Stjórnarskrármál

Framsóknarflokkurinn

  • Framsókn fagnar heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og leggur áherslu á að þeirri vinnu verði haldið áfram og að tryggt verði að henni lokinni að ákvæði hennar endurspegli sem best sameiginleg grunngildi þjóðarinnar. Þar ber helst að nefna ný ákvæði um auðlindir í þjóðareigu, umhverfisvernd og stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Afstaða Framsóknar til slíkra afmarkaðra breytinga miðast við gildi og grundvallarstefnu flokksins og þá efnahagslegu sýn að manngildið sé fremra auðgildinu. Slík endurskoðun þarf að byggja á trúverðugu ferli sem endurspeglar eðli verkefnisins. Stjórnarskráin er samfélagssáttmáli þeirra sem byggja Ísland og því þarf ferlið við endurskoðun hennar að byggja á gagnsæi og skýru lýðræðislegu umboði.
  • Framsókn styður tilvist forsetaembættis, sem hafi vel skilgreind og virk úrræði til þess að veita mótvægi við ofríki annarra þátta ríkisvaldsins, til dæmis með því að skjóta umdeildum málum í atkvæði þjóðarinnar. Einnig mætti huga að auknum möguleikum borgaranna til þess að andmæla gjörðum handhafa ríkisvaldsins með lýðræðislegum hætti, til dæmis með því að knýja á um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur í krafti undirskriftasafnana. Forseti þarf að hafa skýrt umboð meirihluta þjóðarinnar sem meðal annars væri hægt að ná fram með tveimur umferðum kosninga eða varaatkvæðiskerfi (e. Alternative vote). Endurmeta ætti ákvæði um lágmarksaldur forseta.

Viðreisn

Viðreisn styður að gerðar verði verulegar endurbætur á stjórnarskránni. Litið verði til tillagna stjórnlagaráðs sem og annarra hugmynda sem komið hafa fram síðan. Lögð verði áhersla á að ná fram raunverulegum réttarbótum sem tryggja eignarhald þjóðarinnar í náttúruauðlindum til framtíðar, með markaðsverði fyrir tímabundin afnot.

Með breytingu á stjórnarskrá er einnig mikilvægt að tryggja jöfnun atkvæðavægis og jafnræði meðal trúfélaga með fullum aðskilnaði ríkis og kirkju. Ríkið á að leggja af úthlutun sóknargjalda og hætta skráningu trúar- og lífsskoðana. Skerpa þarf á þrískiptingu ríkisvaldsins með aukinni aðgreiningu valdþátta og þannig auka tiltrú fólks á dómstólum og löggjafanum.

Sjálfstæðisflokkurinn

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipunar landsins. Stjórnarskráin kveður á um grundvallarreglur lýðveldisins og mannréttindi borgaranna og hefur tekið nauðsynlegum breytingum á lýðveldistímanum. Tilefni er til endurskoðunar ákveðinna þátta stjórnarskrárinnar en hyggja þarf vel að þeim breytingum og ráðrúm þarf að gefast, bæði innan þings og utan, til að gaumgæfa tillögur að breytingum á henni. Heildarendurskoðun sem umturnar öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar samræmist illa sjónarmiðum um réttaröryggi og fyrirsjáanleika. Mikilvægt er að fylgja ákvæðum stjórnarskrár um hvernig standa skuli að breytingum á grunnlögum landsins. Að sama skapi telur Sjálfstæðisflokkurinn mikilvægt að breytingar á stjórnarskrá séu gerðar í víðtækri pólitískri sátt.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins vill standa vörð um sjálfstæði Íslands. Við munum standa gegn öllum tillögum sem skert geta fullveldisrétt Íslendinga yfir auðlindum sínum.

Við viljum stuðla að ábyrgum breytingum á stjórnarskránni með víðtækri samstöðu.

Við leggjum áherslu á að auðlindaákvæði verði bætt inn í stjórnarskrána. Það er skilyrðislaus krafa í þeim efnum að auðlindirnar verði skilgreindar sem þjóðareign er megi aldrei framselja með varanlegum hætti og að fyrir afnot af þeim verði greitt fullt verð.

Ávallt ber að standa af árvekni vörð um ákvæði stjórnarskrárinnar er varða réttindi einstaklinganna. Ríka áherslu ber að leggja á virðingu fyrir sjálfstæðum rétti einstaklingsins. Sömu réttindi skulu gilda fyrir alla, óháð stjórnmálaskoðunum, trú, litarhætti, kynferði eða kynhneigð.

Sósíalistaflokkurinn

Þjóðaratkvæðagreiðslur ber að nýta í mikilvægum málum er varða almannaheill og skal Alþingi virða þær eins og krafist er í nýrri stjórnarskrá. Ný stjórnarskrá skal taka gildi strax samkvæmt því ferli sem hófst með kosningu til stjórnlagaráðs árið 2010, sem lagði fram drög sem kosið var um og samþykkt með 66.9% greiddra atkvæða. Þá ber í framhaldinu að virða stjórnarskrána en jafnframt að umgangast hana sem lifandi samfélagssáttmála, sem getur tekið breytingu með þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjá nánar

