Húsnæðismál

Framsóknarflokkurinn

Framsókn vill að skipulags- og húsnæðismál séu í sama ráðuneyti til að auka skilvirkni þegar kemur að skipulagsmálum sveitarfélaga. Með því má stytta tímann sem þau taka, gera sveitarfélögum kleift að bregðast fyrr við lóðaskorti og tryggja nægilegt framboð af lóðum til húsbygginga á hverjum tíma.

Framsókn vill auka framboð á almennum íbúðum fyrir öryrkja og fatlaða.

Framsókn vill útfæra hlutdeildarlán fyrir fleiri hópa en fyrstu kaupendur. Þá er sérstaklega horft til eldra fólks og félagslega veikra hópa í samfélaginu.

Framsókn leggur áherslu á að samræma umsóknargátt almennra og sérstakra húsnæðisbóta. Farið verði í heildarendurskoðun á húsnæðismálunum með það að leiðarljósi og finna leiðir til að hjálpa þeim verst stöddu.

Viðreisn

Mikilvægasti liðurinn í því að tryggja húsnæðisöryggi er að byggja nóg. Skortur á fasteignum hækkar fasteignaverð sem gerir fólki, sérstaklega ungu fólki, erfiðara að komast inn á markaðinn. Til að vinna gegn þessu þarf að tryggja að byggingarmagn anni eftirspurn og jafnvægi sé á markaðnum.

Til að húsnæðislán séu ekki of dýr þurfa vextirnir að vera lágir. Vextir á Íslandi eru mun hærri en í nágrannalöndum okkar, sem þýðir að við borgum meira fyrir lánin yfir líftíma þeirra. Með því að binda gengi krónunnar við evru getum við lækkað vexti til muna og gert lánakjörin betri.

Styðja þarf sérstaklega fyrstu kaupendur í formi heimildar til að ráðstafa séreignarsparnaði við útborgun og inn á íbúðalán. Viðreisn styður að það verði gert áfram.

Við eigum að styðja við uppbyggingu þjónustu á landsbyggðunum. Fólk á að hafa raunhæft val um hvar það býr sér heimili án þess að vera mismunað eftir búsetu.

Einfalda þarf ferla í skipulagsmálum til að flýta uppbyggingu. Við hönnun og skipulag skal unnið eftir hugmyndafræði algildrar hönnunar og tryggja að ný mannvirki séu aðgengileg öllum.

Gera þarf fólki kleift að búa á eigin heimili eins og hægt er. Öll sveitarfélög taki þátt í lausn húsnæðisvanda þeirra sem aðstoð þurfa.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á öruggt íbúðahúsnæði, hvort sem er til eignar eða leigu. Að hafa þak yfir höfuðið er ein af grunnþörfum mannsins og leggja ber áherslu á fjölbreytt og hagkvæm húsnæðisúrræði. Sjálfstæðisflokkurinn mun fjarlægja hindranir og auðvelda ungu fólki að eignast eigið húsnæði, en einnig stuðla að virkum leigumarkaður eins og þekkist víðast hvar í nágrannalöndunum.

Að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins var lögfest til frambúðar 10 ára skattfrjáls ráðstöfun séreignasparnaðar vegna fyrstu íbúðakaupa. Sjálfstæðisflokkurinn vill að tímabundin heimild annarra til að ráðstafa séreignasparnaði inn á íbúðalán verði til frambúðar, samkvæmt sömu reglum og gilda um fyrstu kaup.

Byggingarkostnaður íbúðarhúsnæðis á Íslandi er einn sá hæsti í Evrópu. Sú umgjörð sem yfirvöld hafa mótað fyrir byggingariðnaðinn er óskilvirk, tímafrek og dýr. Allar hindranir sem hamla því að framkvæmdaaðilar geti brugðist tímanlega við markaðsaðstæðum magna sveiflur, ýta undir óstöðugleika og auka þannig húsnæðiskostnað sem getur svo valdið ólgu á vinnumarkaði. Fasteignaverð hér á landi er hærra en það þyrfti að vera. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leiða útgönguna út úr frumskógi reglugerða og hamlandi opinberra afskipta af byggingariðnaðinum.

Flokkur Fólksins

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki

Sósíalistaflokkurinn

Sósíalistaflokkur Íslands gerir kjósendum tilboð um að greiða atkvæði sitt í haust með stóru húsnæðisbyltingunni, byggingu 30 þúsund íbúða á tíu árum, sem mun fara langleiðina í að eyða hinni landlægu húsnæðiskreppu.

Þetta verður gert með því að stofna Húsnæðissjóð almennings sem afla mun 70% nauðsynlegs fjármagnsins með útgáfu skuldabréfa sem seld verða lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum. Tryggingar skuldabréfanna eru öruggar, íbúðarhúsnæði í öruggri langtímaleigu, og munu því bera sambærilega vexti og ríkisskuldabréf. Um 13% kostnaðarins mun ríki og sveitarfélög leggja til í formi lóða og 17% kemur sem lán frá ríkissjóði á lægstu vöxtum, lán sem greiðist til baka á endingartíma íbúðanna. Fjármagnskostnaður verður því eins lítill og mögulegt er í dag.

Húsnæðissjóður almennings mun síðan leigja húsnæði til Leigufélaga almennings, sem get verið ýmiss konar: Leigufélög sveitarfélaga, námsmannafélaga, félaga öryrkja, aldraðra, einstæðra foreldra eða hvers kyns almannasamtaka, en einnig almenn leigufélag leigjendanna sjálfra, notendastýrð rekstrarfélög leiguhúsnæðis, sem leigjendur stofna til að komast í gott, öruggt og ódýrt húsnæði. Leigufélögin eru ekki bundin við eitt hús og innan eins húss geta verið íbúðir sem tilheyra ólíkum leigufélögum; t.d. öryrkjar, námsfólk, aldraðir, einstæðir foreldrar og fleiri ásamt fólki sem tilheyrir öðrum leigufélögum. Sjá nánar

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn vill ráðast í heildstæðar aðgerðir í þeim tilgangi að gera markað með íbúðir skilvirkari og sveigjanlegri þannig að hann geti komið til móts við þarfir almennings. Um leið á stefna stjórnvalda að stuðla að því að byggt verið fjölbreytt gæðahúsnæði og að lóðaskortur hamli ekki nauðsynlegri uppbyggingu. Á sama tíma þarf að vera tryggt að öllum íslenskum ríkisborgurum standi til boða tækifæri til að eignast eigið húsnæði. Allir sem á þurfa að halda eigi rétt á mótframlagi ríkisins sem svo verður greitt til baka við sölu fasteignar eða breytt í lán að 10 árum liðnum.

Miðflokkurinn leggur sérstaka áherslu á að samþykkt verða lög um eignarréttarstefnu í húsnæðismálum. Tryggja þarf hvetjandi regluverk á íbúðamarkaði og stuðla að fjölbreyttara og manneskjulegra húsnæði. Um leið þarf að huga að því að skattar og gjöld trufli ekki markaðinn og Miðflokkurinn vill afnema stimpilgjöld. Einnig leggur Miðflokkurinn til að almenningur fái heimild til að setja 3,5 prósentustig af lífeyrisiðgjaldi sínu í sjóð sem nýta má til eigin fasteignakaupa.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Verðtryggingu verði hætt á húsnæðislánum og mönnum auðveldað að skipta úr verðtryggðum húsnæðislánum í óverðtryggð lán, sem þýðir að einstaklingar þurfi ekki að fara á ný í greiðslumat.

Lánardrottinn og skuldunautur verða að leita lausna saman. Engin eign fari á uppboð nema lánardrottinn og skuldunautur skipti söluverðinu eftir lánshlutfalli þ.e. upprunlegri prósentu. Sala eingöngu leyfð til þriðja aðila, sem þýðir að lánardrottinn getur aldrei boðið í eign sem hann lánaði til, þó svo að hann sé á fyrsta veðrétti. Vernda þarf fjölskyldur samfélagsins.

Viðskipta- og neyslulán, yfirdráttur og lausaskuldir einstaklinga og fyrirtækja sem eru komin á endastöð verði eingöngu hægt að rukka inn með að hámarki 50% álagi og ekki krónu meira. Dæmi: A skuldar 10.000 kr. og fer í vanskil, hámarks innheimtukrafa gæti þá numið 15.000 krónum með lögfræðikostnaði, vöxtum, verðbótum og dráttarvöxtum.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn tekur áskorun Helga í Góu:

“Það á enginn að þurfa að búa fjarri maka sínum á efri árum jafnvel þó annar aðilinn þurfi umönnun en hinn ekki. Engu að síður er það veruleiki margra eldri hjóna á Íslandi. Þrátt fyrir að lífeyrissjóðunum hafi verið heimilt að fjárfesta í íbúðarhúsnæði síðan 2011 hefur enn enginn sjóður fjárfest í húsnæði fyrir aldraða. Ávallt er borið við kröfu um ávöxtun lífeyrissjóðsgjalda. Staðreyndin er að ekki þyrfti nema brot af vaxtatekjum þeirra í þetta verkefni. Fasteignir eru góð fjárfesting með mikla arðsemi. En mikilvægasta arðsemi lífeyrissjóðs ætti að vera sú að sjóðfélagar búi við öryggi á ævikvöldinu. Við skorum á lífeyrissjóðina að fjárfesta í byggingu mannsæmandi húsnæðis fyrir aldraða sem uppfyllir sanngjarnar kröfur um þægindi og einkalíf.”

Píratar

Píratar telja að öruggt húsaskjól sé ein af grunnþörfum mannsins. Því viljum við að stjórnvöld beiti sér af krafti í húsnæðismálum og sjái til þess að landsmenn hafi þak yfir höfuðið. Í stuttu máli viljum við endurhanna húsnæðiskerfið, enda eru húsnæðismál eitt stærsta kjaramálið. Færa kerfið frá gróðabraski í átt að óhagnaðardrifnum húsnæðisfélögum.

Húsnæðisstefna Pírata er í sex köflum, sem hljóða svona í mjög grófum dráttum:

 1. Komum húsnæðismarkaði í jafnvægi með stórauknum framlögum til nýrra íbúða
  Tryggjum framboð af íbúðum samkvæmt fyrirséðri þörf og herjum á uppsafnaðan skort
 2. Húsnæði fyrir námsfólk
  Gerum heimavist að raunverulegum valkosti um allt land
 3. Búsetuúrræði fyrir öll sem þurfa
  Fjölgum íbúðum sem koma til móts við þarfir ólíkra hópa, í takti við þeirra óskir
 4. Eflum réttindavernd leigjenda
  Eflum réttindi leigjenda, styrkjum leigjendasamtök og stuðlum að langtímaleigusamningum
 5. Skylduhlutfall félagsíbúða í sveitarfélögum
  Skilyrðum lágmarkshlutfall félagsíbúða í sveitarfélögum yfir tiltekinni stærð
 6. Heilnæmt húsnæði
  Aðgerðir sem stuðla að heilnæmu húsnæði, gagnagrunnur um ástand fasteigna og átak gegn rakaskemmdum og myglu

Húsnæðisstefnu Pírata má nálgast í heild hér.

Samfylkingin

Við ætlum að hafa forystu um grundvallarstefnubreytingu í húsnæðismálum til að skapa heilbrigðan húsnæðismarkað til framtíðar. Við teljum að lausnin felist í stórauknum framlögum til að byggja hagkvæmt húsnæði. Það dregur úr sveiflum og neikvæðum áhrifum á verðlag og vexti. Fjölskyldur eiga rétt á húsnæðisöryggi hvort sem þær eiga heimili sitt eða leigja. Húsnæðiskostnaður er mesti útgjaldaliður flestra heimila og verðsveiflur á fasteignamarkaði, miklar breytingar á vöxtum og ófyrirsjáanleiki um leigu skapa óöryggi og ýta undir ójöfnuð og fátækt.

Helstu áherslur

 • Byggja 1000 leigu- og búseturéttaríbúðir á hverju ári með húsnæðisfélögum án hagnaðarsjónarmiða, sem yrðu þá 1/3 af árlegu byggingarmagni. Það kallar á tvöföldun stofnframlaga. Með því fjölgum við íbúðum um allt land fyrir tekjulægri hópa og temprum verð fyrir alla. Þannig lækkar húsaleigan.

 • Styðja við rannsóknir og nýsköpun í þróun bygginga og húsnæðis til að ná niður byggingarkostnaði og byggja ný græn íbúðarhverfi.

 • Huga sérstaklega að því að tryggja framboð á íbúðum fyrir ungt fólk og húsnæðiskjarna fyrir eldra fólk.

 • Færa húsnæðis- og byggingarmál undir eitt ráðuneyti sem hefur yfirsýn og ber ábyrgð á uppbyggingu um land allt.

Vinstri Græn

Vinstrihreyfingin -- grænt framboð telur að tryggja skuli rétt allra til öruggs og heilsusamlegs húsnæðis með skýrri stefnu hins opinbera, öflugu eftirliti, fjölgun úrræða og fjárhagslegum og félagslegum stuðningi. Það eru mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið og mikilvægt að tryggður sé aðgangur að vönduðu húsnæði á viðráðanlegu verði, svo kjarabætur hverfi ekki í hækkandi húsnæðiskostnaði.

 • Auka þarf enn frekar stuðning við félagslegt húsnæði og fjölga íbúðum í almenna íbúðakerfinu.

 • Halda þarf áfram uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis, bæta í stofnframlög til uppbyggingar almennra íbúða og efla það kerfi til framtíðar.

 • Þá þarf að efla og stækka leigufélagið Bríet sem er í eigu ríkisins og ætlað er að koma á öflugum og sanngjörnum leigumarkaði um land allt.

 • Halda þarf áfram að bæta réttindi leigjenda og bjóða upp á öfluga upplýsingagjöf til þeirra á mörgum tungumálum.

 • Skoða þarf að setja á lagaheimild til búsetuskyldu í íbúðarhúsnæði, með áherslu á þéttbýlissvæði, eins og þekkist víða í Evrópu til að tryggja að húsnæði standi ekki autt árum og áratugum saman á sama tíma og fólk vantar þak yfir höfuðið.

 • Horfa þarf til hagkvæmra lausna í húsnæðismálum með minna húsnæði, umhverfisvænum byggingaraðferðum, bættri orkunýtingu og styttri fjarlægðum frá þjónustu.

 • Mikilvægt er að halda áfram endurskoðun jarðalaga. Stórt skref var stigið þegar sett voru stærðarmörk á land sem einn aðili getur keypt sér en halda þarf áfram.

 • Skýra þarf lagaumhverfið þegar um er að ræða sameign á jörðum og þá þarf einnig að tryggja forkaupsrétt ríkisins þegar um er að ræða land þar sem eru náttúru- og menningarminjar.

Hugsum til framtíðar í húsnæðismálum með því að leggja sjónarmið í þágu umhverfis- og loftslagsmála til grundvallar skipulagi og uppbyggingu húsnæðis.

Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://vg.is/kosningaaherslur-2021/

Stefna Vinstri grænna í kjara- og húsnæðismálum: https://vg.is/stefna/kjara-og-husnaedismal/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki