Velferðarmál

Framsóknarflokkurinn

 • Framsókn vill fara í almennar aðgerðir til þess að fjárfesta í fólki til framtíðar. Fara þarf í markvissa vinnu við að endurmeta og samþætta þjónustu við fólk sem hefur lent í áföllum á lífsleiðinni. Lykilinn er að velferðarþjónustan bregðist snemma við og leggi áherslu á að fyrirbyggja vandamál með fjölþættum aðgerðum líkt og gert hefur verið í barnamálum á kjörtímabilinu. Tryggja verður að þjónustan vinni betur og meira saman og geti fylgt málum eftir þvert á einstakar stofnanir. Þær lausnir þarf að móta með samvinnu.
 • Framsókn vill fjárfesta í fólki sem hefur lent í alvarlegum áföllum á sinni lífsleið. Áföll geta verið mismunandi og eru því jafn ólík og þau eru mörg. Þessa einstaklinga á að aðstoða við að byggja sig upp að nýju og ná fyrri styrk. Það skiptir sköpum fyrir þá að fá viðeigandi aðstoð og skilning, en einnig liggja í því mikil verðmæti fyrir samfélagið í heild. Þetta gerum við með því að taka heildstætt utan um viðfangsefnið, tengja saman ríki, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og aðra viðkomandi aðila og móta heildstæða umgjörð um það hvernig tekið er utan um hvern og einn sem þarf á þjónustu að halda.

Viðreisn

Viðreisn leggur áherslu á að fólk eigi gott líf. Þau kerfi sem eiga að halda utan um það verði einfaldari og sveigjanlegri. Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga á að fá lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Það er lágmarkskrafa. Vinna þarf gegn fátækt og tryggja jöfn tækifæri fyrir öll börn.

Við eigum að búa eldra fólki áhyggjulaust ævikvöld. Tryggja að framboð af hjúkrunarheimilum og öðrum úrræðum verði fullnægjandi. Koma þarf á millistigi milli heimilis og hjúkrunarheimila og tryggja fjölbreytt búsetuúrræði fyrir eldra fólk. Starfslok eiga að miðast við færni fremur en aldur.

Viðreisn vill tryggja öryrkjum mannsæmandi lífskjör. Skapa samfélag sem byggir á þátttöku allra og virðir frelsi fólks til að stjórna eigin lífi á eigin forsendum. Viðreisn styður fólk með skerta starfsgetu til að starfa með aukinni starfsendurhæfingu, bættri geðheilbrigðisþjónustu og meiri sveigjanleika.

Fjarlægja á hindranir fyrir mannréttindum og samfélagsþátttöku fatlaðs fólks. Í því skyni verður að gera ríkar kröfur um aðgengi að mannvirkjum, samgöngum og upplýsingum. Hið opinbera á að vera leiðandi í sköpun hlutastarfa fyrir fatlað fólk. Fjölga á samningum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og tryggja gæði þjónustunnar. Lögfesta á samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Forvarnir og forvirkar aðgerðir eiga að vera í öndvegi

Sjálfstæðisflokkurinn

Eldri borgarar: Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir því að strax 1. janúar 2022 verði frítekjumark atvinnutekna hækkað í 200 þúsund krónur á mánuði. Þetta er fyrsta skref. Sjálfstæðisflokkurinn vill stokka upp almannatryggingakerfi eldri borgara í samvinnu við hagsmunasamtök þeirra og lífeyrissjóði. Á vegum Sjálfstæðisflokksins hefur starfshópur, undir forystu dr. Vilhjálms Egilssonar, unnið að tillögum til útbóta á lífeyriskerfi eldri borgara. Tillögurnar miða að því að styrkja stöðu þeirra sem eru með takmörkuð réttindi í lífseyrissjóðum og hverfa frá skerðingum. Þetta verði gert með sérstakri lífeyrisuppbót sem tekur mið af réttindum hvers og eins í lífeyrissjóði.

 • Með lífeyrisuppbót, sem ríkið fjármagnar, er verið að jafna stöðu eldri borgara gagnvart ellilífeyri úr lífeyrissjóðum.
 • Þannig verður öllum eldri borgurum tryggðar ásættanlegar tekjur.

Aðrar skattskyldar tekjur eldri borgara – s.s. atvinnutekjur, séreignasparnaður, fjármagnstekjur – eiga ekki að skerða lífeyrisuppbótina en verða skattlagðar með sama hætti og eftir sömu reglum og skattskyldar tekjur annarra. Lífeyrisuppbót á að taka sömu breytingum og lífeyrir úr lífeyrissjóðum.

Öryrkjar: Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að tryggingakerfi öryrkja verði endurskoðað frá grunni. Það einfaldað, með það að markmiði að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði öryrkja og stuðla að því að öryrkjar hafi ávinning af því að afla sér tekna. Um leið vill Sjálfstæðisflokkurinn innleiða persónubundna endurkomusamninga sem auðveldar öryrkjum að taka þátt í almennum vinnumarkaði með tilliti til starfsgetu án þess að þeir verði fyrir umtalsverðri skerðingu á örorkulífeyri eins og nú er.

Fjölskyldumál

Foreldrar: Ný lög um fæðingarorlof voru samþykkt undir lok síðasta árs. Þar skipti mestu að orlofstíminn var lengdur í 12 mánuði. Grunngerð fæðingarorlofsins hélst óbreytt þannig að orlofsréttindi miðast við þátttöku og tekjur á vinnumarkaði fyrir fæðingarorlof. Þeir foreldrar sem ná lágmarksþáttöku á vinnumarkaði og námsmenn fá hins vegar fæðingarstyrk. Hækka þarf fjárhæð fæðingarorlofs.

Sjálfstæðisflokkurinn vill styðja foreldra utan vinnumarkaðar og námsmenn sérstaklega með jákvæðum hvötum til barneigna. Þess vegna er nauðsynlegt að endurskoða reglur um fæðingarstyrk og hækka hann verulega.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins krefst þess að öryrkjum og eldri borgurum verði tryggð mannsæmandi afkoma svo að þeir geti lifað með reisn. Stjórnarskrárvarin réttindi þessara þjóðfélagshópa verður að virða í hvívetna. Lágmarksframfærsla verði 350.000 kr. skatta- og skerðingalaust.

Almannatryggingakerfið er orðið allt of flókið. Þörf er á að einfalda kerfið til muna. Víxlverkandi skerðingarreglur gera það að verkum að nánast ómögulegt er að brjótast út úr fátæktargildru kerfisins.

Við ætlum að leggja niður skerðingar á ellilífeyri vegna atvinnutekna. Við ætlum að heimila öryrkjum að reyna fyrir sér á vinnumarkaði í allt að 2 ár án þess að lífeyrir þeirra skerðist eða örorka þeirra verði endurmetin.

Við munum hækka frítekjumark ellilífeyris vegna lífeyristekna frá 25.000 kr. upp í 100.000 kr.

Grunnlífeyrir almannatrygginga þarf að tryggja afkomu fólks og duga til að standa undir grunnframfærslu og húsnæðiskostnaði. Flokkur fólksins vill að lágmarkstekjutrygging almannatrygginga verði 350.000 kr. á mánuði eftir skatt.

Við krefjumst þess að Alþingi gangi tafarlaust frá lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og aðlögun íslenskra laga að honum.

Sósíalistaflokkurinn

Á Íslandi er velferð lögbundin og skal vera aðgengileg öllum án skilyrða, óháð kyni, uppruna, aldri, trú, fötlun eða kynhneigð einnig þeim sem hingað koma vegalausir. Velferðarkerfið snýst um að skapa þær aðstæður sem þarf til að fólk finni til öryggis og líði vel, tryggja að grunnþörfum allra sé mætt svo fólk geti lifað með reisn og notið almennra mannréttinda í samræmi við ákvæði íslenskra laga og alþjóðlegra skuldbindinga.

Tryggja skal samstarf milli ríkis og sveitarfélaga svo grunnþjónusta velferðarmála sé ávallt áreiðanleg. Þá skal vera lögbundið að sveitarfélög veiti þjónustu í velferðarmálum hvort heldur er um húsnæði eða aðra grunnþjónustu að ræða. Þá skal ríkið sem og sveitarfélög reikna út og birta raunhæf neysluviðmið sem opinberar stofnanir og aðrir geta notast við í útreikningum sínum.

Opinberar stofnanir í þjónustu almennings skal ekki einkavæða og skal ríkið ekki styrkja hagnaðardrifna velferðarþjónustu. Þá skulu gilda ströng lög um hvaða eignar- og rekstrarform verði heimilt að nota í slíkri þjónustu og eftirlit haft þar með.

Notendur eiga að hafa virka og gilda aðild að stjórn velferðarkerfis í gegnum hagsmunahópa notenda. Þá sé hlustað á kröfur og ályktanir slíkra hópa en einnig sé hlustað á þarfir og vilja barna og í tilfelli barnaverndar sé einnig hlustað á fólk sem hafði reynslu af kerfinu á barnsaldri. Sjá nánar

Miðflokkurinn

Í velferðarmálum leggur Miðflokkurinn sérstaka áherslu á að koma til móts við þarfir eldri borgara en sá hópur getur ekki beðið lengur eftir réttlæti. Miðflokkurinn leggur áherslu á að núverandi fyrirkomulag skerðinga verði afnumið og þess í stað komi sanngjarnt kerfi þar sem ævistarf fólks sé virt og komið á jákvæðum hvötum sem stuðla að vinnu, verðmætasköpun og sparnaði. Þeir sem vilja vinna lengur eiga að hafa rétt á því. Það er réttlátt og hagkvæmt fyrir ríkissjóð, lífeyriskerfið og samfélagið allt.

Í málefnum öryrkja vil Miðflokkurinn horfa til sömu viðmiða um sanngirni, eðlilegt lífsviðurværi og jákvæð hvata.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Allar tekjutengingar og aðrar skerðingar eftirlaunabóta verði aflagðar. Það er ekki sæmandi velmegandi þjóð eins og Íslandi að ört vaxandi hópur eldri borgara þurfi að kvíða ævikvöldinu. Örorkulaunakerfið verði endurskoðað frá grunni.

Örorkulaun skulu aldrei verða lægri en sem nemur framfærsluviðmiði Velferðarráðuneytis. Þó skal bæta við þau laun, útreiknuðum kostnaði sem hver einstaklingur hefur vegna sinnar fötlunar umfram heilbrigðan einstakling sem er mjög misjafn. Þar færi því fram aðal endurskoðunin á kerfinu, þ.e meta raunkostnað hvers og eins vegna fötlunar eða skerðingar. Atvinnutekjur skulu því aldrei skerða þann hlut launa einstaklings sem telst vera kostnaður vegna fötlunar eða skerðingar viðkomandi.

Píratar

Píratar ætla að fjárfesta í fólki og skapa þannig efnahagslegan sveigjanleika fyrir fólk til að dafna á eigin forsendum. Píratar vita að velferð hvílir á mörgum stoðum; eins og heilbrigðu efnahagskerfi, heilnæmu húsnæði og umhverfi, góðu heilbrigðis- og menntakerfi og síðast en ekki síst: Stuðningskerfum sem virka. Hér að ofan eru stefnur Pírata í mörgum þessara mála, en hér segi ég örstutt frá stefnum okkar í málefnum eldra fólks og öryrkja.

Málefni eldra fólks
Eldra fólk býr við ósanngjarnt lífeyriskerfi og ófullnægjandi þjónustu. Við viljum koma fram við fullorðið fólk eins og fullorðið fólk, það fái að ráða sínu eigin lífi en sé ekki fast í boðum, bönnum og skerðingum. Við viljum tryggja mannsæmandi framfærslu eldra fólks, viðunandi heilbrigðis- og velferðarþjónustu og húsnæðisöryggi. Meginstef Pírata í málefnum eldra fólks eru velsæld, öryggi, samráð og virðing.

Öryrkjar og fatlað fólk
Píratar trúa að öll eigi skilið sömu tækifæri og viljum endurhanna kerfin okkar þannig að þau valdefli einstaklinga. Víðtækar skerðingar og hindranir í núverandi kerfum skapa samfélagslegt tap og fórna tækifærinu til að fjárfesta í einstaklingnum. Tryggjum rétt allra sem þurfa til framfærslu vegna örorku og endurhæfingar þannig að hún dugi til mannsæmandi framfærslu og viðeigandi búsetu.

Nánari upplýsingar eru hér.

Samfylkingin

Jöfnuður og góð velferðarþjónusta fyrir alla eru grunnurinn að réttlátu samfélagi sem skapar öryggi og efnahagslegan stöðugleika. Með því að tryggja öllum aðgang að heilbrigðis- þjónustu, menntun og félagsþjónustu, óháð efnahag og búsetu, dregur það úr áhrifum stéttaskiptingar og veitir fleirum tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu.

Við ætlum að greiða barnafjölskyldum hærri barnabætur og gera það í hverjum mánuði til þess að þær nýtist betur.

Við ætlum að stórbæta kjör eldra fólks og öryrkja með því að hækka greiðslur í skrefum. Samfylkingin vill heildarendurskoðun almannatrygginga á næsta kjörtímabili. Markmið okkar er að lífeyrir verði ekki lægri en lægstu laun, að dregið verði úr skerðingum, að frítekjumark lífeyrisgreiðslna verði fjórfaldað upp í 100.000 og að frítekjumark atvinnutekna verði þrefaldað upp í 300.000.

Samfylkingin vill lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og koma á fót sjálfstæðri mannréttindastofnun. Bæta þarf tækifæri fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs, og brýnt er að samningum um notendastýrða persónulega aðstoð verði fjölgað jafnt og þétt.

Samfylkingin vill tryggja þolendum í kynferðisbrota- og heimilisofbeldismálum málsaðild þegar réttað er yfir geranda, stytta málsmeðferðartíma, lögbinda rétt til launaðs leyfis í kjölfar brots, rýmka gjafsóknarreglur og tryggja brotaþolum langtímastuðning og öryggi meðan mál eru til rannsóknar. Hér má lesa meira https://xs.is/fjolskyldur-i-forgang

Vinstri Græn

Öll eiga rétt á mannsæmandi lífskjörum, félagslegum réttindum, mannlegri reisn, innihaldsríku lífi og samfélagsþátttöku.

 • Sérstaklega þarf að vinna markvisst gegn fátækt barna og bæta hag tekjulægri fjölskyldna með því að halda áfram endurreisn barnabótakerfisins og láta það ná til fleiri barnafjölskyldna.

 • Aðgerðir núverandi ríkisstjórnar í húsnæðismálum hafa orðið til þess að ekki hafa fleiri íbúðir verið byggðar frá hruni og hátt í þriðjungur þeirra byggir á aðgerðum stjórnvalda, það er stuðningi við almenna íbúðakerfið og hlutdeildarlánum.

 • Halda á áfram að styðja við félagslegt húsnæði og stuðla þannig að því að öll hafi þak yfir höfuðið.

 • Lögfesta á styttingu vinnuvikunnar sem tók gildi í kjarasamningum á kjörtímabilinu.

 • Umtalsverð hækkun lægstu launa á að vera forgangsverkefni kjarasamningagerðar.

 • Einfalda þarf bótakerfið, lífeyrisþegum til hagsbóta og hækka framfærslu tekjulægstu lífeyrisþega.

 • Lögfesta þarf Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 • Tryggja þarf nægt fjármagn til málaflokks fatlaðra og greiðan aðgang að hjálpartækjum.

 • Vinna þarf áfram að notendasamráði og valdeflingu notenda velferðarþjónustunnar.

 • Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga á að vera mannsæmandi.

 • Hið opinbera skal bjóða upp á fjölbreytt virkniúrræði og starfsþjálfun.

 • Forvarnarstarf þarf að styrkja. Efling heilbrigðrar sjálfsmyndar barna og fræðsla um holla lífshætti og gagnkvæma virðingu, eru bestu forvarnirnar.

 • Efla þarf forvarnir í geðheilbrigði og stuðning og ráðgjöf í skólum.

 • Móta þarf markvissa stefnu í áfengis-, tóbaks- og vímuvarnarmálum. Fyrsta skrefið er að styrkja velferðarkerfið og efla forvarnarstarf.

 • Sala áfengis á að vera áfram hjá hinu opinbera.

 • Tryggja þarf fíklum viðunandi meðferðarúrræði.

 • Snúa þarf af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna en styrkja aðgerðir gegn sölu, innflutningi og framleiðslu.

Kosningaáherslur VG 2021: https://vg.is/kosningaaherslur-2021/

Stefna okkar í velferðarmálum: https://vg.is/stefna/velferdarstefna/

Jöfnuður og félagslegt réttlæti: https://vg.is/stefna/jofnudur-og-felagslegt-rettlaeti/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki