Samgöngumál

Framsóknarflokkurinn

 • Framsókn vill halda áfram að bæta umferðaröryggi með því að fækka einbreiðum brúm á hringveginum og halda áfram að skilja að akstursstefnur á umferðarþyngstu vegköflum landsins.
 • Framsókn leggur áherslu á að stytta vegalengdir milli byggða, efla atvinnusvæði á landinu öllu og draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda.
 • Framsókn vill sjá áframhaldandi uppbyggingu samkvæmt Samgönguáætlun, halda þarf áfram með samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum og samstarfi á milli hins opinbera og atvinnulífs.
 • Sundabraut hefur verið á dagskrá allt kjörtímabilið og verður stórkostleg samgöngubót sem losar um umferðarhnúta. Á kjörtímabilinu hefur verið unnið að undirbúningi svo framkvæmdir geti byrjað eins og áætlanir gera ráð fyrir árið 2026.
 • Framsókn vill að í uppbyggingu innviða á hálendinu verði hugað að því til framtíðar að rafmagnsbílar komist um. Þá verði sérstök áhersla lögð á vegina um Kjöl og að Fjallabaki, ekki síst vegna mögulegs öryggishlutverks þeirra ef náttúruvá ber að dyrum.
 • Framsókn vill halda áfram að styrkja og efla innanlandsflugvelli og hafnir, fjölga tækifærum í ferðaþjónustu og skapa atvinnu heima fyrir..
 • Framsókn vill tryggja framgang Samgöngusáttmálans til að liðka fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu og vinna að kolefnishlutlausu Íslandi.
 • Framsókn vill að á hverjum tíma sé alltaf unnið að byggingu að minnsta kosti einna jarðganga á landinu.

Viðreisn

Viðreisn leggur áherslu á að auka fjárfestingar í samgöngukerfinu öllu, vegum, almenningssamgöngum, höfnum og flugvöllum landsins. Horfa ber til aðkomu einkaframtaksins í slíkum fjárfestingum og útgáfu grænna skuldabréfa í verkefnum sem stuðla að vistvænum samgöngum. Meta skal þjóðhagslega hagkvæmni innviðafjárfestinga og skulu allar stórar innviðaframkvæmdir ráðast af félagshagfræðilegu mati.

Of mörg mál hafa legið hafa í kerfinu svo áratugum skiptir, eins og að malbika fjölfarna malarvegi á landsbyggðunum og breikka einbreiðar brýr. Við eigum að einfalda og straumlínulaga ákvarðanatöku til að þoka þessum málum fram.

Hraða þarf orkuskiptum í samgöngum og ekki einskorða þau við bíla, heldur einnig skipa- og flugvélaflota landsins. Ákveða þarf og ráðast í framkvæmdir vegna nýrra lausna í flugsamgöngum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Borgarlína og þjóðvegsstokkar á höfuðborgarsvæðinu, ásamt aðskilnaði aksturstefnu á þjóðvegum við höfuðborgarsvæðið verði sett í forgang.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn leggur ríka áherslu á að bæta samgöngur með hraðari uppbyggingu og skynsamlegri nýtingu fjármuna, meðal annars með samstarfsverkefnum ríkis og einkaaðila. Þannig stuðlum við að meira öryggi, bættu loftslagi, sterkari byggðum, atvinnusköpun og auknum hagvexti. Aukum frelsi fólks þegar kemur að því að velja sér samgöngumáta, hvort sem um er að ræða almenningssamgöngur, almenna bifreiðaumferð, gangandi eða hjólandi. Einn samgöngumáti á ekki að þrengja að öðrum.

Mikilvægt er að tryggja arðbæra nýtingu fjármuna þannig að markmið um greiðari samgöngur, aukin lífsgæði og valfrelsi í samgöngum náist. Aukin áhersla verði lögð á uppbyggingu stofn- og tengivega um land allt. Móta skal áætlun um gerð jarðganga til lengri tíma, styrkingu ferjuleiða og viðhald flugvalla og uppbyggingu varaflugvalla. Greiðar og öruggar samgöngur eru mikilvægar undirstöður atvinnulífs og styrkja samkeppnishæfni byggðarlaga landsins. Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu öryggishlutverki fyrir allt landið og er því brýnt að hann verði óbreyttur í Vatnsmýri þar til annar jafn góður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins leggur áherslu á að umferðaröryggi og áreiðanleiki séu ávallt í forgangi í samöngumálum. Vegalengdir milli þéttbýliskjarna og byggðarlaga verði styttar og bættar eins og kostur er.

Flokkur fólksins vill að stöðugt sé unnið að því að bæta umferðaröryggi á þjóðvegum landsins meðal annars með bættu viðhaldi, breikkun vega, fækkun einbreiðra brúa á þjóðvegi 1 og frekari lagningu bundins slitlags.

Mikilvægt er að ráðast sem fyrst í fulla gerð Sundabrautar og að brúa Ölfusá norðan Selfoss. Einnig að vegamálum sunnanverðra Vestfjarða verði varanlega komið í gott horf.

Einkum er bráðnauðsynlegt að leggja Sundabraut, bæði af öryggis- og hagkvæmniástæðum. Það er óforsvaranlegt af borgaryfirvöldum í Reykjavík hve mjög þau hafa tafið fyrir í þessum efnum. Borgaryfirvöld hafa ítrekað komið í veg fyrir framkvæmdir og m.a. gripið til þess að úthluta lóðum á fyrirhuguðu vegstæði Sundabrautar. Þetta hefur aftur hamlað uppbyggingu nýrra íbúðasvæða norður af núverandi höfuðborgarsvæði, s. s. á Geldinganesi, Kjalarnesi og jafnvel norðan Hvalfjarðar.

Flokkur fólksins styður jarðgangagerð á Austurlandi, Vestfjörðum og víðar til að tryggja öruggar samgöngur á landsbyggðinni. Jarðgöng eru ekki munaðarvara heldur öryggisatriði.

Reykjavíkurflugvöllur á heima í Vatnsmýrinni og skal áfram gegna lykilhlutverki sem miðstöð samgangna og sjúkraflutninga í lofti fyrir alla landsmenn, og einnig sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll.

Sósíalistaflokkurinn

Samgöngur eru grunnþjónusta sem allir eiga að hafa góðan aðgang að hvort heldur landfræðilega eða efnahagslega svo fólk komist leiðar sinnar innan lands, innan borgar, bæja og á landsbyggðinni.

Sósíalistaflokkur Íslands vill að öll helstu samgöngumannvirki á landinu séu í eigu þjóðarinnar en ekki einkarekin eða rekstri þeirra útvistað. Þannig skal vegagerðin sem slík vera í eigu almennings og fjármögnun vega og allra samgöngumannvirkja ávallt vera í lagi. Þá sé tryggt að skattar sem eyrnamerktir eru vegagerðinni skili sér í þann málaflokk og ekki lögð veggjöld eða önnur gjöld á göng eða brýr.

Samgöngukerfið skal byggt upp með samgönguöryggi allra að leiðarljósi hvort sem er með hjólastígum, göngustígum, eða sérakreinum fyrir strætó og aðra sérumferð innan borgar, bæja eða milli staða á landsbyggðinni. Þá sé hugað að almannavörnum um allt land og öllum gefinn kostur á gjaldfrjálsum öryggisbúnaði eins og endurskinsmerkjum eða borðum.

Þá sé mismunandi samgöngum ekki stillt upp sem andstæðum pólum heldur hafi fólk frelsi til að velja sér samgöngumáta innan þeirra marka sem samfélagið setur sér þegar kemur að umhverfisvernd og loftslagsmálum. Stefnt sé markvisst að umhverfisvænum lausnum eins og stefna sósíalista í umhverfis- og loftslagsmálum segir til um en einnig skal stefnt að því að jafna kjör fólks þegar kemur að samgöngum með tilliti til búsetu og eða möguleikum á að nota umhverfisvænan samgöngumáta. Sjá nánar

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn horfir til kerfisbreytinga í öllum málaflokkum og það á sérstaklega við í samgöngumálum. Ný nálgun þar mun gjörbylta uppbyggingarhraða samgöngumannvirkja. Með aukinni innviðafjárfestingu verður hvati til verðmætasköpunar stóraukinn en það tryggir getu samfélagsins til að standa undir nauðsynlegum velferðarkerfum. Miðflokkurinn vill tryggja að miðstöð innanlandsflugs verði áfram í Vatnsmýri, styður við uppbyggingu almenningsamgangna en hafnar Borgarlínu. Þá leggur Miðflokkurinn sérstaka áherslu á flýtingu Sundabrautar.

Vegakerfið hefur lengi verið vanrækt og þarfnast stórfelldrar uppbyggingar. Til að auka hraða uppbyggingar þarf fyrirkomulag sem tryggir stöðugar endurbætur og viðbætur til framtíðar. Með stofnun almenningshlutafélags í eigu allra landsmanna getum við rofið kyrrstöðuna og sett af stað viðvarandi, gagngerar endurbætur á samgöngukerfi landsins. Umræddu félagi er ætlað að einbeita sér að uppbyggingu stofnvega. Með þessu móti getur farið fram fyrirsjáanleg og viðvarandi vinna þar sem allir stofnvegir verða kláraðir, einbreiðum brúm útrýmt af þjóðveginum, ferðamannaleiðir byggðar upp, göng lögð til að tengja byggðir og lagðar tvær akreinar í hvora átt þar sem umferðarálag er mest.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Sundabraut og Sundabrú er forgangsverkefni flokksins á komandi kjörtímabili. Sundabraut og Sundabrú eykur öryggi íbúa á höfuðborgarsvæðinu og dregur úr umferðarþunga á öðrum stöðum í borginni auk þess að framkvæmdin skapar mikinn hagvöxt til langs tíma. Hér er um að ræða góða innviðafjárfestingu sem borgar sig upp hratt og örugglega. Bundið slitlag milli Akureyrar og Gullfoss þ.e. Kjalveg. Kjalvegur (219 km.) eykur öryggi og bætir efnahag Norðlendinga. Flokkurinn vill einnig malbika fjölförnustu vegakafla á Þjóðvegi 1 á næsta kjörtímabili. Lausnin við vegablæðingum og auknu umferðaröryggi er að malbika þá vegi sem bera mesta umferðarþungan. Flýta þarf vegaframkvæmdum á Vestfjörðum til að tengja firðina betur við samgöngukerfi landsins. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er alfarið á móti svokallaðri borgarlínu og teljum við það glórulaust að vaða út í svona framkvæmd án nokkurra haldbærra raka með miklum kostnaði ásamt margra ára umferðaröngþveiti. Hugmyndin okkar „Störf án staðsetningar" gerir „Borgarlínuna" úrelta hugmynd og sparar skattgreiðendum hundruðir milljarða.

Píratar

Sýn Pírata á samgöngur gengur út á tvennt: Að fólk hafi frelsið til að velja sér þann samgöngumáta sem það vill og að flýta orkuskiptum í samgöngum.

Valfrelsi í samgöngum
Undanfarna áratugi hafa stjórnvöld lagt áherslu á að Íslendingar þurfi að eiga bíl og borga rúma milljón á àri fyrir vikið. Rannsóknir hafa sýnt að sífellt fleiri vilji ferðast með öðrum hætti og eyða milljóninni í eitthvað annað. Við viljum svara þessari eftirspurn og auðvelda fólki að ferðast eftir sínu höfði. Fyrsta skref er að skilgreina almenningssamgöngur og virka ferðamáta sem hluta af grunnneti samgangna. Þá væri þjóðráð að leggja hjólaslóða meðfram hringveginum. Hjólaferðamennska mun aukast og hjólaslóði stórbætir öryggi allra vegfarenda.

Orkuskipt
Píratar vilja auðvelda orkuskiptin með því að byggja upp nauðsynlega innviði um allt land og skapa hvata fyrir fólk til að nýta sér vistvæna ferðamáta. Þá viljum við styðja nýsköpun í sjálfbærum orkugjöfum; hvort sem um ræðir rafmagn, vetni, metan eða aðra nýja tækni.

Skipulag samgangna
Skilvirkar og umhverfisvænar samgöngur þurfa öfluga og fullfjármagnaða samgönguáætlun, ekki óljós loforð á blaði. Píratar vilja leyfa íbúum hvers landssvæðis að forgangsraða framkvæmdum í samgönguáætlun, í samræmi við byggðastefnu Pírata. Píratar hafna innheimtu vegtolla til að fjármagna almennar samgönguframkvæmdir.

Samfylkingin

Greiðar samgöngur um land allt eru lykilatriði við að tryggja öllum jöfn tækifæri óháð búsetu. Samfylkingin vill ráðast í stórátak í samgöngumálum til að styrkja Ísland sem heild með því að tengja landshlutana betur saman og stytta vegalengdir innan afmarkaðra vinnusóknarsvæða.

Samfylkingin leggur áherslu á að fjölga valkostum og auka fjölbreytni í samgöngum. Hefja undirbúning að Keflavíkurlínu, grænni tengingu milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, og flýta Borgarlínu og öðrum loftslagsvænum framkvæmdum í samgönguáætlun. Byggja upp Landlínu, heildstætt almenningsvagnanet svo að það verði raunhæfur kostur fyrir fólk að ferðast um landið án einkabíls. Við ætlum auk þess að gera hjólreiðaáætlun fyrir allt Ísland og gera átak í lagningu hjólastíga um allt land. Allt fellur þetta saman við markmið okkar um lýðheilsu og í loftslagsmálum. Þegar kemur að þjóðvegakerfinu þarf að vinna á uppsafnaðri viðhaldsþörf undanfarinna ára og auka nýframkvæmdir með hliðsjón af atvinnustefnu fyrir Ísland og áherslu á styttingu vegalengda og öryggi. Þá viljum við ráðast í markvissar aðgerðir til að hraða orkuskiptum í samgöngum á sjó, landi og í flugi, vinna að fjölgun alþjóðlegra fluggátta til landsins, tryggja að gæði varaflugvalla séu viðunandi og að viðhald og uppbygging á innviðum innanlandsflugs taki mið af uppbyggingu ferðaþjónustu.

Vinstri Græn

Styðja þarf sérstaklega við græn umskipti í samgöngum og vöruflutningum í lofti, láði og legi m.a. með uppbyggingu hleðslustöðva, rafvæðingu hafna um allt land og uppbyggingu Borgarlínunnar hratt og örugglega.

 • Tryggja þarf að almenningssamgöngur um allt land séu raunhæfur valkostur í ferðum innan og á milli landshluta og samþætta ólíka samgöngumáta í landinu og mynda þannig samfellu milli t.d. flugs, strætisvagna og ferja.

 • Stytta þarf leiðir, fækka einbreiðum brúm, gera tímasetta áætlun um gerð jarðgangna og bæta vetrarþjónustu og tryggja þannig greiðar og öruggar samgöngur um land allt.

 • Taka þarf mið af náttúruvernd við ákvarðanir um uppbyggingu vegakerfisins.

 • Styðja þarf enn frekar við innviðauppbyggingu á flugvöllum utan suðvesturhornsins.

 • Þá þarf að gera bragabót á vegum landsins. Breikka þarf vegi, setja rifflur á miðju þeirra þar sem pláss er og koma vegriði fyrir víðar.

 • Nýjar leiðir þarf til að fjármagna uppbyggingu samgönguinnviða um land allt vegna orkuskipta í samgöngum og áhrif þeirra á skatta af sölu á eldsneyti. Sem liður í réttlátum umskiptum er mikilvægt að komi ekki helst niður á þeim sem minna hafa á milli handanna og að fólki sé hvorki mismunað eftir fjárhag né búsetu. Einnig þarf að taka tillit til umhverfisáhrifa ökutækja.

Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://vg.is/kosningaaherslur-2021/

Stefna Vinstri grænna í orkumálum: https://vg.is/stefna/orkumal/

Stefna Vinstri grænna í byggðamálum: https://vg.is/stefna/byggdamal/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki