Loftslagsmál

Framsóknarflokkurinn

 • Loftslagsváin er ein helsta ógn mannkyns og viðbrögð við henni því eitt stærsta verkefni stjórnmálanna. Framsókn gerir kröfu um að framfylgja loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins. Ísland getur verið fyrirmynd annarra ríkja með stefnu um kolefnishlutleysi og virkri þátttöku á alþjóðavettvangi. Takmark um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 er vel gerlegt með víðtækri aðgerðaráætlun stjórnvalda, stefnufestu og samvinnu. Leggja þarf áherslu á orkuskipti í samgöngum, stóraukna kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu, markvissari aðgerðir til að auka endurnýtingu og hvata sem draga úr hvers kyns sóun. Mikilvægt er að halda virku samtali við atvinnulífið og samfélagið í heild sinni um aðgerðir í loftslagsmálum.
 • Framsókn vill að tekin verði enn stærri skref á næstu árum í áframhaldandi orkuskiptum í samgöngum og flutningum á landi og á sjó. Markmiðið er að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti og að raforkukerfið sé forsenda orkuskipta og efnahagslegra framfara með nýtingu innlendra, hagkvæmra og hreinna orkugjafa í samgöngum.
 • Eftirspurn eftir framleiðslu úr grænni orku og hreinu vatni fer hraðvaxandi um alla heim. Framsókn vill nýta tækifæri til útflutnings á orkuþekkingu og orku í formi rafeldsneytis. Fari svo sem horfir gæti hér sprottið upp nýr og spennandi iðnaður sem mundi grundvallast á öflugri atvinnusköpun, nýsköpun, gjaldeyrissparnaði og ávinningi í loftslagsmálum.

Viðreisn

Ísland á að vera í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og því neyðarástandi sem vofir yfir heimsbyggðinni. Við viljum koma á hvötum þannig að þeir borgi sem menga. Sjálfbær og ábyrg umgengni við náttúruauðlindir, þar sem náttúruvernd helst í hendur við nýtingu er lykillinn að grænni framtíð.

Viðreisn vill að Ísland verði kolefnishlutlaust og laust við jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Nýskráning á bensín- og díselbílum verði hætt árið 2025. Ísland á að helminga heildarlosun ríkisins á áratugs fresti. Viðreisn leggur áherslu á aðgerðaáætlun með tölu- og tímasettum markmiðum sem lögð eru fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar ár hvert. Tengja þarf loftslagsmálin þvert á fagráðuneyti svo þau endurspeglist í ákvörðunum í öllum málaflokkum.

Viðreisn leggur höfuðáherslu á að fara að ráðum vísindasamfélagsins. Þess vegna vill Viðreisn beita sér fyrir að sett verði sjálfstæð íslensk markmið sem ganga lengra en alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Loftslagsstefna Viðreisnar var metin næst best allra flokka á Íslandi á matskvarða Ungra umhverfissinna, Sólinni.

Hraða þarf orkuskiptum á öllum sviðum en tryggja þarf nægt framboð endurnýjanlegrar orku og öfluga innviði til að gera okkur kleift að klára orkuskipti. Viðreisn leggur áherslu á virka ferðamáta og almenningssamgöngur.

Sjálfstæðisflokkurinn

Það er skylda okkar að vinna gegn loftslagsvánni og verja þannig lífsgæði okkar og komandi kynslóða. Þess vegna ætlum við áfram að vera í fararbroddi þegar kemur að nauðsynlegum aðgerðum til að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Í aðgerðunum felast einnig efnahagsleg tækifæri. Helsta framlag Íslands til umhverfismála eru orkuskiptin. Staða Íslands í orkumálum er öfundsverð og gefur ómetanleg tækifæri til að vera leiðandi í grænni orkubyltingu, hverfa frá jarðefnaeldsneyti og taka upp umhverfisvænni orkugjafa.

Græna orkubyltingin kallar á aukna notkun á bæði raforku og rafeldsneyti sem Ísland er íkjörstöðu til að framleiða.

Efnahagslegur ávinningur af grænni orkubyltingu er mikill en árlega verja Íslendingar um 80-120 milljörðum króna í eldsneytiskaup frá útlöndum.

Það er raunhæft fyrir Ísland að skipta um orkugjafa í bílum, á sjó og í flugi. Þannig getum við notað okkar eigin grænu orku, sparað gjaldeyri og um leið skapað nýja, hugvitsdrifna atvinnugrein.

Sjálfstæðisflokkurinn vill að Ísland stigi skrefið til fulls, sé leiðandi í orkuskiptum á heimsvísu með metnaðarfullum aðgerðum og verði fyrst þjóða óháð jarðefnaeldsneyti.

Sjálfstæðisflokkurinn minnir á að Íslendingar eiga mikið undir umhverfinu og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Sjálfbær þróun mætir kröfum samtímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða. Hún byggist á þremur meginstoðum; vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri, sem eru óaðskiljanlegar og háðar hver annarri.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins lítur á loftlagsbreytingar af mannavöldum sem grafalvarlegan, hnattrænan umhverfisvanda enda virðir mengun engin landamæri.

Við viljum að Íslendingar taki virkan þátt í baráttunni gegn þessari vá í alþjóðlegu samstarfi. Endurheimt votlendis, rafvæðing bílaflotans, vistvæn orka til skipa, framleiðsla á endurnýjanlegri orku og aukin skógrækt er þær mótaðgerðir sem liggur beinast við Íslendingar ráðist í.

Við leggjum mikla áherslu á að Ísland axli ábyrgð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum án þess að aðgerðir í þágu umhverfisverndar bitni á almenningi sem hefur úr litlu að moða fjárhagslega. Það hafa t.d. ekki allir efni á því að skipta yfir í rafbíla.

Við munum því beita okkur gegn grænum sköttum sem auka misskiptingu og fátækt. Þeir greiði mest sem menga mest.

Við viljum nýta hreinar orkulindir landsins af skynsemi svo draga megi úr mengun, samhliða náttúruvernd.

Þar sem hálendisþjóðgarður hefur verið tengdur loftslagsumræðu, er vert að taka fram að við styðjum ekki takmarkanir á ferðafrelsi almennings innanlands til að njóta eigin náttúru. Hálendið er unaðsreitur sem má ekki stofnanavæða í formi þjóðgarðs með tilheyrandi ráðherraræði á kostnað almannaréttar. Við treystum heimamönnum í nærliggjandi sveitarfélögum vel til að halda utan um hálendismálin.

Það hafa ekki allir efni á utanlandsferðum og því er gríðarlega mikilvægt að almenningur, og þá ekki síst fatlað fólk, hafi greiðan aðgang að þessari endurnærandi paradís hálendisins án gjaldtöku. Íslendingar hafa notið hennar lengi, til dæmis innan vébanda útivistarfélaga, og almennt gengið vel um. Við treystum þessu fólki til að njóta hálendisins, virða það áfram og vernda í senn.

Sósíalistaflokkurinn

Eyðilegging náttúru af mannavöldum, loftslagsbreytingar og mengun eru afleiðing kapítalismans, þess að auðvaldið hefur fengið að ráða ferðinni og farið sínu fram. Umhverfisváin á því sömu rót og sú hætta sem vofir yfir samfélögunum, sem er alræði auðvaldsins. Eina leiðin til að byggja upp gott samfélag og verja náttúrugæðin er að almenningur taki völdin af auðvaldinu.

Auðvaldið er hin ríku sem lifa ofan við samfélag alþýðu manna og telja sig ekkert hafa að sækja í þau grunnkerfi sem byggð voru upp á síðustu öld til að bæta lífskjör og réttindi almennings. Þau telja sig heldur ekki bundin af reglum samfélagsins, starfa eftir því eina boðorði að það sem þau græða á hljóti að vera rétt.

Og hin ríku telja sig einnig geta varist náttúruhamförum og loftslagsbreytingum, keypt sér herragarða á svæðum þar sem minni líkur eru á afleiðing loftslagsbreytinga valdi skaða. Kaupa sér jafnvel jarðir á Íslandi til að eiga hér skjól fyrir þeim skaða sem þau sjálf valda.

Það er því óhugsandi að lausn finnist á eyðileggingu umhverfis og samfélags án þess að að breyta valdajafnvæginu í samfélögunum. Undir alræðisvöldum auðvaldsins munu samfélögin verða brotin og náttúrugæðin eyðilögð. Frumforsenda þess að vinna gegn loftslagsbreytingum og stöðva eyðileggingu náttúrugæða er því að taka völdin af auðvaldinu. Það er stærsta aðgerðin í loftslagsmálum. Sjá nánar

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn leggur áherslu á markvissar og skilvirkar aðgerðir til þess að ná raunhæfum markmiðum í loftslagsmálum. Miðflokkurinn styður umhverfisvernd byggða á tækni, vísindum og heilbrigðri skynsemi. Því er mikilvægt að nýta umhverfisvæna innlenda orku til að auka framleiðslu á Íslandi og framleiða þannig umhverfisvænar afurðir, auka útflutningstekjur og hagvöxt og bæta kjör landsmanna. Velferð verður ekki slitin úr samhengi við verðmætasköpun. Miðflokkurinn telur að unnt sé að ná öllum markmiðum í loftslagsmálum án þess að skerða efnahag landsmanna og mikilvægt er að tryggja að aðgerðir hitti ekki fyrir þá sem standa höllum fæti efnahagslega.

Eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku veitir Íslendingum ómæld tækifæri til að auka verðmætasköpun um allt land. Við getum aukið orkuframleiðslu, bætt flutningskerfið og nýtt virkjanir og orkukosti betur. Miðflokkurinn telur að Íslendingar ættu að einsetja sér að flytja út að minnsta kosti eins mikið eldsneyti og flutt er inn. Til dæmis mætti framleiða vetni og binda það, ammoníak og metenól. Heimurinn þarf miklu meiri endurnýjanlega orku. Þarna getur Ísland komið með mikilsverð framlög og þarf að nýta tækifærin betur, jafnvel framleiða meira. Það getur þýtt að losun landsins aukist fremur en að minnka en á heimsvísu mun það draga úr losun og vera það besta sem við getum gert í loftslagsmálum. Það mun einnig bæta lífskjör Íslendinga.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Þar sem nýjar reglur Evrópusambandsins koma til með að banna sölu á nýjum bensín og dísel bílum árið 2035 verða Íslendingar að bretta upp ermarnar og breyta yfir í rafmagnsbíla í mun hraðar en stjórnvöld ætluðu sér. Breytingarnar verða mun fyrr og það er eftir engu að bíða. Algjöra nýliðun í flota bílaleiganna ætti að setja strax í gang og leigja eingöngu út nýorkubíla. Stóriðjunni og Landsvirkjun verði gert að kolefnisjafna alla framleiðslu sína. Sölu á kolefniskvóta verði hætt eða svokölluðum mengunar aflátsbréfum til erlendra og innlendra fyrirtækja og þjóðin fái að njóta sannmælis í erlendum samanburði í loftslags umræðunni. Öll störf ríkis án staðsetningar. Allir fundir á vegum ríkisstofnana ættu að vera aðgengilegir með fjarfundabúnaði. Störf án staðsetningar minnkar losun á hættulegum gróðurhúsalofttegundum. Dreifð byggð er mikilvægur hlekkur landgræðslu að ná þeim loftslagsmarkmiðum sem við höfum lofað. Það ætti að vera raunverulegur valkostur fyrir ungt fólk að búa utan höfuðborgarsvæðisins. Meiri tími með fjölskyldunni, svegjanlegur vinnutími, betri nýting allra innviða ásamt viðráðanlegra húsnæðisverði. Minni mengun, betri nýting húsnæðis, mikill sparnaður, lægri skattar, sparar gjaldeyrir og meiri lífsgæði. Minni bílaumferð og minni þörf fyrir bílastæði.

Píratar

Píratar hafa sett sér metnaðarfulla loftslagsstefnu sem allar aðrar stefnur flokksins hvíla á. Nýsköpun, samgöngur, byggða- eða efnahagsmál - alls staðar eru grænar aðgerðir í fyrirrúmi. Tækifærin í loftslagsvænum lausnum eru óteljandi og munu varða leiðina í atvinnu- og verðmætasköpun næstu áratugina. Píratar vilja grípa þessi tækifæri.

Loftslagsstefna Pírata er í átta köflum, sem hljóða svona í mjög grófum dráttum:

 1. Skýr stefna í átt að kolefnishlutleysi
  Setjum metnaðarfull markmið og stöndum við þau
 2. Valdeflum almenning
  Auðveldum fólki að taka þátt í breytingunum
 3. Græn umbreyting í allra hag
  Gerum kröfur á stjórnvöld og fyrirtæki sem bera mesta ábyrgð
 4. Stjórnsýsla og stjórnvöld
  Styrkjum stjórnsýslu loftslagsmála
 5. Græn umbreyting atvinnulífs
  Styrkjum græna sprota og búum til græna hvata
 6. Náttúruvernd
  Verndum óspillta náttúru og setjum vernd miðhálendis í lýðræðislegt ferli
 7. Hringrásarsamfélag
  Setjum skýra stefnu á hringrásarsamfélag
 8. Aðgerðir á alþjóðasviðinu
  Ísland beiti sér fyrir loftslagsmálum á alþjóðavettvangi

Loftslagsstefna Pírata er róttæk, ítarleg og metnaðarfull. Hana má nálgast í heild hér.

Samfylkingin

Samfylkingin er stórhuga í loftslagsmálum og höfum verið leiðandi í málaflokknum allt kjörtímabilið, bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum. Við ætlum að hefja kraftmikla sókn í loftslagsmálum, sókn sem jafnast á við stærstu samfélagsverkefni 20. aldar: raflýsingu og hitaveitu, lagningu síma og þjóðvega. En til þess að hrinda þessu í framkvæmd þurfum við nýja nálgun og alvöru aðgerðir strax á öllum sviðum samfélagsins. Nú þarf pólitíska forystu um réttlát og sjálfbær umskipti í íslensku atvinnulífi, hraðari orkuskipti og metnaðarfulla græna uppbyggingu um allt land. Um leið og tekist er á við stærstu áskorun samtímans verða til ótal tækifæri til nýrrar verðmætasköpunar með hagnýtingu tækni og nýsköpun á öllum sviðum. Nálgun Samfylkingarinnar á loftslagsmálin hefur talsverða sérstöðu, hún er nútímaleg, framsækin og alþjóðleg - og byggir á þeirri þróun sem á bara eftir að halda áfram - að mikill meirihluti fólks mun búa í bæjum og borgum.

Við höfum lagt fram 50 aðgerða loftslagspakka xs.is/loftslag þar sem áhersla er lögð á að lögfesta loftslagsmarkmið um a.m.k. 60 prósenta samdrátt í losun, hraða orkuskiptum og stórefla almenningssamgöngur. Við eigum að sýna metnað og nýta sérstöðu Íslands og forskot í orkumálum til að skapa ný tækifæri.

Vinstri Græn

Vinstrihreyfingin -- grænt framboð telur að Ísland eigi að vera í fararbroddi í að losa minna og menga minna. Ísland þarf að sýna forystu og frumkvæði í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með tímasettri áætlun um orkuskipti í samgöngum, þungaflutningum, sjávarútvegi, landbúnaði, ferðaþjónustu og byggingariðnaði með það að markmiði að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2045.

 • Við viljum lögfesta bann við olíuleit og olíuvinnslu í íslenskri efnahagslögsögu hið fyrsta.

 • Markmið Íslands verði uppfærð og sett sjálfstætt markmið um aukinn samdrátt í losun eða a.m.k. 60% árið 2030 og kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040.

 • Allar loftslagsaðgerðir þurfa að tryggja jöfnuð þannig að umskipti yfir í grænt hagkerfi verði réttlát.

 • Leggja skal áherslu á fjölbreytta samgöngumáta, þ.m.t. göngu- og hjólastíga. Tryggja þarf orkuskipti í almenningssamgöngum samhliða eflingu þeirra.

 • Græn tenging milli höfuðborgarsvæðis og Keflavíkurflugvallar verði eitt af forgangsmálunum.

 • Flýta þarf uppbyggingu Borgarlínu.

 • Efla þarf almenningssamgöngur um land allt og gera þær að raunhæfum valkosti.

 • Hringrásarhagkerfið skapar sóknarfæri til að skapa ný græn störf sem byggja á þekkingu og nýsköpun.

 • Beita þarf skattkerfinu í auknum mæli í þágu loftslagsmála.

 • Efla þarf grænar fjárfestingar fyrirtækja og hins opinbera og loftslagsvæna nýsköpun.

 • Skoða þarf að lögfesta skyldur á lífeyrissjóði og fjármálastofnanir um að fjárfestingar þeirra séu metnar út frá loftslagsáhrifum og samfélagslegri ábyrgð. Þannig fara saman umhverfismarkmið og samfélagsmarkmið.

 • Hraða þarf aðgerðum í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis og tryggja frekari sjálfbærni í nýtingu gróðurs, m.a. í beitarmálum.

 • Tengjum saman allar einingar stjórnkerfisins til að ná markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum undir hattinum Sjálfbært Ísland.

Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://vg.is/kosningaaherslur-2021/

Stefna Vinstri grænna í loftslagsmálum, loftslagsvá og náttúra: https://vg.is/stefna/loftslagsva-og-nattura/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki