Efnahagsmál

Framsókn

Staða hagkerfisins er sterk og við sjáum verðbólguna fara lækkandi, en Framsókn leggur áherslu á áframhaldandi vinnu við lækkun hennar með skynsömum hætti. Það er okkar mikilvægasta viðfangsefni um þessar mundir, ásamt lækkun vaxtastigs.

Framsókn leggur áherslu á að fjármunum verði forgangsraðað í þágu velferðarkerfisins, brýnna samfélagslegra verkefna og að verja barnafjölskyldur og viðkvæma hópa.

Húsnæðismál beintengjast efnahagsmálum, en mikilvægt er að tryggja nægt framboð á íbúðarhúsnæði. Þörf er á frekari uppbyggingu og sveitarfélög verða að tryggja nægt framboð lóða. Tryggja þarf hagkvæma fjármögnun á uppbyggingu séreigna- og leiguhúsnæðis.

Framsókn vill fjölga stoðum hagkerfisins, en með fleiri stoðum næst betra jafnvægi í efnahagsmálum. Á undanförnum áratugum hefur stoðum hagkerfisins fjölgað úr einni í fjórar með eflingu hugvits, nýsköpunar og skapandi greina.

Framsókn leggur áherslu á að blandað markaðshagkerfi sé skynsamlegasta og farsælasta leiðin til að tryggja hagsæld fyrir fólkið í landinu. Íslenska hagkerfið þarf að vera stöðugt, gagnsætt og öruggt. Fyrirtækjum og einstaklingum þarf að vera búið starfsumhverfi þar sem samvinna, frumkvæði, dugnaður og samfélagslegt réttlæti er í öndvegi. Í því sambandi þarf að tryggja að regluverk sé gagnsætt, einfalt og skilvirkt og hvetji fólk og fyrirtæki áfram í störfum sínum. Stöðugt efnahagsumhverfi og fyrirsjáanleiki eru forsenda þess að einstaklingar og fyrirtæki geti gert áætlanir til lengri tíma.

Framsókn leggur áherslu á sjálfstæða peningastefnu með íslenska krónu. Flokkurinn telur mikilvægt að viðhalda sjálfstæði í peningamálum til að tryggja efnahagslegan stöðugleika.

Viðreisn

Heimilin eiga betra skilið. Við finnum öll fyrir verðbólgunni. Ekki síst heimilin. Það kostar venjulegt fjölskyldufólk hálfan handlegginn að kaupa í matinn.

Og núna stressa sig margir, jafnvel fólk með ágætar tekjur, á því hvort þvottavélin bili, fresta viðhaldi á heimilinu og jafnvel að neita sér um heimsókn til tannlæknis.

Vextir á Íslandi eru sambærilegir vöxtum í stríðshrjáðum löndum. Fyrir þessu finna heimili og fyrirtæki. Ríkisstjórn síðustu sjö ára hefur rífist sín á milli en ekki sameinast um mikilvæg verkefni. Óstjórnin skilar því að ekki er reiknað með að verðbólga nái eðlilegum markmiðum fyrr en 2026. Háir vextir hafa fylgt í kjölfarið.

Ungt fólk getur ekki keypt íbúð í ástandi sem einkennist af ójafnvægi og ófyrirsjáanleika. Háir vextir og ónógt lóðaframboð hafa hægt á byggingu nýrra íbúða sem eykur enn vandann. Við viljum tryggja að ungt fólk upplifi að lífskjör og lífsgæði á Íslandi standist samanburð við önnur lönd.

Það verður ekki meira lagt á heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki sem nú þegar glíma við þunga byrði vegna verðbólgu og vaxta. Skattahækkanir á vinnandi fólk og lítil og meðalstór fyrirtæki koma ekki til greina.

Við þurfum nýja ríkisstjórn sem setur í forgang að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og greiða niður skuldir ríkissjóðs og gera þannig sitt til að ná niður verðbólgu og vöxtum fyrir heimili og fyrirtæki. Raunverulegur sparnaður næst ekki með því að skera flatt niður um 2% eða 10% heldur þegar mótuð er skýr sýn á það sem skiptir mestu máli. Það felur í sér að sumt fær aukin framlög en öðru er frestað eða því einfaldlega sleppt.

Viðreisn ætlar að

  • Lækka verðbólgu og vexti.
  • Greiða niður skuldir og lækka vaxtabyrði ríkisins.
  • Fara betur með opinbert fé, fækka stofnunum og verkefnum þeirra.
  • Framlengja heimild til að nýta séreignarsparnað sem innborgun á húsnæðislán.
  • Losa ríkisjarðir fyrir húsnæðisuppbyggingu.

Sjálfstæðisflokkurinn

Forgangsmál Sjálfstæðisflokksins er og hefur verið að minnka verðbólgu og lækka vexti. Þær áherslur sem flokkurinn hefur sett á oddinn um sölu ríkiseigna og skynsamt aðhald eru þegar teknar að skila sér í stýrivaxtaákvörðunum Seðlabankans og eru jákvæðar horfur fyrir veturinn.

Sjálfstæðisflokkurinn er þeirrar skoðunar að viðskiptafrelsi, virk samkeppni og skilvirkt skattkerfi séu grundvallaratriði fyrir öflugt efnahagslíf. Flokkurinn vill einfalda ferlið við stofnun fyrirtækja og ráðningar í störf á Íslandi, hvetja til nýsköpunar og tryggja að ríkið auðveldi fremur en hindri frumkvöðlastarfsemi. Til að auka samkeppnishæfni vill Sjálfstæðisflokkurinn bæta regluumhverfið með hagsmuni almennings í fyrirrúmi og tryggja jafnræði í viðskiptum innan EES. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru hornsteinar efnahagslífsins, og vill flokkurinn minnka regluverk og álögur til að styðja við einstaklinga í atvinnurekstri.

Sjálfstæðisflokkurinn vill framlengja heimild til ráðstöfunar séreignar inn á húsnæðislán, leyfa fjárfestingar í eigin eignasöfnum eins og hlutabréfum og veita skattafrádrátt fyrir slíkar fjárfestingar. Afnema skal stimpilgjald fyrir fyrstu kaupendur og veita 150 þúsund króna árlegan skattaafslátt með hverju barni undir þriggja ára. Þá vill Sjálfstæðisflokkurinn leyfa foreldrum að færa allt að 2 milljónir króna af séreignarsparnaði inn á séreign barna skattfrjálst. Sjálfstæðisflokkurinn vill hækka frítekjumark fjármagnstekna í 500 þúsund krónur og miða efsta þrep skattkerfisins við tvöfaldar meðaltekjur.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins vill hækka skattleysismörk í 450.000 kr. með upptöku fallandi persónuafsláttar. Við viljum hætta við stefnu fráfarandi ríkisstjórnar um að hækka á hverju ári alla nefskatta og öll krónutölugjöld. Við viljum draga úr óþarfa sóun í ríkisfjármálum með því að fækka markvisst launuðum starfshópum og sýna hófsemi í opinberum innkaupum. Við viljum afnema húsnæðisliðinn úr vísitölu neysluverðs, enda er húsnæði ekki neysluvara heldur mannréttindi, auk þess sem húsnæðisliðurinn er stærsti orsakavaldur verðbólgunnar.

Sósíalistaflokkurinn

Sósíalistaflokkurinn leggur höfuðáherslu á að tekjuöflun ríkissjóðs verði gerð réttlátari. Það er forsenda þess að hægt sé að stöðva skuldasöfnun ríkisins sem dregur niður lífskjör almennings bæði til lengri og skemmri tíma. Undanfarna áratugi hefur stefna stjórnvalda í ríkisútgjöldum leitt til aukins kostnaðar almennings í þjónustu hvort heldur heilbrigðis-, mennta- eða annarri grunnþjónustu t.d. með allskyns greiðsluþátttökukerfum. Nýfrjálshyggjan og dekur hins opinbera við fjármagnseigendur og stórfyrirtæki hefur leitt af sér aukna misskiptingu í samfélaginu og er bilið á milli auðugra og þeirra sem búa við fátækt sístækkandi. Í kjölfar skattalækkana á hátekju- og stóreignafólk myndaðist gat í ríkissjóði sem leiddi til hallareksturs. Það er eitt af því sem ýtir undir verðbólgu. Til að ná niður verðbólgunni vilja Sósíalistar reka ríkissjóð í jafnvægi, það þarf að draga til baka umræddar skattalækkanir sem hafa átt sér stað frá árinu 1991, ekki bara vegna hallareksturs heldur til þess að lækka skatta á þorra almennings. Skortur á húsnæði hefur leitt til hækkunar húsnæðisverðs, sem keyrir áfram verðbólgu. Hið opinbera verður að koma að húsnæðisuppbyggingu til þess að lækka húsnæðisverð til lengri tíma. Sjá nánar inni á vefsíðu Sósialistaflokksins.

Lýðræðisflokkurinn

Hallalaus fjárlög eiga að vera meginreglan með þröngum undantekningum.

Lækka ætti skatta og gjöld eftir fremsta megni eftir að hagrætt hefur verið í ríkisrekstri. Því meira sem skattgreiðendur halda eftir af sínu sjálfsaflafé, því betra.

Leggja ber niður alla framleiðslustyrki nema í landbúnaði. Afnema ber þá tolla sem ekki eru verndartollar.

Einkavæða ber sem flest ríkisfyrirtæki nema Landsvirkjun og Landsnet.

Hinir ríkisstyrktu kerfisflokkar hafa sýnt að þeim er ekki treystandi til að halda aftur af verðbólgu. Koma verður böndum á verðbólgu umsvifalaust, m.a. með hallalausum ríkisrekstri og niðurskurði útgjalda ríkisins um 20%.

Lýðræðisflokkurinn mun beita sér fyrir lögbundnu 4% vaxtaþaki á stýrivexti ásamt því að taka húsnæðislið út úr vísitölu neysluverðs.

Miðflokkurinn

Ný ríkisstjórn þarf að einsetja sér að skila hallalausum fjárlögum og gefa þannig væntingar um trausta stjórn efnahagsmála. Nauðsynlegt er að taka strax á hallarekstri og skuldasöfnun ríkisins. Þannig er unnt að sigrast á verðbólgunni. Miðflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi fjölbreyttrar atvinnustarfsemi um land allt. Miðflokkurinn styður hvers konar framþróun og nýsköpun til að efla fjölbreytta atvinnustarfsemi byggða á gæðum landsins og þekkingu landsmanna. Það ásamt öflugu menntakerfi mun tryggja áframhaldandi útflutning hátæknivara en þar hafa Íslendingar nú þegar náð eftirtektarverðum árangri.

Afstaða Miðflokksins til annarra málaflokka sýnir að í verki styður flokkurinn fjölbreytt og kraftmikið atvinnulíf, hvort sem litið er til stefnu í einstökum málaflokkum eða í afstöðunni til ríkisvaldsins eða skattheimtu. Mikilvægt er að tryggja sköpunar- og framtakskraft einstaklinganna til að halda áfram að efla þjóðarhag.

Miðflokkurinn telur mikilvægt að stjórnvöld sinni því hlutverki sínu að tryggja fyrirtækjum stöðugt og gott rekstrarumhverfi, þannig að verðmætasköpun í samfélaginu geti aukist jafnt og þétt.

Píratar

Píratar ætla að:

  • Vinna bug á verðbólgunni með fjölbreyttum leiðum eins og bregðast af festu við húsnæðisvandanum og stuðla að stöðugra efnahagskerfi.
  • Láta Ísland vera í fararbroddi í innleiðingu velsældarhagkerfis.
  • Taka á spillingu, loka skattaglufum og tryggja sanngjarnt, einfalt og réttlátt skattkerfi.
  • Uppræta fátækt og tryggja lágmarksframfærslu.
  • Skapa aukin verðmæti og lífsgæði með stuðningi við nýsköpun og þróun.
  • Endurskoða opinberan rekstur með stafræna umbreytingu að leiðarljósi.
  • Standa með hagsmunum neytenda og almennings við allar efnahagslegar ákvarðanir.
  • Efla gagnsæi, ábyrga áætlanagerð, tækifæri til aðhalds og lýðræðislegrar þátttöku.
  • Tryggja umhverfislega sjálfbærni og innleiða loftslagsbókhald og græn innkaup í öllum opinberum rekstri.
  • Fjármagna grunninnviði velferðarsamfélagsins og standa með forvörnum, menntun og náttúrunni.
  • Stuðla að sátt á vinnumarkaði.

Píratar tala fyrir nýrri sýn á hagkerfið. Sýn sem vefur samfélag og náttúru saman svo hagkerfið taki tillit til fleiri þátta en þeirra sem eru með verðmiða. Því viljum við byggja sjálfbært velsældarhagkerfi fyrir öll. Samfélag þar sem við öll blómstrum á eigin forsendum í sátt við umhverfi okkar. Píratar munu forgangsraða almannahagsmunum umfram sérhagsmuni, en það mun létta róður fjölskyldna sem glíma við verðbólguhlaðið heimilisbókhald. Draga þarf úr sveiflum hagkerfisins og skapa stöðugra efnahagsástand. Slíkt mun leiða af sér stöðugri gjaldmiðil og sjálfbæra verðmætasköpun, þannig að hægt sé að einblína á nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins og út um allt land. Píratar eru í forystu í baráttunni gegn spillingu. Þeir vilja loka skattaglufum, auka traust og skapa sanngjarnt og réttlátt skattkerfi sem færir byrðar af þeim sem minnst hafa yfir á þau sem meira hafa. Brugðist verður við húsnæðisvandanum af festu, að fólk hafi öruggt þak yfir höfuðið með minnkandi verðbólgu sem meginmarkmið. Píratar ætla að innleiða loftslagsbókhald og græn innkaup og hafa umhverfis- og loftslagsmálin að leiðarljósi við allar ákvarðanir. Slíkt er hagkvæmt til lengri tíma og skapar verðmæti fyrir framtíðarkynslóðir.

Samfylkingin

Forgangsmál Samfylkingar er að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Stýrivextir hafa verið um og yfir 9% í meira en ár, verðbólga yfir markmiði í 4 ár og samkvæmt áætlunum fráfarandi ríkisstjórnar stefnir í að ríkið verði rekið með halla samfleytt í 9 ár. Þessi óstjórn í efnahagsmálum hefur leitt til þess að heimili landsins borguðu 40 milljörðum meira í húsnæðisvexti í fyrra en þau gerðu árið 2021. Þessir háu vextir eru ekkert annað en ofurskattur á heimili og fyrirtæki og leggst þungt á ungt fólk. Samfylkingin vill kveða niður vexti og verðbólgu. Lykillinn að því er að við náum aftur styrkri stjórn á fjármálum ríkisins, komum húsnæðismarkaðnum í fastari skorður og leggjum grunn að hagvexti sem er ekki knúinn áfram af fólksfjölgun heldur aukinni framleiðni. Því minna sem ríkisstjórnin og ríkisfjármálin gera til að vinna gegn verðbólgu, því meira gerir Seðlabankinn og því hærri verða vextirnir. Við viljum breyta lögum um opinber fjármál og taka upp stöðugleikareglu um jafnvægi tekna og rekstrarútgjalda með tilliti til hagsveiflunnar, í samræmi við tillögur fjármálaráðs ESB.

Samfylkingin telur nauðsynlegt að auka fé til velferðarmála og grunninnviða. Undanfarinn áratug hafa kerfin okkar smátt og smátt látið undan, nú er komið að því að snúa þróuninni við. Það verður ekki gert án tekjuöflunar og hagræðingar í ríkisrekstri. (Stjórnmálaflokkar sem halda því fram að hægt sé að auka fé til velferðarmála án tekjuöflunar tala í raun fyrir auknum hallarekstri og aukinni skuldasöfnun ríkisins, því einhvers staðar verður peningurinn að koma. Sú leið eykur verðbólgu og hækkar vexti.) Við vitum öll að það er dýrt að skulda og eftir því sem skuldirnar hækka verður kostnaðurinn hærri og svigrúmið til frekari fjárfestinga og útgjalda minni. Skuldir bera vexti og í tilfelli ríkissjóðs er áætlaður vaxtakostnaður fyrir næsta ár nú kominn upp í 120 milljarða króna. Samfylkingin hyggst hagræða í rekstri ríkisins, koma á réttlátum og skynsamlegum auðlindagjöldum og innleiða hóflegar hækkanir á fjármagnstekjuskatti. Ásamt þessu er nauðsynlegt að koma á bráðaaðgerðum á húsnæðismarkaði og sporna við stjórnlausum verðhækkunum á húsnæðismarkaði.

Vinstri Græn

Mannsæmandi kjör - sanngjörn tekjuöflun

  • Tryggjum öfluga almannaþjónustu óháð búsetu og efnahag og rétt almennings til heilnæms umhverfis og aðstæðna. VG hafnar einkavæðingu innviða og almannaþjónustu
  • Efla þarf opinbera heilbrigðiskerfið, stytta biðlista og auka geðheilbrigðisþjónustu
  • VG hafnar niðurskurðarstefnu í baráttu við verðbólgu. Nauðsynlegt er að uppræta kerfisbundna verðbólguhvata með samstilltu átaki ríkis, Seðlabanka og sveitarfélaga.
  • Efnahagsstefnan á að draga úr ójöfnuði, tekjuöflun hins opinbera á að vera sanngjörn og stuðla að samfélagssátt, þannig að hin efna- og eignameiri leggi meira af mörkum. Framfærsla eldra fólks og fólks á örorkulífeyri á aldrei að vera lægri en lágmarkslaun.
  • Fjármagnstekjuskattur á að vera þrepaskiptur þannig að stóreignafólk greiði hærra hlutfall heldur en venjulegt fólk af hóflegum sparnaði.
  • Stórauka þarf skatteftirlit en skattaundanskot hafa verið metin um 100 milljarðar á hverju ári.
  • Stórauka þarf vinnueftirlit með markvissum aðgerðum. Þannig verði spornað gegn launastuldi og markvisst barist gegn mansali. Þau sem fá heimildir til að nýta auðlindir landsins verða að greiða stærri hluta af ágóðanum í sameiginlega sjóði. Gagnsæi um eignatengsl í sjávarútvegi verði eflt samhliða því að veiðigjöld á stórútgerðina séu hækkuð.
  • Vinstri græn vilja hækka hlutfall námsstyrks af lánum, skoða kosti þess að gera námslán vaxtalaus og að þau falli niður við starfslok, eða ef fólk fer á örorkulífeyri.
  • Ríkið á áfram að vera eigandi Landsbankans. Gera þarf nauðsynlegar lagabreytingar til að skapa umgjörð um starfsemi samfélagsbanka sem starfa samkvæmt umhverfis- og samfélagssjónarmiðum.
  • Mikilvægt er að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði. Sá stöðugleiki má ekki snúast um að halda láglaunahópum niðri og grafa undan velferðarkerfinu. Sátt á vinnumarkaði byggist á sátt um velferðarkerfið.
  • Persónuafsláttur á að nýtast lág og millitekjuhópum sem best. Tryggja þarf að tekjulægstu hóparnir, sem eru undir markmiðum um grunnframfærslu, séu undir skattleysismörkum.

Endalaus hagvöxtur á kostnað náttúru og fólks er ekki valkostur. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í efnahagsmálum: https://vg.is/stefna/efnahagsmal/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki.
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.