Samgöngumál

Framsókn

Framsókn vill sjá áframhaldandi uppbyggingu samkvæmt Samgönguáætlun, halda þarf áfram með samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum og samstarfi á milli hins opinbera og atvinnulífs. Framsókn vill halda áfram að bæta umferðaröryggi m.a. með því að fækka einbreiðum brúm á hringveginum og halda áfram að skilja að akstursstefnur á umferðarþyngstu vegköflum landsins.

Framsókn leggur áherslu á að stytta ferðatíma milli byggða, efla atvinnusvæði á landinu öllu og draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Framsókn vill tryggja framgang Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins til að liðka fyrir umferð og vinna að kolefnishlutlausu Íslandi. Sundabraut hefur verið á dagskrá allt kjörtímabilið og verður stórkostleg samgöngubót sem losar um umferðarhnúta. Á kjörtímabilinu hefur verið unnið að undirbúningi svo framkvæmdir geti byrjað eins og áætlanir gera ráð fyrir árið 2026.

Framsókn vill að í uppbyggingu innviða á hálendinu verði hugað að því til framtíðar að rafmagnsbílar komist um. Þá verði sérstök áhersla lögð á vegina um Kjöl og að Fjallabaki, ekki síst vegna mögulegs öryggishlutverks þeirra ef náttúruvá ber að dyrum.

Framsókn vill halda áfram að styrkja og efla innanlandsflugvelli og hafnir í þeim tilgangi að fjölga tækifærum í ferðaþjónustu og skapa atvinnu heima fyrir.

Framsókn leggur áherslu á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar sem miðstöð innanlands- og sjúkraflugs. Flokkurinn telur að flugstöðina þurfi að endurnýja til að bæta þjónustu við flugfarþega. Framsókn vill tryggja að Reykjavíkurflugvöllur haldi áfram að þjóna mikilvægu hlutverki sínu þar til raunhæfur og jafn hentugur kostur kemur fram.

Framsókn vill að á hverjum tíma sé unnið að gerð að minnsta kosti einna jarðganga á landinu.

Viðreisn

Við þurfum að fjárfesta í samgöngukerfinu öllu, þ.m.t. höfnum og flugvöllum. Innviðaskuld í samgöngukerfinu hefur byggst upp og tryggja þarf framkvæmdir eftir að afgreiðslu samgönguáætlunar hefur ítrekað verið frestað.

Nútímavæðing innviða, í þágu samfélags, umhverfis og öryggis þarf að verða forgangsmál nú og í náinni framtíð. Horfa ber til aðkomu einkaframtaksins í slíkum fjárfestingum og útgáfu grænna skuldabréfa í verkefnum sem stuðla að vistvænum samgöngum.

Viðreisn styður beina gjaldtöku af vegamannvirkjum til að kosta framkvæmdir og koma þeim hraðar að veruleika.

Valfrelsi skal vera forsenda gjaldtöku, þannig að það sé valkostur að greiða gjaldið ekki. Borgarlína og þjóðvegastokkar á höfuðborgarsvæðinu, ásamt aðskilnaði akstursstefna á þjóðvegum við höfuðborgarsvæðið, verði sett í forgang.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn leggur ríka áherslu á að bæta samgöngur með hraðari uppbyggingu og skynsamlegri nýtingu fjármuna, meðal annars í samstarfi við einkaaðila. Með þessu stuðlum við að auknu öryggi, bættu loftslagi, sterkari byggðum, atvinnusköpun og auknum hagvexti. Við viljum auka frelsi fólks í vali á samgöngumáta—hvort sem um er að ræða almenningssamgöngur, einkabíla, gangandi eða hjólandi—án þess að einn samgöngumáti þrengi að öðrum.

Mikilvægt er að tryggja arðbæra nýtingu fjármuna til að ná markmiðum um greiðari samgöngur, aukin lífsgæði og valfrelsi í samgöngum. Aukin áhersla verður lögð á uppbyggingu stofn- og tengivega um land allt. Móta skal áætlun um gerð jarðganga til lengri tíma, styrkingu ferjuleiða og viðhald flugvalla, auk uppbyggingar varaflugvalla. Greiðar og öruggar samgöngur eru mikilvægar undirstöður atvinnulífs og styrkja samkeppnishæfni byggðarlaga landsins.

Sjálfstæðisflokkurinn kallar eftir skýrari framkvæmd samgöngusáttmálans. Áhersla er lögð á verkefni eins og nýjar ljósastýringar, mislæg gatnamót á Bústaðavegi og Reykjanesbraut, Arnarnesveg og tengingu við Breiðholtsbraut. Ráðast þarf í flýtiframkvæmdir með fjölbreyttri fjármögnun og samstarfi við einkaaðila, til dæmis við Sundabraut sem er forgangsverkefni.

Til að auðvelda orkuskipti í samgöngum þarf að skapa raunverulega skattalega hvata fyrir einstaklinga og fyrirtæki og tryggja raforkuöryggi og -framboð um land allt. Endurskoða þarf vegalög og innleiða alþjóðlega staðla í vegagerð til að mæta aukinni umferð og stuðla að bættum umhverfisáhrifum.

Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu öryggishlutverki fyrir allt landið, og því er brýnt að hann verði óbreyttur í Vatnsmýri þar til annar jafn góður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar. Öruggar flugsamgöngur eru lífsnauðsynlegar fyrir landsbyggðina, og því þarf að efla sjúkraflug og tryggja áætlunarflug til og frá Vestmannaeyjum.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins leggur áherslu á að tryggja greiðar samgöngur landshluta á milli allan ársins hring. Flokkur fólksins vill að stöðugt sé unnið að því að bæta umferðaröryggi á þjóðvegum landsins meðal annars með bættu viðhaldi, breikkun vega, fækkun einbreiðra brúa og frekari lagningu bundins slitlags. Tryggja þarf að frekari tafir verði ekki á mikilvægum verkefnum eins og Teigskógarleið og Sundabraut. Ráðast þarf í gangnagerð af mun meiri krafti, enda sýna dæmin frá t.d. Færeyjum að það er samfélaginu í heild til góðs ef við byggjum jarðgöng. Flokkur fólksins er andvígur Borgarlínu.

Sósíalistaflokkurinn

Að vegakerfi landsbyggðarinnar verði bætt án veggjalda og að almenningssamgöngur verði á samfélagslegum forsendum, niðurgreiddar og stórbættar út frá hverjum landshluta fyrir sig. Vinna markvisst að umhverfisvænum lausnum í samgöngumálum svo sem með aukinni notkun rafvæddra ökutækja, strætó/borgarlínu og að hvetja til samnýtingar á bílum. Almenningssamgöngur þarf að efla um allt land og gera aðgengilegri fyrir alla hópa en einnig að gjaldfrjálst verði í strætó/borgarlínu.

Að launakjör og starfsumhverfi starfsmanna í almenningssamgöngum séu bætt.

Að þjónusta fólks í nærumhverfi sínu sé bætt þannig að hægt sé að draga úr löngum akstursleiðum sér í lagi á landsbyggðinni en einnig að almenningur geti tekið þátt í uppbyggingu samgangna í sínu nærumhverfi og lagt til lausnir að betri hverfum með samvinnu við stjórnvöld.

Að Internetið sé hluti af samgöngumálum og innviðir fjarskipta séu í almannaeigu.

Að strandflutningar verði efldir og að þungaflutningar fari sjóleiðina eftir því sem kostur er og hafnir rafvæddar en daglegar nauðsynjavörur fari landleiðina.

Samgöngur eru grunnþjónusta sem allir eiga að hafa góðan aðgang að hvort heldur landfræðilega eða efnahagslega svo fólk komist leiðar sinnar innan lands, innan borgar, bæja og á landsbyggðinni.

Sósíalistaflokkur Íslands vill að öll helstu samgöngumannvirki á landinu séu í eigu þjóðarinnar en ekki einkarekin eða rekstri þeirra útvistað. Þannig skal vegagerðin sem slík vera í eigu almennings og fjármögnun vega og allra samgöngumannvirkja ávallt vera í lagi. Þá sé tryggt að skattar sem eyrnamerktir eru vegagerðinni skili sér í þann málaflokk og ekki lögð veggjöld eða önnur gjöld á göng eða brýr.

Samgöngukerfið skal byggt upp með samgönguöryggi allra að leiðarljósi hvort sem er með hjólastígum, göngustígum, eða sérakreinum fyrir strætó og aðra sérumferð innan borgar, bæja eða milli staða á landsbyggðinni. Þá sé hugað að almannavörnum um allt land og öllum gefinn kostur á gjaldfrjálsum öryggisbúnaði eins og endurskinsmerkjum eða borðum.

Lýðræðisflokkurinn

Lýðræðisflokkurinn vill stuðla að bættum samgöngum í lofti, á láði og á legi.

Með uppbyggingu stofnbrauta, mislægra gatnamóta og ljósastýringum. Sundabraut fái forgang í ljósi öryggis og dreifingar á umferð. Hafnað er áformum um tugmilljarða fjársóun vegna svonefndrar borgarlínu. Samgöngusáttmálinn verið tekinn til endurskoðunar. Nýta ber kosti einkaframkvæmdar við gerð umferðarmannvirkja, eins og Hvalfjarðargöngin eru gott dæmi um. Innheimta má veggjöld fyrir notkun umferðarmannvirkja með rafrænum hætti. Skattlagning vegna vegaframkvæmda skili sér á réttan stað.

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn leggur áherslu á samgöngumál til að tryggja íbúum landsins jafna stöðu, hvar sem þeir búa. Bíllinn mun áfram gegna mikilvægu hlutverki og stjórnvöld mega ekki þrengja að einkabílnum meira en orðið hefur. Miðflokkurinn leggur áherslu á að öllum hindrunum fyrir lagningu Sundabrautar verði rutt úr vegi með það fyrir augum að umferð verði komin á nýja Sundabraut; frá Sæbraut og upp á Kjalarnes. Það er óumdeilt að Sundabraut verður mikil samgöngubót fyrir stóran hluta landsins. Hún léttir á umferð í gegnum Mosfellsbæ, styttir vegalengdir landsmanna inn í höfuðborgina, skapar gott byggingarland meðfram allri leiðinni, meðal annars mörg hundruð hektara í Geldinganesi og dregur úr umferð annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Þá skiptir ekki síður máli að tryggja örugga flóttaleið frá höfuðborgarsvæðinu.

Miðflokkurinn hafnar alfarið hugmyndum um Borgarlínu eins og þær liggja fyrir. Miðflokkurinn leggur hins vegar mikla áherslu á að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði bættar, en það verður að gerast með skynsamlegum hætti, bæði hvað varðar fjárhagslega þætti, sem og skipulagslega.

Vegakerfið hefur lengi verið vanrækt og þarfnast stórfelldrar uppbyggingar. Til að auka hraða uppbyggingar þarf fyrirkomulag sem tryggir stöðugar endurbætur og viðbætur til framtíðar. Með stofnun almenningshlutafélags í eigu allra landsmanna getum við rofið kyrrstöðuna og sett af stað viðvarandi, gagngerar endurbætur á samgöngukerfi landsins. Umræddu félagi er ætlað að einbeita sér að uppbyggingu stofnvega. Með þessu móti getur farið fram fyrirsjáanleg og viðvarandi vinna þar sem allir stofnvegir verða kláraðir, einbreiðum brúm útrýmt af þjóðveginum, ferðamannaleiðir byggðar upp, göng lögð til að tengja byggðir og lagðar tvær akreinar í hvora átt þar sem umferðarálag er mest.

Píratar

Píratar ætla að:

  • Gera einfaldar og hraðvirkar breytingar á samgöngukerfinu, t.d. með því að stórefla Strætó strax. Koma á fót landsbyggðastrætó sem virkar og flýta Borgarlínu eins og kostur er og hækka samgöngustyrki.
  • Píratar ætla að byggja upp öruggt vegakerfi um land allt.

Píratar vita að skilvirkar og umhverfisvænar samgöngur með fullfjármagnaðri samgönguáætlun virka. Píratar vilja trausta innviði sem styðja við framþróun um allt land. Þar á meðal frjálst internet um ljósleiðara, þriggja fasa rafmagn og öruggar samgöngur. Fólk verður að hafa greiðan aðgang að samgöngum um land allt, en samhliða verður að byggja upp hvata til að nota vistvæna samgöngumáta. Píratar ætla að byggja upp öruggt vegakerfi um land allt, efla vistvæna ferðamáta svo fólk geti notað hjól og strætó hvar sem það býr og tryggja aðgengi að rafhleðslu við alla þjóðvegi. Stuðningskerfi til einstaklinga sem velja sér vistvæna ferðamáta verður umbylt, að það sé ekki aðeins fyrir kaupendur rafbíla heldur einnig þá sem kjósa reiðhjól sem fararkost. Ráðast þarf í kröftuga uppbyggingu innviða og þjónustu í þágu virkra og grænna ferðamáta. Þannig aukum við hlutdeild gangandi og hjólandi umferðar og aukum notkun almenningssamgangna. Samgöngustyrkir eru einföld en mikilvæg aðgerð, því ferðir til og frá vinnu eru stór hluti af mengun samgangna. Píratar ætla að efla samgöngustyrki, sem er einfaldlega gert með því að hækka mánaðarlegar greiðslur til þeirra sem nýta sér almenningssamgöngur og virka ferðamáta. Við verðum að taka stór skref til að breyta samgöngukerfinu til að ná hröðum árangri í loftslagsmálum. Meðal þess sem hefur mikil áhrif og er hægt að gera hratt er að stórefla strætó strax, byggja upp landsbyggðarstrætó sem virkar og flýta Borgarlínu eins og kostur er.

Samfylkingin

Í útspili Samfylkingarinnar – Krafa um árangur – sem kom út síðastliðið vor voru settar fram þrjár grundvallarkröfur fyrir Ísland. Sú fyrsta snýr að framförum í orku- og samgöngumálum. Samgöngur eru forsenda öryggis og öflugs atvinnulífs um allt land. Á sama tíma og notkun á vegakerfinu hefur margfaldast að umfangi hafa fjárfestingar í samgöngum á Íslandi dregist aftur úr og eru þær nú einungis 0,5% af vergri landsframleiðslu en meðaltalið í öðrum ríkjum OECD er um 1%. Þetta birtist m.a. í viðhaldsskuld í vegakerfi landsins, algjöru framkvæmdastoppi við gerð jarðganga og skorti á vilja til þess að styrkja Strætó á meðan beðið er eftir Borgarlínu. Samfylkingin vill auka fjárfestingar í samgöngum og stefnir á að Íslandi nái aftur upp í meðaltal OECD-ríkja fyrir árið 2030. Í strjálbýlu landi þar sem allra veðra er von og færð spillist stóran hluta árs eru jarðgöng ekki einungis mikilvæg samgöngubót heldur í mörgum tilvikum klárt öryggismál og forsenda þess að byggð verði viðhaldið. Samfylkingin vill hefja framkvæmdir við jarðgangagerð og stefnir að því að á hverjum tíma verði framkvæmdir í gangi við að minnsta kosti ein jarðgöng á hverjum tíma.? Afstaða Samfylkingarinnar til flugvallar í Vatnsmýri er í samræmi við samkomulag ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 2019 þar sem fram kemur að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni þar til annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn. Efling almenningssamgangna á þéttbýlissvæðum er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál sem stuðlar að jöfnuði. Stór hluti heimlisbókhaldsins fer í rekstur einkabíls sem er því miður nauðsynlegur á flestum stöðum á landinu en öflugar almenningssamgöngur eru ekki síður mikilvægar milli byggða á landi, í flugi og með ferjum þegar landleið er ekki fær. Styrkja þarf strætó á meðan framkvæmdir standa yfir við Borgarlínu svo íbúar höfuðborgarsvæðinu fái raunverulegan valkost þegar kemur að samgöngumátum.

Vinstri Græn

Mikilvægt er að auka fjárfestingu og viðhald í samgöngum svo að unnt sé að tryggja öruggar samgöngur og stytta vegalengdir og ferðatíma milli byggða og atvinnusvæða. Þannig verði lagður grunnur af velsæld og verðmætasköpun um land allt.

  • Framlög til samgönguáætlunar verði aukin svo að unnt sé að flýta brýnum verkefnum í samgönguáætlun, jarðgangnaáætlun fjármögnuð og staðið við samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu.
  • Hraða þarf uppbyggingu göngu- og hjólastíga. Setja þarf lög um almenningssamgöngur, tryggja orkuskipti þeirra, efla þær um allt land og tryggja að þær séu aðgengilegar hreyfihömluðu fólki. Flýta þarf uppbyggingu Borgarlínu eins og kostur er og efla Strætó tafarlaust með stuðningi ríkisins. Grænni tengingu milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar þarf að forgangsraða.
  • Stytta þarf leiðir, fækka einbreiðum brúm, gera tímasetta áætlun um gerð jarðgangna og bæta vetrarþjónustu og tryggja þannig greiðar og öruggar samgöngur um land allt.
  • Mikilvægt er að hafa skýra jafnréttis- og kynjavinkla í samgöngum, bæði hvað varðar aðgengi og ákvarðanatöku
  • Taka þarf mið af náttúruvernd við ákvarðanir um uppbyggingu vegakerfisins.
  • Styðja þarf enn frekar við innviðauppbyggingu á flugvöllum utan suðvesturhornsins.
  • Þá þarf að gera bragabót á vegum landsins. Breikka þarf vegi, setja rifflur á miðju þeirra þar sem pláss er og koma vegriði fyrir víðar.

Stuðningur við almenningssamgöngur og aðrar aðgerðir í loftslagsmálum eru fjárfesting í framtíðinni. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í orkumálum: https://vg.is/stefna/orkumal/ Stefna Vinstri grænna í byggðamálum: https://vg.is/stefna/byggdamal/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki.
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.