Jafnréttismál
Framsókn
Jafnrétti er eitt af grunnstefjum samvinnu- og framsóknarstefnunnar. Framsókn hafnar allri mismunun á grundvelli kyns, aldurs, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, trúar, bakgrunns, þjóðernis og/eða stöðu að öðru leyti. Það er eitt af hlutverkum Framsóknar að ganga ávallt á undan með góðu fordæmi í jafnréttismálum og útrýma kynbundnum launamun.
Framsókn vill berjast gegn kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi með virkum aðgerðum á öllum sviðum, en Framsókn var fyrst flokka til þess að bregðast við METOO byltingunni og hefja vinnu við siðareglur gagnvart kynferðislegri áreitni í stjórnmálastarfi.
Framsókn vill efla jafnrétti í menntakerfinu og tryggja að allir hafi jafnan aðgang að námi, óháð búsetu eða félagslegum aðstæðum. Flokkurinn styður rétt til þungunarrofs og leggur áherslu á gott aðgengi að getnaðarvörnum og tíðarvörum í skólum.
Framsókn leggur áherslu á að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði, meðal annars með jöfnun launamunar og stuðningi við jafnréttisverkefni. Markmiðið er að stuðla að réttlátu og jafnréttissinnuðu atvinnulífi, þar sem fjölbreytileiki kynja og annarra hópa sé endurspeglaður í stjórnunarstöðum.
Framsókn styður réttindi hinsegin fólks og vill auka fræðslu um málefni þeirra á öllum skólastigum. Einnig er lögð áhersla á að uppfæra orðalag laga og reglna með tilliti til kynhlutleysis og að tryggja aðgengi að kynhlutlausum búningsklefum.
Framsókn hefur sýnt í verki að flokkurinn vill jafna aðgengi að íþróttum og afreksstarfi óháð búsetu og auðvelda aðgengi fatlaðra barna og barna með erlendan menningar- og tungumálabakgrunn að íþrótta- og æskulýðsstarfi.
Viðreisn
Frjálslyndi, frelsi og jafnrétti er leiðarstef Viðreisnar á öllum sviðum. Skapa þarf öllum landsmönnum jöfn tækifæri og styðja þau sem ekki geta nýtt tækifærin.
Viðreisn vill tryggja jöfn réttindi fyrir öll, óháð kyni, kynþætti eða kynvitund, með heildstæðri löggjöf sem byggir á mannréttindum og sjálfræði einstaklingsins.
Við munum standa vörð um rétt kvenna til að stjórna eigin líkama og berjast gegn kynbundnu ofbeldi.
Við viljum uppræta kynbundinn launamun og jafna stöðu kynja á vinnumarkaði með sérstakri áherslu á bætingu kjara kvennastétta. Við viljum tryggja að jafnréttislöggjöf á vinnumarkaði nái til hinsegin fólks og stuðli að jöfnum tækifærum, óháð kyni, kynhneigð eða kyneinkennum.
Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisstefnan grundvallast á frelsi og ábyrgð, jafnrétti og samkennd. Hún er víðsýn og frjálslynd framfarastefna. Það er afstaða sjálfstæðisflokksins að allir eigi að búa við jöfn tækifæri óháð kynferði, kynhneigð, uppruna, trú eða öðrum þáttum. Fjölbreytileiki þrífst best í frjálsu samfélagi.
Sjálfstæðisflokkurinn vill áfram vera í fararbroddi þeirra sem vilja tryggja mannréttindi og auka réttindi hinsegin fólks. Þarft er að stíga áfram skref sem tryggja jöfn réttindi og jafna stöðu þeirra. Stjórnvöld þurfa að móta sér heildstæða stefnu í málefnum hinsegin fólks, í samstarfi við samtök þeirra, þar sem sérstaklega verði skoðað að styrkja stöðu hinsegin fjölskyldna, einkum með tilliti til ættleiðinga, skráningar og sjálfkrafa viðurkenningar samkynja foreldra. Ísland er, og á að vera í fararbroddi þegar kemur að réttindum hinsegin fólks. Fólki á að vera frjálst að skilgreina kyn sitt að vild. Brýnt er að fræðsla um málefni hinsegin fólks verði efld og veitt á öllum skólastigum og að umfjöllun um þau verði beitt við menntastefnu.
Sjálfstæðisflokkurinn vill stuðla að fjárhagslegu sjálfstæði einstaklinga sem er grundvöllur jafnréttis. Við teljum það grundvallaratriði að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri einstaklinga óháð kyni, stöðu, uppruna eða öðrum þáttum.
Flokkur Fólksins
Flokkur fólksins telur mikilvægt að stjórnvöld hugi ávallt að jafnrétti kynjanna og stuðli að því að útrýma kynbundnum launamun.
Sósíalistaflokkurinn
Sósíalistaflokkur Íslands telur að félagsleg staða, kyn, uppruni, kynferði, kynverund, fátækt eða fötlun skuli ekki skerða réttindi fólks að nokkru leyti og að sá stuðningur félags- eða heilbrigðisþjónusta sem langveikir eða fatlað fólk þarf að nýta sér til að sitja við sama borð og aðrir séu mannréttindi sem beri að virða samanber samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og um réttindi geðfatlaðra sem ríkisstjórn Íslands ber að samþykkja og staðfesta. Virða skal allar alþjóðlegar mannréttindastefnur sem Ísland er aðili að og samþykkja hina ýmsu viðauka sem gerir yfirvöld raunverulega ábyrg og skyldar þau til að bregðast við óréttlæti svo sem húsnæðisleysi eða órétti á vinnumarkaði.
Taka skal upp samvinnu við alla minnihluta- og eða notendahópa og miða alla áætlanagerð ríkis og sveitarfélaga út frá stéttavinkli og fjölbreytileika en ekki einungis út frá kynjum. Þar er mikilvægt að skoða hvernig þættir eins og efnahagsleg staða , uppruni, hinseginleiki eða fötlun móta veruleika fólks. Að öll lögbundin þjónusta við börn sé með öllu gjaldfrjáls og sérstaklega sé hugað að þörfum, réttindum og vernd barna.Börn eiga að njóta sérstakrar verndar þegar kemur að kynrænu sjálfræði, aðgerðir séu ekki gerðar á börnum undir lögaldri.
Huga þarf að og laga regluverk er varðar kynbundið ofbeldi innan lands og utan og að unnið sé gegn hvers kyns ofsóknum, hatursorðræðu og heimilisofbeldi, ofbeldi gegn fólki af ákveðnu kyni, uppruna, fötluðu fólki og hinsegin fólki. Að sjálfsákvörðunarréttur fólks sé fyllilega virtur þegar kemur að þungunarrofi, ófrjósemisaðgerðum eða öðrum inngripum sem tengjast líkama þess og eða kyni.
Að slagorðið „Ekkert um okkur án okkar“ sé ávalt haft í heiðri í öllum stjórnvaldsákvörðunum og alltaf leitað samvinnu við þá sem málin varða. Ítarlega stefnu í jafnréttismálum má finna inni á vef flokksins. Sjá nánar
ATH stefnuyfirlýsingu Sósíalískra femínista sem nálgast má hér: https://sosialistaflokkurinn.is/2021/03/08/sosialiskir-feministar-stefnuyfirlysing/
Lýðræðisflokkurinn
Áhersla skal vera á jafnræði allra fyrir lögum.
Miðflokkurinn
Miðflokkurinn bendir á að ekkert samfélag eða lýðræðisríki getur talið sig vera fullkomlega þróað án jafnrétti kynjanna. Ísland hefur verið í fararbroddi í jafnréttismálum til margra ára en alltaf er hægt að gera betur. Mikilvægt er að karlmenn séu virkir þátttakendur í því að ná fram jafnrétti kynjanna enda skiptir jafnrétti alla máli. Miðflokkurinn telur að launamun sem ekki er hægt að skýra af öðrum ástæðum en kyni vera óásættanlegan.
Píratar
Píratar ætla að:
- Gera Ísland að leiðandi ríki í réttindabaráttu hinsegin fólks á heimsvísu.
- Tryggja lagalegt jafnrétti hinsegin para á við gagnkynja pör.
- Uppfæra ákvæði í stjórnarskrá til að ná yfir kyntjáningu, kynvitund og kyneinkenni.
- Bæta þjónustu í tengslum við kynstaðfestandi ferli.
- Banna öll ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna.
- Beita okkur fyrir sanngirni og skoða bótagreiðslur til þeirra sem hafa sætt óréttlátri meðferð vegna hinseginleika síns.
- Beita sér fyrir því að frjósemisfrelsi kvenna og kvára verði tryggt í stjórnarskrá.
- Leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum.
- Lögfesta rétt barna til leikskólavistar strax að loknu fæðingarorlofi.
- Afnema skerðingar á lægstu greiðslum í fæðingarorlofi og tryggja að fæðingarorlofsgreiðslur verði aldrei lægri en lágmarkslaun.
- Tryggja brotaþolum í kynferðisbrotamálum fullnægjandi þjónustu, s.s. túlkaþjónustu og aðgengi, í samskiptum við opinberar stofnanir.
- Láta brot á nálgunarbanni hafa afleiðingar, að bannið hafi áhrif og lögreglan fái rýmri heimildir til að beita nálgunarbanni.
- Endurskoða lög um nauðganir og önnur kynferðisbrot og annað kynbundið ofbeldi, til að fanga meðal annars betur brot í netheimum og á samskiptamiðlum.
- Færa kynjafræði, hinsegin fræði og menntun um birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og samskiptafærni inn í námskrá grunn- og framhaldsskóla.
- Tryggja aðgengi ungs fólks að nafnlausri ráðgjöf og spjalli við ráðgjafa.
- Efla lög um bann við hatursorðræðu og gera hana á grundvelli kynjamisréttis og kvenhaturs refsiverða.
Píratar leggja höfuðáherslu á jafnrétti og virðingu fyrir fjölbreytileika í samfélaginu. Við viljum tryggja öllum jafnan rétt, óháð kyni, kynhneigð, uppruna eða fötlun. Með víðsýni og samstöðu stefnum við að réttlátara samfélagi þar sem hver einstaklingur fær að njóta sín til fulls. Jafnrétti og mannréttindi eru hornsteinar lýðræðislegs samfélags. Píratar munu áfram berjast fyrir auknum réttindum hinsegin fólks, kvenna og jaðarsettra hópa. Með skýrum lögum og fræðslu er hægt að tryggja virðingu, öryggi og sanngirni fyrir alla, óháð bakgrunni eða aðstæðum.
Samfylkingin
Samfylkingin vinnur gegn hvers kyns mismunun sem tilkomin er vegna kyns, uppruna, þjóðernis, fötlunar, kynvitundar, kyneinkenna eða annarra þátta. Samfylkingin er femínískur flokkur sem vill jafna stöðu allra kynja og ráðast af alefli gegn kynbundnum launamun eða launamunar vegna uppruna, þjóðernis, fötlunar, kynhneigðar og fleira. Samfylkingin vill ráðast í endurmat á virði starfa með launajöfnuð að markmiði. Í þeirri vinnu þarf að greina sérstaklega mun á ævitekjum milli kynja, lífeyrisgreiðslum og eignum til þess að jafna eða draga verulega úr þessum mun, m.a. með leiðum eins og kynjaðri fjárlagagerð og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða inn í stefnumótun og ákvarðanatöku hins opinbera.
Vinstri Græn
Fordómar sem byggja á kyni, kynvitund, kynhneigð, fötlun, uppruna og trúarbrögðum verða ekki liðnir á Íslandi, né heldur orðræða og framkoma sem felur í sér hatur og tortryggni.
- Nauðsynlegt er að uppræta allar birtingarmyndir kynjamisréttis og brjóta þannig upp kynjakerfið.
- Tryggjum efnahagslegt öryggi kvenna sem hafa skert lífeyrisréttindi vegna kynbundins launamunar, vanmats á virði kvennastarfa og ólaunaðra starfa yfir ævina. Endurmetum virði kvennastarfa í því skyni að útrýma kynbundnum launamun.
- Tryggjum jafna skiptingu fæðingarorlofs foreldra og stuðlum að jöfnun umönnunarbyrði kynjanna.
- Upprætum þau viðhorf og kerfi sem leiða af sér kynbundið ofbeldi og tryggjum að öll ofbeldismál fái skjóta og faglega meðferð í réttarvörslukerfinu.
- Tryggjum að brotaþolar séu aðilar máls í kynferðisbrotamálum og að ríkið verði skaðabótaskylt gagnvart þolendum ef mál er fellt niður vegna mistaka við rannsókn eða tafa á málsmeðferð. Huga þarf sérstaklega að stöðu fatlaðs fólks í því samhengi.
- Nauðsynlegt er að tekið sé fullt tillit til þeirra einstöku aðstæðna sem þolendur kynlífsþrældóms og mansals eru í. Verklag Útlendingastofnunar við brottvísanir þarf að breytast þannig að það taki mið af þessu.
- Tryggja þarf leið á félagslegum forsendum út úr vændi eða hvers kyns mansali með því að tryggja afkomu, húsnæði og vernd mansalsfórnarlamba.
- Lögfesta þarf leikskólastigið og tryggja foreldrum óskertar tekjur í fæðingarorlofi upp að ákveðnu hámarki. Ekki á að leyfa heimgreiðslur enda eru þær ekki fallnar til þess að tryggja inngildingu eða jafnrétti.
- Tryggja þarf öllum foreldrum sömu réttarstöðu við fæðingu barns.
- Setja þarf skýran laga- og refsiramma um hatursorðræðu og hatursglæpi í garð hinsegin fólks, innflytjenda, fatlaðs fólks, kvenna og annarra hópa.
- Auka þarf vernd trans og intersex fólks, sérstaklega barna.
- Innleiða þarf samning Sþ um réttindi fatlaðs fólks
- Við getum og verðum að stuðla að inngildingu þeirra sem vilja búa hér, tryggja jöfnuð og velsæld allra borgara samfélagsins.
Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í kvenfrelsismálum: https://vg.is/stefna/kvenfrelsi/ Stefna Vinstri grænna um málefni hinsegin fólks: https://vg.is/stefna/malefni-hinsegin-folks/
Ábyrg Framtíð
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.