Eitt er að slembivelja stjórnlagaþing sem endurskoðaði stjórnarskrá lýðveldisins reglulega, hið fyrsta myndi byrja á frumvarpi stjórnlagaráðs frá 2011 sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu að yrði grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Með slembivali væri tryggt að stjórnarskráin væri ekki sett af þingheimi eða þröngri elítu heldur endurspeglaði vilja meginþorra fólks. Með þessu væru grunnlögin aðgreind frá átökum daglegra stjórnmála. Reynslan hefur sýnt að Alþingi hefur verið um megn að gera gagngera endurskoðun á stjórnarskrá eða afgreiða frumvarp stjórnlagaráðs. Með því að Alþingi skeri sig frá ferlinu og feli stjórnlagaþingi að afgreiða frumvarp stjórnlagaráðs er hægt að leysa þann hnút sem þetta mál er í bæði auðveldar og fyrr. Sjá nánar

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn virðir stjórnarskrá landsins, meðal annars með því að ítreka að ekki séu gerðar breytingar á stjórnarskrá öðru vísi en að það sé í samræmi við ákvæði gildandi stjórnarskrár þar um.

Miðflokkurinn styður endurskoðun stjórnarskrárinnar enda hefur slík endurskoðun með einum eða öðrum hætti verið á stefnuskrá allra ríkisstjórna Íslands frá árinu 2009. Enn sem fyrr virðist skorta á samstöðu meðal þings og þjóðar um hverju á að breyta og jafnvel hvernig standa á að breytingum. Þó hefur verið ákveðin samstaða um ýmsar endurbætur er varðar stjórnarskrána og hefur Miðflokkurinn ávallt stutt að leita að því sem menn gætu náð saman um og ráðast í breytingar í samræmi við það. Miðflokkurinn leggst gegn byltingarkenndum breytingum á grunnriti stjórnskipunar okkar enda getur slíkt skapað réttaróvissu. Mikilvægt er að vel sé staðið að breytingum á þeim lögum sem ríki setja sér um grundvallarreglur varðandi skipulag og æðstu stjórn ríkisins og valdmörk þeirra sem fara með ríkisvald.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Flokkurinn aðhyllist að tillögur stjórnlagaráðs verði notaðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Flokkurinn vill notast við þjóðfundafyrirkomulag á þessari vegferð þar sem þátttakendur eru valdir með slembiúrtaki. Flokkurinn vill tryggja fullveldi landsins í stjórnarskrá lýðveldisins. Þjóðin verði stjórnarskrárgjafinn.

Píratar

Stefna Pírata í stjórnarskrármálum er mjög einföld:

Við viljum að Alþingi innleiði nýja stjórnarskrá sem grundvallast á tillögum stjórnlagaráðs á næsta kjörtímabili, líkt og þjóðin kvað á um þann 20. október 2012. Alþingi á að virða vilja þjóðarinnar og efna loforðið frá lýðveldisstofnun um að íslenska þjóðin fái nýja stjórnarskrá.

Klárum stjórnarskrána á kjörtímabilinu
Við viljum að Alþingi samþykki nýju stjórnarskrána á kjörtímabilinu og efni til þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfarið, samhliða þar næstu alþingiskosningum. Nýja stjórnarskráin tekur af ríkjandi vafa um valdmörk og ábyrgð valdhafa, festir nútímaleg mannréttindi í sessi, tryggir náttúruauðlindir í þjóðareign og eflir lýðræði, náttúruvernd og gagnsæja stjórnsýslu án þess að kollvarpa stjórnskipan landsins.

Ríkt almenningssamráð og vönduð vinnubrögð
Píratar vilja að öll umræða um möguleg frávik frá tillögum stjórnlagaráðs fari fram í víðtæku og opnu samráði við almenning. Tillögur stjórnlagaráðs eiga að vera útgangspunkturinn og breytingar eiga að ná markmiðum eða anda þeirra. Við teljum farsælast að Alþingi taki nýju stjórnarskrána og einstök ákvæði hennar til umræðu á hverju ári næsta kjörtímabils, til að varpa ljósi á einstök efnisleg ágreiningsatriði og veita öllum á þingi svigrúm til að tjá skoðanir sínar á málinu.

Samfylkingin

Samfylkingin vill að Alþingi samþykki breytingar á stjórnarskrá sem byggjast á tillögum stjórnlagaráðs og þeim þjóðarvilja sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október 2012. Alþingi skuldar þjóðinni að ljúka því opna og lýðræðislega ferli stjórnlagabreytinga sem hófst eftir hrun. Treysta þarf grundvallarinnviði lýðræðissamfélagsins og setja valdhöfum skýrari meginskyldur, ábyrgð og hlutverk en gert er í gildandi stjórnarskrá. Ákvæði um þjóðareign auðlinda, þjóðaratkvæðagreiðslur, framsal valds, jafnt atkvæðavægi og umhverfisvernd eru á meðal þeirra fjölmörgu atriða sem brýnt er að bundin verði í stjórnarskrá sem fyrst.

Vinstri Græn

VG leggur áherslu á að lokið verði við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar til að þjóðin eignist framsækna stjórnarskrá.

  • Vinstri-græn leggja sérstaka áherslu á að ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd og þjóðareign á náttúruauðlindum verði innleidd í stjórnarskrá.

  • Þá er tímabært að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

  • Hér eftir sem hingað til leggur VG áherslu á að byggja á fyrri vinnu, þar á meðal tillögum stjórnlagaráðs, en telur um leið að eðlilegt sé að vinna að breytingum í áföngum og taka sjálfstæða afstöðu til einstakra álitamála.

Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://vg.is/kosningaaherslur-2021/

Stefnan Vinstri grænna; lýðræðismál: https://vg.is/stefna/lydraedismal/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki