Velferðarmál
Framsókn
Framsókn hefur ávallt staðið fyrir því að fjárfesta í fólki. Það er besta fjárfesting samfélagsins til framtíðar. Flokkurinn vinnur að því að efla velferðarkerfið með áherslu á jafnt aðgengi.
Framsókn leggur áherslu á að þær aðgerðir sem fram koma í aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum verði fjármagnaðar og komið til framkvæmda. Í takt við stefnu Framsóknar þá er lagt til í áætluninni að geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga. Þá er einnig lögð áhersla á notendamiðaða þjónustu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustunnar.
Framsókn leggur áherslu á að bæta lífsgæði og aðstæður öryrkja með því að tryggja þeim jafnan rétt og tækifæri til þátttöku í samfélaginu. Tryggja þarf að öryrkjar hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðis- og félagsþjónustu, óháð búsetu. Flokkurinn leggur áherslu á að þjónustan sé einstaklingsmiðuð og aðgengileg.
Flokkurinn vill stuðla að aukinni atvinnuþátttöku öryrkja með því að skapa fjölbreytt atvinnutækifæri og veita stuðning við atvinnuleit og starfsendurhæfingu. Styrkja þarf aðgengi öryrkja að menntun og þjálfun, með áherslu á sí- og endurmenntun.
Flokkurinn vill tryggja að fjárhagslegur stuðningur við öryrkja sé sanngjarn og nægjanlegur til að mæta grunnþörfum þeirra.
„Gott að eldast“ er verkefni sem Framsókn hefur lagt áherslu á til að bæta þjónustu við eldra fólk. Því er ekki lokið og flokkurinn vill halda áfram vinnunni.
Framsókn vill frekari uppbyggingu heimahjúkrunar og dagþjálfunarrýma, bæta og fjölga endurhæfingarúrræðum og skapa fjölbreyttari þjónustu sem styður eldra fólk til að búa sem lengst heima hjá sér, eftir því sem það vill og heilsa leyfir.
Framsókn leggur áherslu á aukna og samhæfða heimaþjónustu, sveigjanleg dagþjálfunarúrræði, aukna tæknivæðingu og markvissan stuðning við aðstandendur eldra fólks.
Framsókn vill skoða möguleika á hlutdeildarlánum fyrir eldra fólk. Hlutdeildarlán fyrir fyrstu kaupendur og þá sem hafa verið eignarlausir lengi hafa nýst umfram væntingar og við viljum leita leiða til að nýta þau fyrir eldra fólk.
Viðreisn
Faraldur vanlíðunar hefur geysað meðal barna og ungmenna undanfarið. Kvíði og þunglyndi er vaxandi vandi samkvæmt rannsóknum. Ofbeldi, ótti og fíkniefnaneysla færast í aukana sem við sjáum á skelfilegum atburðum sem hafa snert við okkur öllum.
Biðlistar eftir greiningum og annarri þjónustu eru langir og bið eftir viðeigandi aðstoð sömuleiðis. Þetta eru mál sem við sem samfélag þurfum að leysa. Börn eiga ekki að vera á biðlistum.
Við þurfum að styðja við alla sem koma að uppeldi og umönnun barna og unglinga. Við viljum efla skólana okkar, forvarnir og fræðslu, bjóða ókeypis sálfræðiþjónustu og tryggja að öll börn hafi jöfn tækifæri. Viðreisn vill að opnuð verði fleiri úrræði og tryggt að börn og fjölskyldur þeirra sem þurfa á stuðningi að halda detti ekki á milli kerfa.
Viðreisn leggur áherslu á að einfalda þau kerfi sem eiga að halda utan um fólk og að þau verði sveigjanlegri. Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Lífeyriskerfi almannatrygginga skal einfaldað og dregið úr vægi skerðinga.
Framboð af hjúkrunarheimilum og öðrum úrræðum verður að vera í samræmi við fyrirsjáanlega þörf. Tryggja þarf fjölbreytt búsetuúrræði fyrir eldra fólk, þar sem fólki sé gert kleift að búa lengur heima hjá sér með góðum stuðningi. Samhæfa þarf stuðning ríkis- og sveitarfélaga.
Viðreisn leggur áherslu á að starfslok miðist við færni og starfsvilja, fremur en aldur.
Sköpum samfélag sem byggir á þátttöku allra og virðum frelsi fólks til að stjórna eigin lífi. Styðjum fólk með skerta starfsgetu til starfa með aukinni starfsendurhæfingu og bættri geðheilbrigðisþjónustu.
Fjarlægja á þær hindranir sem standa í vegi þess að tryggja mannréttindi og samfélagsþátttöku fatlaðs fólks. Fjölga á samningum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og tryggja gæði þjónustunnar. Viðreisn telur löngu tímabært að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Sjálfstæðisflokkurinn
Eldri borgarar: Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að mæta áskorunum vegna öldrunar þjóðarinnar með því að lengja starfsaldur, gera starfslok sveigjanlegri og hækka frítekjumark ellilífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna í 350 þúsund á mánuði. Forvarnir og heilsuefling verði efld í félags- og heilbrigðisþjónustu og skólum með lýðheilsuátaki í samstarfi við almenning og félagasamtök.
Flokkurinn vill bæta þjónustu við eldra fólk með samþættingu heimahjúkrunar og félagsþjónustu. Fjölga þarf þjónustuíbúðum og bjóða fjölbreytt búsetuform til að eldra fólk geti búið sem lengst heima. Tryggja á sjálfsákvörðunarrétt og fjárhagslegt sjálfstæði eldra fólks með endurskoðun á lífeyrissjóða- og almannatryggingakerfinu.
Öryrkjar: Sjálfstæðisflokkurinn vill afnema krónu-á-móti-krónu skerðingar, hækka viðmiðið til að tryggja lágmarkstekjur og auka hvata til atvinnuþátttöku í samræmi við starfsgetu. Endurskoða þarf starfsemi TR með ofangreint í huga og hægt sé að gera samninga við öryrkja sem gefi þeim hvata til vinnu sem tekur mið af starfsgetu hvers og eins.
Endurskoða þarf frá grunni fjármögnun sveitarfélaga/þjónustusvæða á þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Finna þarf leiðir til þess að sveitarfélög/þjónustusvæði geti sinnt þjónustu sinni eins og lög kveða á um. Mikilvægt er að endurskoða í því samhengi framlög til málaflokksins þar sem þau standa ekki undir þjónustuþörf.
Auka ber sjálfstæði fatlaðra einstaklinga og þeirra sem búa við mikla skerðingu þannig að þau hafi val um að stýra sinni þjónustu sjálf, m.a. með notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA).
Flokkur Fólksins
Flokkur fólksins vill koma á fót nýju almannatryggingarkerfi og tryggja með lögum að öryrkjar og ellilífeyrisþegar fái 450.000 kr. á mánuði skatta- og skerðingarlaust. Við viljum tryggja að lífeyrir almannatrygginga fylgi launavísitölu og koma í veg fyrir kjaragliðnun. Við viljum að öryrkjar fái að reyna fyrir sér á vinnumarkaði í tvö ár án skerðinga eða endurmats örorku. Við viljum að allir öryrkjar og þeir ellilífeyrisþegar sem hafa lágar tekjur fái skattfrjálsan og skerðingarlausan jólabónus 1. desember ár hvert. Við viljum fella úr lögum starfsgetumatið sem taka á gildi næsta haust. Við viljum að lífeyrisþegar búsettir erlendis haldi persónuafslætti sínum. Við viljum stofna embætti hagsmunafulltrúa eldri borgara. Við viljum að frítekjumark ellilífeyris vegna lífeyristekna verði 100.000 kr. á mánuði. Við viljum ráðast í uppbyggingu á sérútbúnu húsnæði fyrir öryrkja og eldra fólk. Einnig viljum við ráðast í átak við uppbyggingu hjúkrunarrýma.
Við krefjumst þess að Alþingi gangi tafarlaust frá lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Sósíalistaflokkurinn
Á Íslandi er velferð lögbundin og skal vera aðgengileg öllum án skilyrða, óháð kyni, uppruna, aldri, trú, fötlun eða kynhneigð einnig þeim sem hingað koma vegalausir. Velferðarkerfið snýst um að skapa þær aðstæður sem þarf til að fólk finni til öryggis og líði vel, tryggja að grunnþörfum allra sé mætt svo fólk geti lifað með reisn og notið almennra mannréttinda í samræmi við ákvæði íslenskra laga og alþjóðlegra skuldbindinga.
Tryggja skal samstarf milli ríkis og sveitarfélaga svo grunnþjónusta velferðarmála sé ávallt áreiðanleg. Þá skal vera lögbundið að sveitarfélög veiti þjónustu í velferðarmálum hvort heldur er um húsnæði eða aðra grunnþjónustu að ræða. Þá skal ríkið sem og sveitarfélög reikna út og birta raunhæf neysluviðmið sem opinberar stofnanir og aðrir geta notast við í útreikningum sínum.
Opinberar stofnanir í þjónustu almennings skal ekki einkavæða og skal ríkið ekki styrkja hagnaðardrifna velferðarþjónustu. Þá skulu gilda ströng lög um hvaða eignar- og rekstrarform verði heimilt að nota í slíkri þjónustu og eftirlit haft þar með.
Notendur eiga að hafa virka og gilda aðild að stjórn velferðarkerfis í gegnum hagsmunahópa notenda. Þá sé hlustað á kröfur og ályktanir slíkra hópa en einnig sé hlustað á þarfir og vilja barna og í tilfelli barnaverndar sé einnig hlustað á fólk sem hafði reynslu af kerfinu á barnsaldri. Sjá nánar
Lýðræðisflokkurinn
Lýðræðisflokkurinn vill rétta hlut aldraðs fólks og öryrkja
Með því að hækka bætur almannatrygginga til samræmis við hækkun launavísitölu eins og lög kveða á um.
Með því að tryggja að tekjur skerði ekki greiðslur úr almannatryggingum.
Öryrkjum verði auðveldað að komast aftur inn á atvinnumarkað.
Haldi fólk áfram að vinna eftir 67 ára aldur verði það undanþegið greiðslu félagsgjalda og iðgjalda í lífeyrissjóð.
Með því að tryggja að fólk geti notið lífeyrisgreiðslna og eðlilegra tekna af fjármunum og fella brott óhóflegar skerðingar almannatrygginga.
Með því að styðja fólk til sjálfsbjargar og sjálfsvirðingar.
Með því að öllum sem ekki geta séð um sig sjálfir verði tryggð viðeigandi aðstoð, eftir atvikum í samstarfi við einkaaðila.
Miðflokkurinn
Í velferðarmálum leggur Miðflokkurinn sérstaka áherslu á málefni eldri borgara og öryrkja. Það þarf að koma til móts við þarfir eldri borgara en sá hópur getur ekki beðið lengur eftir réttlæti. Miðflokkurinn leggur áherslu á að núverandi fyrirkomulag skerðinga verði afnumið og þess í stað komi sanngjarnt kerfi þar sem ævistarf fólks sé virt og komið á jákvæðum hvötum sem stuðla að vinnu, verðmætasköpun og sparnaði. Þeir sem vilja vinna lengur eiga að hafa rétt á því. Það er réttlátt og hagkvæmt fyrir ríkissjóð, lífeyriskerfið og samfélagið allt.
Leggja þarf áherslu á heildstæða stefnu í málefnum aldraðra sem tekur tillit til mismunandi aldursskeiða, mismunandi aðstæðna, fjárhagslegra og heilsufarslegra. Koma þarf í veg fyrir að atvinnutekjur rýri lífeyristekjur. Fólk á að fá að vinna eins lengi og það hefur áhuga á og heilsu til. Lykilatriði í lífi allra er félagsleg virkni og hreyfing, það á einnig við um þá sem eldri eru. Stórefla þarf heimaþjónustu og tryggja að fleiri og fjölbreyttari búsetuúrræði séu í boði.
Einfalda þarf hið félagslega kerfi svo það nýtist sem best öllum þeim sem á þurfa að halda.
Áhersla skal vera á að sérstök lagaumgjörð verði um málefni aldraðra. Samhæfa þarf vinnubrögð allra þeirra sem sinna öldruðum, ríkisvalds, sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila. Þannig sé tryggt að þjónustukeðjan rofni ekki heldur fylgi þörfum hvers og eins ævina út. Það þarf að fjölga hjúkrunarrýmum um leið og tryggt er að önnur búseta sé í boði.
Í málefnum öryrkja vill Miðflokkurinn horfa til sömu viðmiða um sanngirni og eðlilegt lífsviðurværi. Um leið er lögð sérstök áhersla á jákvæða hvata til að auka virkni og sjálfstæði öryrkja. Auka þarf möguleika á sí- og endurmenntun í samræmi við þá hugsun að menntun sé ævilangt verkefni.
Píratar
Píratar ætla að:
- Gera úrbætur á almannatryggingakerfinu.
- Gera lífeyrisþegum kleift að afla tekna án skerðingar.
- Ráðast í heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu.
- Endurskoða umsóknarferlið um örorku- og endurhæfingalífeyri.
- Lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
- Fjölga NPA-samningum.
- Auka frelsi til búsetu.
- Bæta framboð á störfum eftir ólíkri getu fólks.
- Hafa ríkt samráð við fulltrúa öryrkja, eldra fólks og fatlaðs fólks við allar ákvarðanir sem varða hag þeirra.
- Tryggja að ellilífeyrir fylgi launaþróun og tryggja valfrjálsa frestun töku hans.
- Sjá til þess að lífeyrissjóðsgreiðslur og atvinnutekjur skerði ekki lögbundinn ellilífeyri.
- Styðja við kynslóðablöndun.
- Efla heimahjúkrun og heimaþjónustu svo fólk geti búið heima sem lengst.
- Uppræta fátækt og tryggja lágmarksframfærslu.
Píratar trúa því að með þátttöku allra í samfélaginu bætum við og eflum samfélag okkar. Við viljum valdefla einstaklinga til að athafna sig á eigin forsendum. Lífsgæði alls fólks, hvort sem þau eru öldruð, glíma við fötlun eða annað, skulu vera eins góð og þau geta verið miðað við aðstæður hvers og eins. Píratar vilja róttæka endurskoðun almannatryggingakerfisins með það að markmiði að skapa gagnsætt, mannúðlegt og notendavænt kerfi sem tryggir öllum framfærslu. Við viljum útrýma fátækt með því að létta skattbyrði á tekjulægstu hópana og tryggja að lágmarkslaun séu ávallt yfir framfærslumörkum. Auk þess viljum við skoða skilyrðislausa grunnframfærslu sem framtíðarlausn. Fyrir eldra fólk leggjum við áherslu á fjölbreytt úrræði sem styðja við sjálfstæði og lífsgæði. Með aukinni endurhæfingu og húsnæðislausnum sem endurspegla þarfir fólks, viljum við stuðla að sjálfstæði og valdeflingu þeirra sem þurfa mest á þjónustu að halda. Með lífsgæðakjörnum og kynslóðablönduðum búsetuúrræðum getum við rutt brautina fyrir samfélag þar sem allir fá að lifa með reisn, óháð aldri, efnahag eða aðstæðum.
Samfylkingin
Öflug og þróttmikil velferðarþjónusta er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði og ábyrgri hagstjórn sem miðar að fullri atvinnu. Velferðarsamfélag jafnaðarstefnunnar byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla. Andstæða þess er samfélag ójöfnuðar og ölmusu þar sem lífsafkoma almennings er háð geðþótta hinna fáu og fjársterku. Við viljum að velferðarþjónustan komi okkur öllum til góða og sé til staðar á öllum æviskeiðum.
Í Framkvæmdaplani í húsnæðis- og kjaramálum eru sett fram áherslumál Samfylkingarinnar í velferðarmálum fyrir næsta kjörtímabil með það að markmiði að tryggja landsmönnum örugga afkomu um ævina alla. Í haust lagði þingflokkur Samfylkingarinnar fram frumvarp til breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, í þeim tilgangi verja afkomuöryggi foreldra og draga verulega úr þeim tekjumissi sem foreldrar verða fyrir við töku fæðingarorlofs, meðal annars með breyttu viðmiðunartímabili á útreikningi fæðingarorlofsgreiðslna. Sérstök áhersla er lögð á að tryggja afkomuöryggi þeirra tekjulægstu og auka möguleika launafólks á að verja tíma með börnum sínum eftir að fæðingarorlofi lýkur með innleiðingu sjálfstæðs réttar foreldris til vinnutímastyttingar að loknu fæðingarorlofi. Lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi verði hækkaðar og höldum 450 þús. kr. af viðmiðunartekjum óskertum.
Samfylkingin vill lögfesta rétt barna til leikskólavistar frá tilteknum aldri líka og gert hefur verið í öðrum ríkjum Norðurlanda, tryggja sveitarfélögunum fjármagn til reksturs leikskóla og koma þróun barnabóta í fastari skorður og tryggja aukinn stuðning við barnafjölskyldur í formi barnabóta.
Þegar kemur að málefnum eldra fólks vill Samfylkingin í fyrsta lagi stöðva alfarið kjaragliðnun milli launa lífeyris frá Tryggingastofnun og binda greiðslur almannatrygginga til eldra fólks og öryrkja við launavísitölu. Þá þarf að hækka frítekjumark ellilífeyris úr 25 í 60 þús. kr. á mánuði til þess að eldra fólk njóti meiri ávinnings af því að hafa greitt í lífeyrissjóð og koma frítekjumarki vaxtatekna þannig að vaxtatekjur upp að 300 þús. kr. á ári skerði ekki greiðslur almannatrygginga og fækka þar með bakreikningum frá TR.
Vinstri Græn
Aðgengi að velferðarþjónustu eru mannréttindi.
- Vinnum markvisst gegn fátækt barna. Bætum hag tekjulægri fjölskyldna með því að halda áfram að styrkja barnabótakerfið, með áherslu á einstæða foreldra.
- Útrýmum biðlistum í þjónustu við börn þar sem hvorki efnahagur né búseta mega vera hindranir. Styrkja þarf verulega meðferðarúrræði fyrir börn með fjölþættan vanda.
- Klárum að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með tímasettri áætlun í samstarfi við sveitarfélögin. Afnema þarf skerðingar á lægstu greiðslum í fæðingarorlofi og hækka fæðingarstyrk.
- Einfalda þarf bótakerfið, lífeyrisþegum til hagsbóta og hækka framfærslu tekjulægstu lífeyrisþega. Grípa þarf snemma inn í þegar fólk tapar starfsgetunni og tryggja í auknum mæli þjónustu og stuðning strax á fyrstu stigum.
- Lögfesta þarf Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
- Tryggja þarf nægt fjármagn til málaflokks fatlaðra og greiðan aðgang að hjálpartækjum. Auka þarf sérstaklega tækifæri fatlaðs fólks á vinnumarkaði.
- Vinna þarf áfram að notendasamráði og valdeflingu notenda velferðarþjónustunnar.
- Forvarnarstarf þarf að styrkja. Efling heilbrigðrar sjálfsmyndar barna og fræðsla um holla lífshætti og gagnkvæma virðingu, eru bestu forvarnirnar. Efla þarf forvarnir í geðheilbrigði og stuðning og ráðgjöf í skólum.
- Móta þarf markvissa stefnu í áfengis-, tóbaks- og vímuvarnarmálum. Tryggja þarf fólki með vímuefnavanda öruggt og tryggt meðferðarúrræði.
- Snúa þarf af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna en styrkja aðgerðir gegn sölu, innflutningi og framleiðslu.
- Brýnt er að endurskoða lög og bæta aðstæður langveikra og alvarlega fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra.
- Réttur fólks til grunnþjónustu á að vera tryggður með skilgreiningu á lámarksþjónustuviðmiði ríkis og sveitarfélaga. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga á að vera mannsæmandi.
Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í velferðarmálum: https://vg.is/stefna/velferdarstefna/ Stefna Vinstri grænna um jöfnuð og félagslegt réttlæti: https://vg.is/stefna/jofnudur-og-felagslegt-rettlaeti/
Ábyrg Framtíð
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.