Menntamál

Framsóknarflokkurinn

 • Menntastefna til ársins 2030 er leiðarljós Framsóknar í menntamálum, enda er hún lögð fyrir Alþingi af núverandi mennta- og menningarmálaráðherra.
 • Framsókn vill áfram leggja áherslu á skólaþróun með þátttöku skólanna sjálfra, enn frekari eflingu kennarastéttarinnar og mikilvægi þess að halda menntuðum kennurum í starfi.
 • Framsókn vill bæta þjónustu hins opinbera við skólana, uppfæra námsgagnakost og virkja fleiri aðila í námsgagnagerð.
 • Framsókn vill leggja ríka áherslu á snemmtæka íhlutun og samþættingu ólíkra stuðningskerfa svo skólakerfið bregðist skjótt við ef barn glímir við erfiðleika.
 • Framsókn ætlar áfram að auka vægi iðn- og tæknimenntunar og tryggja enn frekar aukið jafnræði bók- og verknáms.
 • Framsókn vill tryggja öllum menntun og kennslu sem tekur mið af þeirra þörfum og aðstæðum. Við ætlum að sýna lestrarvanda drengja sérstaka athygli.
 • Framsókn vill að áfram verði lögð áhersla á að styðja kröftuglega við íslenska tungu í sífellt alþjóðlegri og stafrænni heimi.
 • Framsókn vill tryggja öllum sem eru af erlendu bergi brotnir sem flytja hingað til lands tækifæri til að læra íslensku.

Viðreisn

Viðreisn styður við menntun fyrir öll, alla ævi. Aðgengi að námi, skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri skal vera jafnt með tilliti til kynja, kynhneigðar, búsetu, efnahags eða stöðu að öðru leyti.

Viðreisn leggur áherslu á að styðja sérstaklega við nemendur með ólíka færni og fjölga námsframboði á efri skólastigum. Byggja skal brú milli skólastiga og tryggja frelsi einstaklinga til að fara á sinn hátt í gegnum menntakerfið. Við leggjum jafnt vægi á bók-, verk-, iðn- og listnám, þar sem aukið val og fjölbreyttari náms- og kennsluhættir koma við sögu.

Semja þarf heildstæða aðgerðaráætlun í málefnum fólks með annað móðurmál en íslensku. Tryggja þarf aðgengi að raunfærnimati svo að þekking og hæfni fólks sem sest hér að nýtist sem best. Umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hafa hlotið dvalarleyfi á Íslandi, skulu eiga kost á námslánum.

Bæta þarf námslánakerfið. Viðreisn vill að námsmenn geti hlotið styrk án lántöku. Eins þarf að afnema frítekjumark námslána og hækka grunnframfærslu í samræmi við neysluviðmið.

Búa þarf kennurum og öðru starfsfólki framúrskarandi starfsumhverfi með áherslu starfsþróun, endurgjöf og samþætta stoðþjónustu. Sérstök áhersla er á tækifæri kennara til að miðla þekkingu á stafrænni tækni.

Tryggja þarf að skipulagt íþróttastarf hafi skýrar jafnréttisáætlanir.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á fjölbreytt og jöfn tækifæri til menntunar, og að auk opinbers rekstrar séu kostir einstaklingsframtaksins nýttir með öflugum sjálfstætt starfandi skólum og nýsköpun á sem flestum sviðum. Hið opinbera á að greiða það sama með hverjum nema, óháð rekstrarformi skólans sem hann sækir.

Skólastarfið þarf að miða meira að þörfum hvers og eins þannig að nemendur nái árangri á sínum forsendum. Sérstaklega þarf að huga að börnum með erlent móðurmál og drengjum, en þeir standa höllum fæti samkvæmt rannsóknum og alþjóðlegum samanburði. Grunnskólar eiga að leggja aukna áherslu á list- og verkgreinar til að búa nemendum betri grunn fyrir nám á þeim sviðum á framhaldsskólastigi.

Iðn- og tækninám er ein grunnstoð fjölbreytts og öflugs atvinnulífs og ýtir undir nýsköpun. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar auknum áhuga ungs fólks á þeim greinum. Tryggja verður að menntastofnanir geti mætt þeim áhuga og sinnt sívaxandi þörfum atvinnulífsins fyrir iðn- og tæknimenntað starfsfólk. Gera á stórátak í netvæðingu og tryggja aðgang að stafrænu háskólanámi á Íslandi. Fólk á að geta menntað sig óháð búsetu, fjölskylduaðstæðum, fjárhag eða vinnu. Styrkja skal háskólanám um allt land og tryggja gæði þess.

Flokkur Fólksins

Menntun er mannréttindi. Skólastarf á Íslandi á að vera þróttmikið með áherslu á jafnræði, sjálfsstyrkingu og samskipti þar sem einstaklingurinn fær að njóta sín. Flokkur fólksins vill stuðla að bættu menntakerfi á öllum stigum og að læsi ungmenna sé tryggt. Menntun á Íslandi verði gjaldfrjáls fyrir alla, þ.m.t. menntun í listum.

Við leggjum áherslu á kröftugt skólastarf á öllum stigum og vill stuðla að því að nemendum og kennurum líði vel í skólanum. Háskólar geti gegnt hlutverki sínu með því að tryggja blómlegt rannsóknarstarf. Með því er lagður grunnur að framþróun, aukinni framleiðni og bættum lífskjörum í landinu.

Allir skulu hafa óhindraðan aðgang að menntun án tillits til efnahags og búsetu. Mannauðinn skal efla með menntun. Við viljum gjaldfrjálsan aðgang að söfnum og sýningarsölum af margvíslegum toga sem dýpka skilning landsmanna á menningu og sögu þjóðarinnar.

Til að auka lýðræðislega þátttöku og skilning fólks á mikilvægi þess, þarf skólakerfið að veita nemendum strax í grunnskóla fræðslu og þjálfun í verki við lýðræðislega stjórnarhætti og vinnubrögð. Öll börn eiga rétt á að stunda nám meðal jafningja þar sem sjálfsmynd þeirra og sjálfstraust fái að þroskast og dafna með eðlilegum hætti.

Fatlaðir námsmenn eiga skilyrðislaust að geta valið sér nám eftir áhugasviði, bæði á framhaldsskóla og háskólasviði. Aðgengismál eða stuðningur sem í boði er á ekki að vera hindrun í þessum efnum. Veita skal fræðslu um fötlun til nemenda, foreldra og starfsfólks menntastofnana.

Sósíalistaflokkurinn

Skólakerfið skal rekið af hinu opinbera og nægt fjármagn tryggt til allra menntastofnana í opinberum rekstri. Allar fjárveitingar miðist við raunverulegar þarfir út frá faglegri þarfagreiningu. Gjaldfrjáls grunnskóli felur m.a. í sér námsgögn, næringarríkan mat, frístundaheimili ásamt ferðalögum og skemmtunum, foreldrum skólabarna að kostnaðarlausu. Þá skal skólinn opna aðstöðu sína og húsnæði fyrir borgarana án endurgjalds. Framhaldsskólinn skal einnig vera gjaldfrjáls og bjóða nemendum uppá einfaldan morgun- og hádegismat nemendum að kostnaðarlausu. Háskólar í opinberum rekstri skulu einnig vera reknir nemendum að kostnaðarlausu og skulu aðrir háskólar eða sérskólar gæta hófs við innheimtu gjalda.

Skólinn skal vera stéttlaus og tryggja verður að þeir efnaminni hafi sömu tækifæri og aðrir á öllum skólastigum. Þá sé spornað gegn allri aðgreiningu sem leitt geti til jaðarsetningar svo sem aðgreiningu fátækra og ríkra, fólks af ólíkum uppruna, á grundvelli fötlunar, aldurs eða kyngervis. Þá er mikilvægt að minnka aðstöðumun þeirra sem búa á landsbyggðinni til að stunda t.d. iðn- og verknám sem eingöngu er kennt á höfuðborgarsvæðinu með framboði á heimavist eða námsíbúðum. Þá skal einnig tryggja fullorðnu fólki sem ekki hefur klárað framhaldsskólanám á tilsettum tíma skólavist og auka námsúrræði fyrir þann hóp.

Öll börn eiga rétt á stuðningi og aðstoð í skóla óháð því hvort þau eru á biðlista eftir greiningu eða ekki. Þarft er að öll stuðnings- og aukakennsla sé á vegum skólanna svo foreldrar þurfi ekki sjálfir að koma börnum sínum til og frá fagaðila á skóla/vinnutíma. Sjá nánar

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn leggur áherslu á að menntakerfið endurspegla þörf þjóðarinnar fyrir aukna verðmætasköpun og framþróun á næstu árum og áratugum. Fjármagn verði því sérstaklega beint í nám í tækni- og iðngreinum og stutt við þá sem vilja stunda slíkt nám. Um leið þarf að tryggja jafna stöðu allra nemenda, hvar sem er á landinu.

Atvinnulífið þarf á því að halda að menntakerfið útskrifi fólk með þekkingu á þeim sviðum sem skipta mestu máli við efnahagslega uppbyggingu landsins. Það hefur lengi verið rætt um mikilvægi þess að efla iðn- og tækninám. Í mörgum tilvikum er slíkt nám dýrara en annað nám. Fjárveitingarnar þurfa að taka mið af því og stjórnvöld ófeimin við að eyrnamerkja fjárveitingar ákveðnu námi. Skattgreiðendur, einstaklingar og fyrirtæki borga reikninginn. Þeir eiga að geta haft áhrif á hvernig fjármagnið er nýtt. Slík nálgun auðveldar líka ríkisvaldinu að liðka fyrir samstarfi skóla og fyrirtækja og auka ásókn í námið. Árlega ljúka 700 drengir grunnskólanámi án þess að vera þokkalega læsir. Það er einnig sláandi staðreynd að ungir menn eru aðeins 30% þeirra sem ljúka meistaragráðu úr háskólanum og karlmenn eru nú einungis þriðjungur þeirra sem stunda háskólanám. Miðflokkurinn leggur áherslu á að bæta stöðu drengja í skólakerfinu með því að horfa til þarfa þeirra.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Engar meiriháttar breytingar frá núvernadi klerfi fyrir utan að hækka laun kennara.

Píratar

Framundan eru miklar samfélagslegar breytingar sem menntakerfið þarf að búa nemendur undir. Píratar ætla að auka sveigjanleika í menntakerfinu, setja nemandann í forgrunn, styðja við kennara og auka áherslu á færni sem nýtist í sjálfvirknivæddu samfélagi á upplýsingaöld.

Menntastefna Pírata er í 11 köflum, sem hljóða svona í mjög grófum dráttum:

 1. Gagnrýnin hugsun og upplýsingalæsi
  Áhersla á gagnrýna hugsun og læsi í víðum skilningi
 2. Aukinn sveigjanleiki
  Sveigjanleg skil milli skólastiga og aukin sí- og endurmenntun
 3. Nemandinn í forgrunn
  Nemandinn verði miðpunktur menntakerfisins
 4. Færri próf og meira símat
  Aukin áhersla á símat, reynslumiðað nám og reglulega endurgjöf
 5. Frjálst, opið og lýðræðislegt menntakerfi
  Nemendur og kennarar fái að móta kennsluna innan víðs ramma.
 6. Stuðningur við starfsfólk
  Metum kennara að verðleikum og styrkjum starfssamfélög þeirra
 7. Uppfærum menntakerfið
  Endurskoðum námskrá í breiðu samráði fyrir breytingarnar sem framundan eru
 8. Framfærsla nemenda
  Færum okkur úr námslánum yfir í styrki og greiðum út persónuafslátt
 9. Öryggi frá ofbeldi og áreitni
  Tryggjum verkferla og áætlanir sem stuðla að öryggi barna og námsmanna
 10. Brúum bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla
  Ríki og sveitarfélög vinni að því að láta leikskólapláss standa til boða eftir fæðingarorlof
 11. Metum menntunina
  Viðurkennum menntun og starfsréttindi útlendinga

Menntastefnu Pírata má nálgast í heild hér.

Samfylkingin

Við viljum raunverulegt jafnrétti til náms á öllum skólastigum. Með fjölbreyttu menntakerfi sem byggist á jöfnuði ræktum við styrkleika hvers og eins. Þannig búum við best í haginn fyrir samfélagið allt til framtíðar. Við viljum skapa menntakerfi þar sem enginn er skilinn eftir, og hver nemandi fær fræðslu og tekur út þroska á eigin forsendum. Nú þarf sérstaklega að styðja við framhaldsskólanema og háskólanema sem hafa þurft að sæta takmörkunum til náms og félagslífs, og grípa til aðgerða til að forða brottfalli.

Helstu áherslur:

 • Hækka grunnframfærslu stúdenta og hækka frítekjumark námslána.
 • Styrkja nýsköpun og þróunarstarf í menntamálum, efla stoðþjónustu við kennara og nemendur og bæta aðgengi að sálfræðingum, félagsráðgjöfum og annarri stuðningsþjónustu.
 • Styðja sveitarfélög og skóla þar sem hátt hlutfall barna hefur íslensku ekki að móðurmáli svo efla megi íslensku- og móðurmálskennslu á öllum skólastigum.
 • Auka við framlög til rannsóknar- og vísindasjóða og liðka fyrir þátttöku Íslendinga í alþjóðlegum nýsköpunar- og rannsóknarverkefnum.
 • Vinna markvisst gegn undirfjármögnun háskólastigsins þannig að fjármögnun verði sambærileg og á Norðurlöndunum.
 • Efla listnám með lækkun skólagjalda við Listaháskóla Íslands og greiðara aðgengi fólks að listnámi um allt land.
 • Efla iðn-, verk- og starfsnám og auka þar framboð til þess að fleiri fái inngöngu í skólana. Hér má lesa meira https://xs.is/sterkara-samfelag

Vinstri Græn

Menntakerfið er eitt mikilvægasta jöfnunartæki samfélagsins. Það er samfélagslegt verkefni að byggja upp öflugt menntakerfi og skólar skulu aldrei reknir í hagnaðarskyni.

 • Stefna ber að gjaldfrjálsri menntun á öllum skólastigum, fjölbreyttari framhaldsfræðslu og jöfnum tækifærum til menntunar óháð búsetu.

 • Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

 • Fjölga þarf kennaranemum og bæta kjör kennara. Menntun er ævilangt verkefni.

 • Endurskoða þarf framhaldsfræðslukerfið sem er eitt mikilvægasta verkfæri samfélagsins til að tryggja öllum jöfn tækifæri.

 • Viðhalda skal fjölbreytileikanum innan skólasamfélaga. Jafnréttisfræðsla, fjölmenningarfræðsla og efld kynfræðsla verði hluti af grunnmenntun. Allir nemendur eiga rétt á að læra móðurmál sitt.

 • Aukið fjármagn þarf til að tryggja aukna fræðslu um samfélagslegar áskoranir. Kennarar og nemendur njóti faglegs frelsis og nemendur fái tækifæri til að hafa áhrif á mótun skólastarfsins. Fylgja þarf eftir breytingum á stuðningskerfi við börn og tryggja fjármagn.

 • Samþætta þarf listnám, íþróttir og félagsstarf frístundastarfi sveitarfélaganna, auka tómstundastyrki og tryggja jafnt aðgengi.

 • Endurskoða þarf iðnnám til að fjölga útskrifuðum iðnnemum.

 • Tryggja skal stuðning í öllum framhaldsskólum með aðgengi að viðeigandi sérfræðingum og sporna við brotthvarfi úr námi.

 • Tryggja þarf fjölbreytt háskólanám og viðbótarnám framhaldsskóla.

 • Stefna ber að því að afnema skólagjöld í listnámi á háskólastigi.

 • Mikilvægt er að háskólar fái fjárveitingar til að sinna rannsóknum ásamt kennslu.

 • Tryggja þarf námsmönnum mannsæmandi grunnframfærslu og meta árangur þeirra breytinga að breyta hluta námslána í styrk.

 • Tryggja þarf innflytjendum gjaldfrjálsa íslenskukennslu á vinnutíma og önnur menntatækifæri og styrkja raunfærnismat enn frekar.

Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://vg.is/kosningaaherslur-2021/
Stefna okkar í menntamálum: https://vg.is/stefna/menntamal/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki