýli, til að stuðla að jafnrétti í menntun, atvinnu og þjónustu. Flokkurinn vill stuðla að uppbyggingu sveigjanlegs náms og fjarnáms til að auka aðgengi að menntun fyrir alla, óháð búsetu.

Framsókn vill styrkja innviði heilbrigðis- og menntakerfisins, með því að auka fjárveitingar til sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og menntastofnana, svo að allir hafi aðgang að nauðsynlegri þjónustu, óháð búsetu.

Flokkurinn vill jafna tækifæri fólks á landsbyggðinni og í þéttbýli með því að skapa fjölbreytt störf víða um land. Flokkurinn vill tryggja jafna dreifingu atvinnutækifæra um landið. Markmiðið er að tryggja öflugt atvinnulíf í öllum landshlutum og stuðla að því að ungt fólk sjái sér fært að búa og starfa á landsbyggðinni. Framsókn styður einnig sjálfbæra ferðaþjónustu, sterkan landbúnað og aðgengi að fjármagni fyrir sprotafyrirtæki, með það að markmiði að efla efnahagslífið í öllum landshlutum.

Viðreisn

Fólk þarf að hafa valkosti um hvar það býr sér heimili. Með því að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu er stuðlað að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Efling allra landsbyggðarkjarna með öflugum innviðum gerir sveitarfélögum kleift að laða til sín íbúa og atvinnuskapandi fyrirtæki.

Viðreisn vill gera starfsfólki í stjórnsýslu og hjá stofnunum ríkisins mögulegt að vinna í sinni heimabyggð. Á stærri þéttbýlisstöðum ýmist eru eða er auðvelt að setja upp vinnurými fyrir starfsfólk ríkisins þaðan sem það getur unnið sín daglegu störf í fjarvinnu. Þannig styrkist landsbyggðin.

Viðreisn styður sameiningu og stækkun sveitarfélaga með það fyrir augum að draga úr yfirbyggingu og efla nærþjónustu á hagkvæman hátt. Það er forsenda þess að unnt sé að fela þeim fleiri verkefni sem nú er sinnt af ríkisvaldinu, enda séu það hagsmunir íbúa.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn telur frelsi til vals um búsetu mikilvægt og leggur áherslu á að með öflugri grunnþjónustu verði byggð um allt land best tryggð. Tækifæri landsbyggðanna til aukinna lífsgæða íbúa verða best tryggð með tryggu og nægu rafmagni, fjölbreyttri menntun, góðum samgöngum og öflugum fjarskiptum. Einnig er brýnt að forsendur skapist fyrir fjölbreyttu námsframboði, jafnt með staðbundnu námi og fjarnámi. Mótuð verði heildstæð og framsækin byggðastefna til lengri tíma með áherslu á jöfn tækifæri til atvinnu og búsetu. Grunnur að auknum lífsgæðum er lagður með því að nýta gæði landsins sem best. Uppbygging og stuðningur við nýsköpun treystir búsetuskilyrði í landinu.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins vill efla okkar brothættu byggðir með því að gefa handfæraveiðar frjálsar. Flokkur fólksins vill einnig efla samgöngur milli landshluta með því að ráðast í mikilvægar vegaúrbætur og jarðgangnagerð. Við viljum jafnframt leggja áherslu á að efla heilbrigðisþjónustu í hinum dreifðu byggðum. Til þess að byggð haldist í landinu öllu er brýnt að starfsemi hins opinbera úti á landi verði í fullu samræmi við þarfir íbúanna, fjölda þeirra og samgöngur á viðkomandi svæði. Við gerum kröfu um að komið verði í veg fyrir að stórir hlutar lands færist í hendur erlendra aðila, t.d. með því að gera búsetu á Íslandi sem skilyrði fyrir eignarhaldi.

Sósíalistaflokkurinn

Sósíalistaflokkur Íslands vill vernda byggðina um landið og náttúruna. Takmarkanir skulu settar á eignarhald jarða þannig að einstaklingar eða fyrirtæki geti ekki safnað upp jörðum. Þá skal fiskveiðikvóti endurheimtur og byggðum sem áður blómstruðu en hafa orðið fyrir tjóni vegna kvótaframsals braskara bætt það upp, sjá nánar m.a. í stefnu Sósíalistaflokksins í auðlindamálum. Sósíalistaflokkurinn leggur til að fiskveiðistefna verði mótuð til lengri tíma þar sem sjómenn, fiskverkafólk og almenningur mótar fiskveiðistefnuna. Þá þarf að leggja áherslu á mjög góðar samgöngur innan hvers sveitarfélags þannig að allir íbúar geti notið þjónustu innan þess án mikils kostnaðar og fyrirhafnar. Þá skal styrkja alla innviði svo hver landsfjórðungur verði sjálfbær og ekki þurfi að sækja mikilvæga þjónustu annað. Stefna Sósíalistaflokksins er að íbúar landsins búi við sem líkust skilyrði frá hinu opinbera og geti sótt sér þjónustu í heimabyggð. Þannig verði opinber þjónusta veitt af sveitarfélögum og staðbundnum stjórnvöldum og þjónustu sem ríkið veitir verði einnig dreift um landið. Tryggja skal öryggi íbúa landsbyggðarinnar með uppbyggingu þeirra innviða sem þarf svo sem með betri heilbrigðisþjónustu svo að hver fjórðungur sé til þess bær að sinna lækningum, endurhæfingu og almennri heilsu íbúanna með sjúkrahúsum og heilsugæslum og hjúkrunarrýmum íbúum að kostnaðarlausu eins og segir í stefnu Sósíalistaflokksins um heilbrigðismál. Tryggja þarf öryggismál á landsbyggðinni með nauðsynlegum orkuverum, fjarskiptabúnaði, snjóflóðavörnum og annarri nauðsynlegri þjónustu og að rafmagn og varaaflsstöðvar séu til staðar í öllum byggðum. Þá þurfa að liggja fyrir skýrar og þekktar viðbragðsáætlanir með rýmingaráætlunum þar sem hætta er á eldgosum eða öðrum náttúruhamförum. Gera þarf öllum byggðarlögum jafn hátt undir höfði með réttlátri valddreifingu. Þá er stefna Sósíalistaflokksins sú að vægi atkvæða til kosninga verði jafnt og óháð búsetu þegar kemur að kosningum til Alþingis. Sjá nánar í byggðastefnu og öðrum stefnum.

Lýðræðisflokkurinn

Lýðræðisflokkurinn stendur vörð um atvinnufrelsi manna og vill auka það á öllum sviðum. Bæta þarf rekstraraðstöðu og samkeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja einfaldara regluverki og með því að draga úr eða fella niður álögur.

Lýðræðisflokkurinn vill efla innlenda atvinnustarfsemi m.a. með því

…að stuðla að aukinni framleiðni hérlendis, efla hagvöxt og tryggja þar með hagsæld og framfarir á Íslandi. Á vettvangi ríkisfjármála leggur Lýðræðisflokkurinn áherslu á hófsemi í útgjöldum og sköttum. Útþensla ríkisins verði stöðvuð, dregið verði úr ríkisumsvifum og kostir einkaframtaksins nýttir. Með skattalækkunum verði fólk hvatt til aukinnar atvinnuþátttöku og nýsköpunar.

…með það að markmiði að Ísland sé sjálfbært í matvælaframleiðslu. Standa ber vörð um íslenskan landbúnað, þ.m.t. framleiðslu á kjöti og grænmeti. Leysa ber íslenska bændur undan forsjárhyggju og miðstýringu. Stuðla ber að nýliðun í landbúnaði.

…með því að bændum verði gert kleift að nýta sóknarfæri á hverjum stað, stuðla að nýbreytni í heilnæmri búvöru á öllum sviðum, m.a. með því að selja vöru sína beint frá býli. Neytendum verði tryggðar öruggar upplýsingar um uppruna og innihald allrar búvöru.

…með því að leiðrétta valdaójafnvægi milli stórútgerðar og almannahagsmuna. Búa sjávarútvegi skilyrði til að sækja fram, á jafnræðisgrunni. Allur fiskur sem veiddur er á Íslandsmiðum verði seldur á fiskmarkaði.

…með því að skapa ferðaþjónustu skilyrði um land allt til áframhaldandi atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar. Erlendir ferðamenn greiði komugjald sem nýtt verði eingöngu til innviðauppbyggingar og til að vernda viðkvæma staði í ríkiseigu fyrir átroðningi. Að auki verði kröfur um ráðstöfunarfé ferðamanna hækkaðar.

…með því að náttúruperlur verði verndaðar og vatns- og jarðvarmaorka verði nýtt í jafnvægi við náttúruna.

Miðflokkurinn

Kjarninn í byggðastefnu Miðflokksins birtist í slagorðinu „Ísland allt“ sem gengur út á að innleiða heildarsýn í byggðamálum þar sem jafnrétti allra, óháð búsetu, verður tryggt. Byggðastefnan „Ísland allt“ hefur aldrei verið eins aðkallandi og nú. Aðeins á þann hátt getum við farið úr dýrri vörn í arðbæra sókn fyrir landið allt.

Í stað þess að reyna smáskammtalækningar hér og þar er mikilvægt að allar aðgerðir tengist saman og eitt styðji annað. „Íslandi allt“ er ætlað að ná til allra þátta sem skipta byggð í landinu miklu, svo sem samgangna, fjarskipta, orkuflutninga, heilbrigðisþjónustu, menntamála, aðstæðna atvinnurekenda og allrar annarrar þeirrar þjónustu sem allir landsmenn eiga jafnan rétt á.

Kjarninn í byggðastefnu Miðflokksins birtist í slagorðinu „Ísland allt“ sem gengur út á að innleiða heildarsýn í byggðamálum þar sem jafnrétti allra, óháð búsetu, verður tryggt. Byggðastefnan „Ísland allt“ hefur aldrei verið eins aðkallandi og nú. Aðeins á þann hátt getum við farið úr dýrri vörn í arðbæra sókn fyrir landið allt.

Í stað þess að reyna smáskammtalækningar hér og þar er mikilvægt að allar aðgerðir tengist saman og eitt styðji annað. „Íslandi allt“ er ætlað að ná til allra þátta sem skipta byggð í landinu miklu, svo sem samgangna, fjarskipta, orkuflutninga, heilbrigðisþjónustu, menntamála, aðstæðna atvinnurekenda og allrar annarrar þeirrar þjónustu sem allir landsmenn eiga jafnan rétt á.

Tímabært er að hverfa frá viðvarandi og árangurslítilli vörn í samgöngumálum og hefja sókn á því sviði og fjárfesta í öllum nauðsynlegum innviðum sem eru til þess fallnir að Ísland virki sem sterk heild í þágu samfélagsins alls.

Píratar

Píratar ætla að:

  • Draga úr miðstýringu og efla lýðræði.
  • Efla tekjustofna sveitarfélaga.
  • Styrkja innviði um allt land.
  • Auka aðgengi að þjónustu óháð búsetu.
  • Valdefla íbúa með beinu lýðræði.

Öll sveitarfélög landsins eiga að vera sjálfbær og geta boðið íbúum upp á þá grunnþjónustu sem þeir eiga rétt á. Þannig sköpum við aðstæður sem tryggja aukna nýsköpun og framleiðslu í heimahögum. Píratar vilja draga úr miðstýringu valds og færa ákvarðanatöku í málefnum byggða og sveitarfélaga í auknum mæli til nærsamfélagsins. Einnig þarf að tryggja að stærra hlutfall skatttekna svæðisbundinnar starfsemi renni beint til sveitarfélaganna. Píratar ætla að vinna að byggðarstefnu í samvinnu við íbúa en aukið íbúalýðræði í nærsamfélagi er grundvöllur fyrir sterku og valdeflandi samfélagi. Til að styðja við sjálfbæra þróun viljum við ljúka ljósleiðaravæðingu allra byggðakjarna landsins og tryggja örugg fjarskipti um land allt. Píratar vita að skilvirkar og umhverfisvænar samgöngur með fullfjármagnaðri samgönguáætlun virka og munu aukna áhrif hvers landshluta á forgangsröðun. Stuðla skal að umhverfisvænni uppfærslu í frárennslis-, endurvinnslu- og sorpmálum í samvinnu við sveitarfélögin. Píratar vilja trausta innviði sem styðja við framþróun um allt land. Þar á meðal frjálst internet um ljósleiðara, þriggja fasa rafmagn og öruggar samgöngur. Aðgengi að félagslegum stuðningi, heilbrigðisþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu, íbúðarhúsnæði og menntun við hæfi á að vera öllum tryggð. Búseta á ekki að koma í veg fyrir að fólk hafi aðgengi að nauðsynlegri þjónustu, heldur skal heilbrigðisþjónusta vera aðgengileg í heimabyggð fólks.

Samfylkingin

Samfylkingin lítur á Ísland sem eina heild. Jafna verður tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Lífæðar allra samfélaga eru sterkir grunninnviðir, án þeirra verða hvorki framfarir né framþróun. Samfylkingin leggur áherslu á jafnt aðgengi allra landsmanna að grunnþjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu. Til þess þarf að efla samgöngur verulega og auka niðurgreiðslu ferðakostnaðar til þeirra sem þurfa að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu um langan veg.

Skapa þarf aðstæður til fjölbreyttrar atvinnusköpunar og gefa landshlutum tækifæri til þróast á grunni styrkleika hverrar byggðar. Stjórnvöld eiga að vera í fararbroddi í að stuðla að fjölbreyttum og verðmætum störfum um allt land. Til að styðja við byggðaþróun og búsetufrelsi verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega. Samfylkingin leggur áherslu á góða samvinnu milli borgar og byggða á grundvelli jafnvægis og gagnkvæmrar virðingar.

Samfylkingin vill draga úr ójöfnuði og aðstöðumun í íslensku samfélagi. Það kallar á aukna samvinnu við að tryggja jöfn tækifæri og möguleika allra landsmanna óháð búsetu, svo sem til atvinnu, menntunar, menningar og hvers kyns þjónustu. Huga þarf sérstaklega að því að börn alls staðar á landinu njóti jafnra tækifæra til menntunar og íþrótta- og tómstundastarfs. Samfylkingin leggur áherslu á öflugt sveitarstjórnarstig og nauðsyn þess að bæta samskipti ríkis og sveitarfélaga og skapa þannig farsæl samskipti og traust á milli aðila. Sérstaklega mikilvægt er að efla efnahagssamráð og samstarf vegna húsnæðisuppbyggingar á milli ríkis og sveitarfélaga.

Vinstri Græn

Blómleg byggð í öllum landshlutum

  • Umbætur verði gerðar á byggða- og atvinnukerfum ásamt því að tryggt sé að strandveiðar skiptist á réttlátan hátt milli byggða landsins.
  • Tryggt verði að nýtt stuðningskerfi landbúnaðar virki fyrir bændur og fjárfestingarstyrkir og styrkir til nýliða verði auknir. (stefna VG í landbúnaðarmálum er nánari. Hér)
  • Framlög til samgönguáætlunar verði aukin svo að unnt sé að flýta brýnum verkefnum í samgönguáætlun, jarðgangnaáætlun fjármögnuð og staðið við samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu. Nauðsynlegt er að loftslagsvænar lausnir liggi til grundvallar í samgöngum
  • Tryggja þarf heilbrigðisþjónustu og aðgengi að lyfjum í heimabyggð. Efla þarf heilsugæslu um allt land í að sinna grunnheilbrigðisþjónustu við íbúa ásamt öruggum sjúkraflutningum. Til að tryggja byggðajafnrétti þarf að skilgreina lágmarksþjónustu viðmið ríkis og sveitarfélaga.
  • Halda þarf áfram að efla þjónustu við eldra fólk og samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu í gegnum verkefnið Gott að eldast.
  • Tryggja þarf raforkuöryggi til heimila þannig að heimili séu varin fyrir óhóflegum hækkunum á raforkuverði.
  • Efla þarf byggðajafnrétti með þátttöku fulltrúa frá öllu landinu í nefndum og ráðum ríkisins og efla svæðisstöðvar RÚV um allt land. Öflug og fjölbreytt menningarstarfsemi er ein af undirstöðum íslensks samfélags og hluti af langri sögu, menningararfi og íslenskri tungu.
  • Efla þarf almennt íbúalýðræði. Styðja þarf sérstaklega við lýðræðisþátttöku jaðarsettra hópa
  • Hið opinbera hafi forgöngu um að auglýsa störf án staðsetningar og aðrir atvinnurekendur verði hvattir til hins sama.
  • Efla námsframboð á öllum skólastigum í öllum landshlutum. Styrkja heilsugæslu, heilbrigðisstofnanir og fjarheilbrigðisþjónustu og byggja upp meira af hagkvæmu og fjölbreyttu íbúðarhúsnæði um allt land.
  • Fjölga friðlýstum svæðum og störfum við náttúruvernd, en rannsóknir sýna að það skilar einnig fjárhagslegum ábata heim í hérað.

Allir landshlutar eiga að geta boðið upp á fjölbreytt og aðlaðandi búsetuskilyrði fyrir núverandi íbúa, nýja íbúa og nýjar kynslóðir. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í byggðamálum: https://vg.is/stefna/byggdamal/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki.
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.