Menntamál

Framsókn

Framsókn vill tryggja öllum börnum og ungmennum á Íslandi jöfn tækifæri til að vaxa og dafna í öruggu og styðjandi umhverfi. Sýn okkar byggist á þeirri sannfæringu að öflugur stuðningur við börn og fjölskyldur sé einhver farsælasta fjárfesting sem samfélagið getur gert.

Framsókn setur börn og velferð þeirra í algjöran forgang. Framsókn hefur haft skýra forystu um að setja málefni barna á dagskrá í íslenskri stjórnmálaumræðu og markvisst unnið að fjölmörgum verkefnum í þágu þeirra.

Framsókn vill efla símenntunarmiðstöðvar og þekkingarsetur um allt land og halda áfram að þróa raunfærnimat til að styðja við nám fullorðinna. Við viljum efla menntun í listum og menningu í skólum til að stuðla að skapandi hugsun og menningarlegri vitund meðal ungmenna.

Framsókn leggur áherslu á bætt kjör og starfsumhverfi fyrir allar starfsstéttir sem vinna með börnum, með sérstakri áherslu á kennara. Framsókn vill tryggja að þessar mikilvægu starfsstéttir búi við aðlaðandi vinnuumhverfi sem stuðlar að fjölgun fagfólks innan þeirra mikilvægu starfsstétta sem sinna börnum og ungmennum.

Framsókn vill tryggja öllum börnum jafnt aðgengi að menntun sem er grundvöllur jafnra tækifæra í samfélaginu. Flokkurinn leggur áherslu á snemmtæk inngrip og fyrirbyggjandi aðgerðir sem tryggja börnum og fjölskyldum þjónustu við hæfi, þegar á þarf að halda. Framsókn vill innleiða þjónustutryggingu, þurfi barn að bíða lengur en tilgreindan tíma eftir úrræði greiðir ríkið fyrir sambærilega þjónustu hjá einkaaðila. Markmiðið er að útrýma biðlistum og tryggja nauðsynlega þjónustu án tafar.

Framsókn vill stórauka framboð stuðningsúrræða sem standa börnum og kennurum til boða innan skólakerfisins, til að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til menntunar og árangurs.

Framsókn ætlar að ljúka við innleiðingu Matsferils til að tryggja samræmdar mælingar á námsárangri í íslensku skólakerfi sem gefa okkur rauntímaupplýsingar um námsframvindu hvers barns.

Við viljum létta fjárhagslegar byrðar fjölskyldna með því að festa gjaldfrjálsar skólamáltíðir í sessi.

Viðreisn

Menntun er undirstaða jafnréttis, tækifæra og velferðar í samfélagi okkar og er um leið forsenda framþróunar. Eitt aðal verkefni stjórnvalda hvers tíma er að tryggja að hér sé öflugt menntakerfi sem undirbýr fólk fyrir verkefni framtíðarinnar.

Til þess að hér þrífist öflugt menntakerfi þá þurfa skólar og kennarar að hafa burði til þess að sinna mismunandi þörfum nemenda. Borið hefur á því á undanförnum árum að skólar hafa ekki verið studdir nægjanlega til að sinna hlutverki sínu. Sem dæmi þurfa kennarar í auknum mæli að sinna námsgagnagerð fremur en að fá að nýta tíma sinn í kennslu og undirbúning og úrvinnslu hennar. Við þessu þarf að bregðast. Það þarf að veita kennurum og öðru starfsfólki gott starfsumhverfi, með áherslu á starfsþróun og tæknivætt starfsumhverfi. Það þarf einnig að efla stuðning við nemendur og kennara innan skóla til að mæta þörfum nemenda með öflugu teymissamstarfi fagfólks á sviðum velferðar, heilbrigðis og menntastofnanna, líkt og þroskaþjálfa, stuðningsfulltrúa og talmeinafræðinga. Stoðþjónusta innan menntakerfis er nauðsynleg nemendum og því vill Viðreisn tryggja gott aðgengi að sálfræðiþjónustu og náms- og starfsráðgjöf á öllum skólastigum. Sérstaklega þarf að huga að því að auka stuðning við kennara vegna nemenda með litla færni í íslensku og útbúa handa þeim námsgögn.

Viðreisn vill gera það eftirsóknarvert að sinna kennslu á öllum skólastigum og við vitum að til þess þarf að skapa gott starfsumhverfi og góð starfskjör en líka að það sé hvati að fara í kennaranám.

Nám fer fram alla ævi og því er mikilvægt að byggja brýr milli allra skólastiga og tryggja frelsi einstaklinga til að stunda nám sem hentar hverjum og einum.

Námslán og skólagjöld taki mið af því að öll hafi jöfn tækifæri til framhalds- og háskólanáms, óháð efnahag og búsetu. Viðreisn vill efla enn frekar styrkja- og lágvaxtalánakerfi námslána.

Sjálfstæðisflokkurinn

Leggja þarf grunn að jöfnum tækifærum allra til menntunar, það er forsenda framfara og velferðar. Þjóðir sem ná árangri í menntamálum búa við fleiri tækifæri og betri lífskjör. Sjálfstæðisflokkurinn boðar stórsókn og umbreytingu á menntakerfinu.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á fjölbreytt og jöfn tækifæri til menntunar, og að auk opinbers rekstrar séu kostir einstaklingsframtaksins nýttir með öflugum sjálfstætt starfandi skólum og nýsköpun á sem flestum sviðum. Hið opinbera á að greiða það sama með hverjum nemanda, óháð rekstrarformi skólans sem hann sækir.

Skólastarfið þarf að miða meira að þörfum hvers og eins þannig að nemendur nái árangri á sínum forsendum. Sérstaklega þarf að huga að börnum með erlent móðurmál og drengjum, en þeir standa höllum fæti samkvæmt rannsóknum og alþjóðlegum samanburði. Grunnskólar eiga að leggja aukna áherslu á list- og verkgreinar til að búa nemendum betri grunn fyrir nám á þeim sviðum á framhaldsskólastigi. Taka ætti upp samræmd próf á ný og setja skýr markmið um betri árangur í PISA og læsi auk þess sem innleiða þarf nýja og gagnlegri aðalnámskrá, stórbætt námsgögn og nýsköpun með menntatækni og gervigreind.

Hér má lesa nánar um þær aðgerðir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað í menntamálum: https://xd.is/menntamal/

Flokkur Fólksins

Menntun er mannréttindi. Skólastarf á Íslandi á að vera þróttmikið með áherslu á jafnræði, sjálfsstyrkingu og samskipti þar sem einstaklingurinn fær að njóta sín. Flokkur fólksins vill stuðla að bættu menntakerfi á öllum stigum og að læsi ungmenna sé tryggt. Flokkur fólksins vill gera kennslu að eftirsóknarverðu starfi með því að bæta kjör kennara og bæta starfsaðstæður þeirra. Efla þarf lestrarkennslu og endurskoða áherslur og aðferðir. Efla þarf íslenskukennslu fyrir innflytjendur og börn þeirra. Auka þarf aðstoð við nemendur með sérþarfir. Fjölga þarf kennurum í „skóla án aðgreiningar“ til þess að stefnan skili tilætluðum árangri, annars þarf að hverfa frá henni.

Sósíalistaflokkurinn

Sósíalistaflokkur íslands telur að menntun barna og ungmenna skuli vera gjaldfrjáls sem og háskóla- og framhaldsnám á vegum hins opinbera. Að skólamáltíðir á grunn- og framhaldsskólastigi séu gjaldfrjálsar.

Að komið sé í veg fyrir stéttskiptingu milli skóla og innan þeirra með aðgerðum til jöfnuðar og stuðlað að vellíðan nemenda og starfsfólks,með því að draga úr samkeppni og tryggja smærri hópa í námi. Að lýðræðisvitund nemenda og starfsfólks á öllum skólastigum sé virkjuð.

Að börnum og ungmennum séu tryggðar gjaldfrjálsar tómstundir og menningartengt nám og að þær séu færðar inní skólahúsnæðið eins og kostur er og metnar til náms,þá má einnig nýta skólabyggingar betur til að mynda með að innflytjendum á öllum aldri sé tryggt það val að fá íslenskukennslu og innflytjendabörnum einnig móðurmálskennslu. Að börnum á flótta sé tryggð menntun til jafns við önnur börn og að allir skólar bjóði upp á þann stuðning sem nemendur þurfa á að halda óháð biðlistum og greiningum. Tryggja þarf að störf kennara séu metin að verðleikum og gerð eftirsóknarverð og að tengsl menntunar og vinnumarkaðar séu í samstarfi við verkalýðsfélög. Sósíalistar vilja tryggja virkt rannsókna-, vísinda- og fræðaumhverfi á Íslandi.

Tekið verði upp styrkjakerfi fyrir stúdenta í stað námslaunakerfis og kerfið gert manneskjulegra þar sem allir hafi færi á að mennta sig hvort heldur er á iðn-, tækni-, háskóla- eða sérskólastigi. Endurskoða þarf gamla námslánakerfið með leiðréttingu í huga og gera fólki kleift að gera upp lánin sín með eðlilegri greiðslubyrði og fella þau niður þegar við á. Mikilvægt er að styðja í auknum mæli við rannsóknir og stofnun nýrra námsbrauta einkum í grunnnámi á háskólastigi til að búa okkur undir framtíðina. Þá verði boðið upp á fjölbreytt framhaldsnám á háskólastigi og tryggt að ný þekking berist til landsins. Tryggja þarf sjálfstæða rannsóknarsjóði og koma í veg fyrir að hægt sé að greiða arð úr þeim. Endurskoða skal ráðningarferli háskólakennara og tryggja nægilegt fjármagn fyrir lausráðið akademískt starfsfólk. Þá skal auka og efla styrki til rannsóknar- og doktorsverkefna.

Lýðræðisflokkurinn

Lýðræðisflokkurinn stendur fyrir frelsi í menntamálum og stendur vörð um íslenska tungu og menningu.

Auka ber valfrelsi á öllum sviðum menntunar. Góðir kennarar geti fengið greidd laun til samræmis við frammistöðu. Opnað verði fyrir fjölbreyttari rekstrarform á öllum skólastigum með upptöku ávísanakerfis. Skólanámskrá verði einfölduð og einstaka skólum og kennurum verði gefið meira frjálsræði til að setja sínar áherslur. Efla þarf iðnmenntun á Íslandi og auðvelda hæfileikafólki og verkmönnum sem ekki hafa hlotið formlega skólagöngu að hljóta viðurkenningu í sinni starfsgrein. Skólastarf efli gagnrýna hugsun og miði ekki að innrætingu.

Miðflokkurinn

Skólakerfið er í höndum hins opinbera og því þarf að tryggja nægt fjármagn til allra menntastofnana í opinberum rekstri. Miðflokkurinn leggur áherslu á að íslenskukennsla barna og unglinga verði efld.

Skólinn skal vera stéttlaus og tryggja verður að þeir efnaminni hafi sömu tækifæri og aðrir á öllum skólastigum. Þá sé spornað gegn allri aðgreiningu sem leitt geti til jaðarsetningar svo sem aðgreiningu fátækra og ríkra, fólks af ólíkum uppruna, á grundvelli fötlunar, aldurs eða kyngervis. Þá er mikilvægt að minnka aðstöðumun þeirra sem búa á landsbyggðinni til að stunda t.d. iðn- og verknám sem eingöngu er kennt á höfuðborgarsvæðinu með framboði á heimavist eða námsíbúðum. Þá skal einnig tryggja fullorðnu fólki sem ekki hefur klárað framhaldsskólanám á tilsettum tíma skólavist og auka námsúrræði fyrir þann hóp.

Áhersla skal lögð á að nauðsynleg stoðþjónusta verði aðgengileg bæði kennurum, foreldrum og nemendum. Styrkja þarf samvinnu milli allra skólastiga um leið og styrkja þarf stöðu allra einstaklinga í skólaumhverfinu, svo að sérstaða hvers og eins fái notið sín. Sérstaklega þarf að horfa til stöðu drengja í skólakerfinu. Skólum ber að tryggja öllum nemendum félagslegt, andlegt og líkamlegt öryggi á skólatíma. Miðflokkurinn leggur áherslu á að stórefla verknám.

Miðflokkurinn vill að öllum sé gert kleift að stunda íþróttir óháð efnahag. Til þess að það sé unnt leggur Miðflokkurinn áherslu á að ríki og sveitarfélög styðji vel við skipulagða starfsemi íþróttahreyfingarinnar.

Píratar

Píratar vilja byggja upp menntakerfi sem býr nemendur undir áskoranir framtíðarinnar með áherslu á gagnrýna hugsun, sköpun og jafna möguleika. Píratar leggja áherslu á menntun sem eflir gagnrýna hugsun, skapandi lausnir og einstaklingsmiðað nám. Við viljum byggja skólastarf á þverfaglegri nálgun og verkefnamiðuðu námi þar sem ábyrgð nemenda á eigin þroska er í fyrirrúmi. Markmið okkar er að tryggja að allir hafi jöfn tækifæri til náms, óháð aðstæðum. Með áherslu á opinn aðgang, tæknilausnir og lýðræðislega þátttöku nemenda verður menntakerfið öflugt afl til breytinga og framfara. Nemendur, kennarar og samfélagið allt eiga að taka þátt í mótun menntakerfis sem stuðlar að vellíðan, sjálfstrausti og samfélagslegri ábyrgð.

Píratar ætla að:

  • Leggja áherslu á nám á einstaklingsmiðuðum forsendum.
  • Efla þekkingu, gagnrýna hugsun og upplýsingalæsi.
  • Stuðla að heildrænni nálgun og þverfaglegu námi.
  • Tryggja jafnan rétt allra til náms.
  • Valdefla nemendur og auka þátttöku þeirra í námsferlinu.
  • Auka aðgengi að námsgögnum og tæknilausnum fyrir alla.
  • Byggja upp skólakerfi sem styrkir heilsu og vellíðan.
  • Leggja áherslu á öryggi gegn ofbeldi og áreitni.
  • Styðja við kennara sem fagfólk.
  • Efla lýðræðislega þátttöku og ábyrgð.
  • Stuðla að framtíðarsýn og langtímaáætlunum.

Píratar vilja byggja upp menntakerfi sem býr nemendur undir áskoranir framtíðarinnar með áherslu á gagnrýna hugsun, sköpun og jafna möguleika. Píratar leggja áherslu á menntun sem eflir gagnrýna hugsun, skapandi lausnir og einstaklingsmiðað nám. Við viljum byggja skólastarf á þverfaglegri nálgun og verkefnamiðuðu námi þar sem ábyrgð nemenda á eigin þroska er í fyrirrúmi. Markmið okkar er að tryggja að allir hafi jöfn tækifæri til náms, óháð aðstæðum. Með áherslu á opinn aðgang, tæknilausnir og lýðræðislega þátttöku nemenda verður menntakerfið öflugt afl til breytinga og framfara. Nemendur, kennarar og samfélagið allt eiga að taka þátt í mótun menntakerfis sem stuðlar að vellíðan, sjálfstrausti og samfélagslegri ábyrgð. Menntakerfi er hornsteinn lýðræðis og grunnur að samfélagi sem stuðlar að jöfnuði og virkri þátttöku allra borgara. Við leggjum áherslu á að menntakerfið sé sveigjanlegt, stuðli að heilsu og vellíðan og sé aðgengilegt fyrir alla, óháð efnahag eða bakgrunni. Með samvinnu, nýsköpun og opnum lausnum tryggjum við að námsgögn og tækni séu öllum tiltæk. Lýðræðisleg þátttaka nemenda, kennara og foreldra í ákvarðanatöku er lykilatriði. Framtíðarsýn Pírata snýst um að byggja menntakerfi sem er grundvöllur sjálfbærs, skapandi og réttláts samfélags þar sem allir fá tækifæri til að þroskast og leggja sitt af mörkum.

Samfylkingin

Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri er lykilþáttur í samfélagssýn jafnaðarstefnunnar. Góð menntun veitir lífsfyllingu og eflir sjálfstraust auk þess að skapa kjörskilyrði fyrir samfélag víðsýni og lýðræðis. Samfylkingin beitir sér fyrir jöfnum tækifærum allra til náms. Menntastofnanir eiga að vera aðgengilegar, vettvangur þar sem enginn hópur er skilinn eftir og þar sem öll eiga möguleika á að rækta hæfileika sína og afla sér þekkingar á eigin forsendum og í þágu samfélagsins alls. Allt skólastarf á að byggjast á virðingu fyrir margbreytileika og mannréttindum.

Samfylkingin leggur sérstaka áherslu á að bæta starfsaðstæður kennara og skólastjórnenda, með það að markmiði að laða hæft fólk til starfa í menntakerfinu. Mikilvægt er að rætt sé um starfið af þeirri virðingu sem það á skilið. Ljóst er að menntakerfið á Íslandi stendur frammi fyrir áskorunum. Á undanförnum árum hafa bekkjarstærðir stækkað til muna, nemendahóparnir eru fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr og stuðningur í bekkjum oft ekki nægilegur. Það þarf að vera hægt að bregðast við í tæka tíð ef vísbendingar vakna um frávik í námsárangri í tilteknum skólum. Samfylkingin vill jafnframt efla stoðþjónustu, stuðla að aukinni fagþekkingu og tryggja betri geðheilbrigðisstuðning á öllum skólastigum.

Forgangsraða þarf íslenskukennslu á öllum skólastigum, lestri og líðan í skólastarfi og tryggja að jafnt fjármagn fylgi börnum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Leggja þarf sérstaka áherslu á inngildingu innflytjenda innan skólakerfisins en menntun er áreiðanlegasta leiðin til virkrar þátttöku í íslensku samfélagi.

Samfylkingin vill efla nýsköpun í grunn- og framhaldsskólum með öflugum styrktarsjóðum og rannsóknum. Við viljum einnig að sí- og endurmenntun verði aðgengileg fyrir alla á vinnumarkaði, með sérstaka áherslu á þá sem eru í atvinnuleit eða þurfa aðlögun vegna tækniþróunar.

Menntakerfið skal vera í stöðugri þróun, með áherslu á fjölbreytta kennsluhætti sem mæta þörfum ólíkra hópa. Við leggjum grunn að betra samfélagi með því að fjárfesta í fólki og menntun, þar sem hugvit og tækni leika lykilhlutverk í framtíð íslensks samfélags.

Vinstri Græn

Menntun er eitt mikilvægasta jöfnunartæki samfélagsins

  • VG hafnar frekari einkavæðingu í menntakerfinu
  • Vinna þarf með öllum ráðum gegn stéttaskiptingu í skólakerfinu. Tryggjum gjaldfrjálsan skóla á öllum stigum og jafnrétti til náms. Eflum námsefnisgerð á öllum skólastigum og gerum námsgögn gjaldfrjáls.
  • Lögfestum leikskólastigið í áföngum.
  • Metum störf kennara að verðleikum. Aukum stuðning við kennara, þ.m.t. íslenskunám innflytjendabarna, og tryggjum þeim mannsæmandi vinnuaðstæður og tryggja jöfnun launa kennaramenntaðra til jafns við almennan markað.
  • Styðjum við fjölbreytt háskólanám og margvíslegt viðbótarnám framhaldsskóla, ekki síst listnám. Nemendum skal gefinn kostur á að stunda nám í fjarnámi um land allt.
  • Eflum grunnrannsóknir enda eru þær undirstaða nýsköpunar og þekkingar. Öflugir og vel fjármagnaðir háskólar spila þar lykilhlutverk, auka þarf framlög svo við náum meðaltali Norðurlanda á háskólastiginu. Efla skal rannsóknasjóði og styðja við þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki.
  • Allir nemendur eiga rétt á að læra móðurmál sitt. Það á líka við um börn sem eiga táknmál að móðurmáli og börn af erlendum uppruna.
  • Samþætta þarf listnám, íþróttir og félagsstarf frístundastarfi sveitarfélaganna. Öll börn eiga að fá aðgengi að listnámi óháð efnahag.
  • Efla þarf kennslu í umhverfislæsi, umhverfisvernd og sjálfbærni á öllum skólastigum sem þroskar getu nemenda til að taka upplýstar ákvarðanir um umhverfismál.
  • Auka þarf sveigjanleika í námi á framhaldsskólastigi, sporna ber gegn brotthvarfi úr námi og tryggja fjölbreyttan stuðning, einkum við nemendur með innflytjendabakgrunn.
  • Endurskoða þarf löggjöf um framhaldsfræðslu og styrkja raunfærnimat m.a. með menntun innflytjenda í huga.
  • Tryggja skal mannsæmandi grunnframfærslu fyrir námsmenn svo jafnrétti til náms verði tryggt. Hækka þarf frítekjumark og skoða kosti þess að gera námslán vaxtalaus. Námslán skulu falla niður við ellilífeyrisaldur og við varanlega örorku lántakanda.

Menntastofnanir skulu aldrei reknar í hagnaðarskyni. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í menntamálum: https://vg.is/stefna/menntamal/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki.
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.